sunnudagur, 1. júní 2014

Játning átakssjúks lotufíkils

Þessi mynd tengist efni færslunnar ekki 
beint, en þó er hún það skásta sem ég fann
í safninu. Hún er sett hér eingöngu fyrir 
sakir bættrar sjónrænnar upplifunar, 
enda eru myndalausar færslur alveg 
svakalega leiðinlegar!
Það er komið að því að gera játningu og játning dagsins er þessi: Ég á það til að gera breytingar á lífi mínu sem eru ekki varanlegar. Svo hætti ég og sný mér að næsta átaki.

Ég veit, þetta er hræðilegt. Þegar ég sé þennan eiginleika í öðrum finnst mér alls ekki mikið til hans koma og þess vegna hef ég í gegnum árin reynt að draga niður í honum hjá mér, reynt að láta ekki á honum bera. Það er ekki fyrr en núna síðustu misserin að ég hef áttað mig á því að þessi eiginleiki er mér nauðsynlegur og án hans væri margt öðruvísi í mínu lífi. Án hans hefði ég hreinlega ekki náð að harka mér í gegnum óþolandi erfiðleika og afreka allt það sem ég get verið stolt af í mínu lífi. Núna þegar ég er orðin meðvituð um þetta, get ég í raun beitt þessum eiginleika mér í hag og náð ótrúlegum árangri í hverju sem hugurinn girnist. Bara út af þessum galla í mér frábæra eiginleika!

Mér finnst til dæmis mjög eftirsóknarvert að vakna snemma á morgnana. Sjálf er ég engin sérstök morgunmanneskja, nema síður sé, en mér finnst þetta samt eftirsóknarverður eiginleiki sem ég vildi að ég byggi yfir. Allir þeir sem njóta velgengni í lífinu fara víst übersnemma á fætur á morgnana. Þannig að um tíma fór ég að fara snemma í háttinn og var jú miklu sprækari þegar vekjarinn hringdi að morgni. Mér hefur jafnvel einstaka sinnum tekist að rúlla mér á fætur fyrir klukkan sex á morgnana og vonað að Á manneskjan ég hefði "breyst" eitthvað til frambúðar, en nei. Það er ekki svo.

Svo eru það breytingar sem mér finnst eftirsóknarvert að gera á mataræði: að drekka sitrónuvatn, boost, borða meiri ávexti, drekka meira vatn, bara nefndu það. Ég hef tekið skurk í þessu öllu og meiru til og kannski haldið að ég hafi "breyst" eitthvað til frambúðar, en nei. Það er ekki svo.

Önnur áhlaup sem ég hef staðið fyrir eru til dæmis ótal mörg bloggátök (sem ég er mjög þakklát fyrir eftir á, alls konar minningar þar sem ella hefðu glatast), lestrarátök (samanber Lestur ársins 2013 og 2014), fróðleiksátök (rifja upp sauðalitina, eða þá örnefni, nú eða fuglaheiti og fánuna). Hananú! Best ég segi það bara hreint út: ég er átakssjúkur lotufíkill sem gerir tímabundin áhlaup á alls konar verkefni, klárar þau og snýr sér síðan að öðru!

Og hvað með það? Þarf ég eitthvað að breytast? Er það ekki bara kostur í sjálfu sér að geta gert áhlaup á hvað sem er tæklað það án þess að gera endilega breytingu sem varir um aldur og ævi? Er það ekki bara hluti af mér sem ég á bara að virkja og nýta til hins ýtrasta?

Með þetta í huga kynni ég næsta átak lotufíkilsins: daglegar bloggfærslur í júnímánuði!
Jebbsí Pepsí, þetta er klappað og klárt og ekki seinna vænna að byrja. Ég er að henda mér alveg út í djúpu laugina hérna, því ég hef aldrei skrifað í svona marga daga samfleytt og raunar getur alveg farið svo að suma dagana verði meira um myndir en texta í færslunni. En það verður bara að hafa það.

4 ummæli:

Ragnheiður sagði...

Það er gott að þú ert komin út úr skápnum með þetta. Við höfum eflaust fengið svipuð lotugen þar sem ég sé mig speglast í lýsingu þinni. Hlakka til að sjá daglegar færslur þennan mánuðinn.
Faðmlag til þín elsku systir :*

Árný Þóra Ágústsdóttir sagði...

Ég mundi halda að fjölbreytileikinn væri ávalt kostur en ekki löstur :-)
Átaksfíkn eða ekki. Stundum þarf bara að breyta til og fá smá krydd í tilveruna.

HelgaB sagði...

Ó hvað ég er ánægð með þetta júníátak þitt (á sama tíma í fyrra hættir þú á facebook, það var ekki eins gjöfult fyrir mig en aðdáunarvert engu að síður). Haltu áfram að gera allskonar, meira og betra! Þú ert best <3

Björg sagði...

Knús, þið eruð uppáhaldslesendurnir mínir, svo jákvæðar og hvetjandi :)