laugardagur, 27. júní 2015

Vikugram

Ég get verið dugleg að setja myndir inn á Instagram, svona leit síðasta vika út þar:
Ég keypti þessa bók í dag. Allir vitlausir í hana og ég skil það ósköp vel,
sjúklega gaman að gleyma sér í þessum garði :)

Við erum að passa Erró, hann vill vita hvar allir eru og af því hann
er svo lítill og sætur þá má hann sitja uppi í glugga. Krúttið.

Stundum fást ekki allir til að koma inn á kvöldin. Kvöld eitt í vikunni
varð þessi eftir úti á trampólínu með sæng og kodda.

Eftir hörkupúl í garðinum færðu grísirnir mér súkkulaðibúðing 
með rjóma, svo yndislega góð við mömmu sín alltaf hreint!

Frumraun í pallamálun. gekk bara ansi vel finnst mér. 
Það er ýmislegt sem grasekkjur fást við ;)

Þetta er smærri þrællinn á E9.

Ég var að klára að rista þessa í sundur *hrollur
Alltaf jafnerfið tilhugsun!

Þessi er orðinn ansi lunkinn við að mála.

Babycorn. Myndin utan á pakkanum var ekki af þessum
skrímslum, heldur af litlum sætum maísplöntum. Ómæ.

Þessi elska beið mín þegar ég kom heim úr vinnunni í vikunni.
Þessi börn, þessi börn!

Dásamlegt að geta teygt sig í ferskt krydd út í glugga!
Þetta knippi fór í marineringu fyrir grillkjöt, slúrp.

miðvikudagur, 17. júní 2015

Skandall

Júní hefur nú oft verið líflegur bloggmánuður hjá undirritaðri, en ekki í ár. Auðvitað gæti ég kennt um annríki og svoleiðis, eða þá ég gæti sagt frá því sem hefur átt hug minn allan síðasta mánuðinn... þori því varla en segi það samt. Á einum mánuði hef ég horft á fjórar seríur af Scandal, hvern einasta þátt! Það eru heilir 69 þættir og þar sem hver þáttur er um 40 mínútur er fljótlegt að komast að þeirri niðurstöðu að hér er um að ræða 2.760 mínútur eða 46 klukkustundir!
Olivia Pope er æði, svona þegar maður
kemst yfir varirnar og angistarsvipinn...
Svona eftir á að hyggja hefði verið hyggilegra að nýta þennan tíma betur og í eitthvað annað gáfulegra. Því maður er jú stöðugt að reyna að gera það sem er gáfulegt og skynsamlegt. En æ, stundum verður maður bara þreyttur á því og vill bara gera eitthvað jafn áreynslulaust og horfa á seríur, gleyma sér algerlega og njóta þess að vera heilalaus um stund... tja eða um 46 stundir í þessu tilfelli! Ég á það nefnilega til að hætta ekki fyrr en verkefni er lokið, og fyrir mér var þetta seríugláp mjög alvarlegt verkefni sem varð að ljúka :)

En alla vega, nú hef ég snúið aftur í heim hinna eðlilegu þar sem enginn svíkur, pyntar, myrðir, framhjáheldur eða notar leyndarmál sem gjaldmiðil. Úff, þetta verður erfið aðlögun!

Eitt af því sem beið skaða af þessu heilalausa tímabili var bókalestur, en aðeins ein bók lá í valnum eftir þennan mánuð (Kantata) svo ég þarf greinilega að taka mig á og keyra lestrarvélina í gang. Í morgun byrjaði ég á Bókaþjófnum eftir Markus Zusak, en svo vill til að þetta er fyrsta bókin eftir karlhöfund sem ég hef lesið í marga mánuði! Já, alveg ómeðvitað eru síðustu 13 bækur sem ég hef lesið eftir kvenhöfunda, þær hafa einhverra hluta vegna frekar kallað til mín þegar ég rölti um bókasafnið í lestrarleit.

Hjá þessari konu, sko mér, fylgir auknum lestri alltaf aukin skriftarþörf, svo væntanlega eru fleiri færslur í fæðingu (bara búin að glósa hjá mér þrjár hugmyndir að færslum á meðan ég skrifa þetta...). Að horfa á sjónvarp drepur einhvern veginn hverja einustu skapandi taug í mér, þótt auðvitað sé stundum gott að kúpla sig út. Þannig að nú tekur við tímabil sjónvarpsfráhalds og sköpunargleði. Í það minnsta þar til 24. september, en þá herma fréttir að fimmta serían af Scandal komi í sýningu!