miðvikudagur, 22. desember 2010

Piparkökuhús 2010

Hér gleymdist alvega að setja inn upplýsingar um Piparkökuhúsin sem í ár urðu þrjú... Þegar listrænn ágreiningur kemur upp er best að leysa málið þannig!


Sólin með glæsilegt hús sitt! Sjáið jólatréð og marsipanstrompinn :)



Hryllingshús, takið eftir blóði þakinni gröfinni þaðan sem náhvítur handleggur teygir sig til himins... Í garðum mátti einnig finna afhöfðað lík og fleira skemmtilegt. Svo hangir náttúrlega draugur út um gluggann þarna :)



Húsfreyjuhöllin fékk ljós og fékk einnig að standa fram yfir jól. Öðrum húsum var fórnað samdægurs hinum til viðvörunar...


laugardagur, 6. nóvember 2010

Bruðl eða ávani?

Mig langar að skrifa aðeins um sultu!


...Og svolítið um það hvernig við gerum hluti á ákveðinn hátt án þess að vita endilega ástæðuna. Sagan um konuna sem hlutaði sunnudags-lærið alltaf í tvennt fyrir steikingu er klassík. Mamma hennar hafði alltaf gert það þannig og þess vegna gerði þessi kona slíkt hið sama. Hvers vegna? Þetta gerðu þær vegna þess að amman hafði alltaf gert þetta svona. Þegar farið var að grafast fyrir um það hvers vegna amman gerði þetta kom í ljós að hún hafði haft gilda ástæðu. Amman hafði átt svo lítið steikarfat að það komst ekki ofaní nema í tvennu lagi!

En þá að sultunni. Eitt er það sem ég hef alltaf gert á ákveðinn hátt og vissi ekki af hverju fyrr en fyrir stuttu. Og mér þykir svo vænt um ástæðuna að úr því sem komið er mun ég engu breyta.

Þegar ég fæ mér ristað brauð þá hef ég ákveðinn hátt á því. Smjörið fer auðvitað fyrst, síðan fer sultan og osturinn síðast. Fyrir mér er þetta eðileg röðun áleggs og hitt fólkið sem setur sultuna OFAN Á ostinn er að fara algerlega rangt að þessu!

Mér finnst sagan á bak við þessa röðun yndisleg og langar að deila henni.

Ristað brauð er svona fjölskylduréttur fyrir mér, því í minningunni borðaði mamma mín ristað brauð og kaffi í hvert mál, kvölds, morgna og um miðjan dag (Hei, mín minning!). Mamma setti smjör, marmelaði og ost í þeirri röð á brauðið. Og það er ástæða þess að ég geri eins (nema með sultu því mér finnst hún bara betri en marmelaði).

Mamma hafði samt sína ástæðu eins og amman í sögunni hér að ofan. Fyrir henni voru marmelaðikaup óttalegt bruðl og jafnframt eitt af því fáa sem hún leyfði sér að bruðla með. Hefði mamma sett marmelaðið ofan á ostinn...eigandi sjö börn... þá hefði krukkan ekki dugað lengi eins og gefur að skilja. Þannig að mamma breiddi yfir bruðlið sitt og gerði það ósýnilegt með osti. Ég sé hana fyrir mér njóta sætleika hvers bita og... eftir á að hyggja... finnst mér ekkert skrýtið þótt hún hafði borðað ristað brauð í hvert mál ( Hei...aftur... MÍN minning!!).

Þegar ég spurði mömmu út í þetta þá sagðist hún ekki hafa viljað venja okkur á sætt á brauðið... ókei, kannski var það hin opinbera ástæða, en sama er mér. Ég mun halda áfram að smyrja ristaða brauðið í þessari röð og verður hugsað til mömmu í hvert einasta sinn :)

Verið góð við hvert annað,
knús, yfir og út!

miðvikudagur, 3. nóvember 2010

Fyrsti snjórinn

Þar kom að því, jólasnjórinn er lentur og ég því samstundis dottin í jólaskap :)
Er sest með bókina "Making great Gingerbread Houses" og ætla að lesa hana í spað á næstu dögum.

Fyrsta piparkökuhús lífs míns var skapað fyrir ári síðan, blessuð sé minning þess, og þetta árið verður frammistaðan betrumbætt og smá metnaður lagður í þetta!

Snjórinn fellur og það fyrsta sem syni mínum dettur í hug að gera er þetta:

Hoppa á trampólíninu í nóvember í hundslappadrífu og myrkri, það er lífið :)

sunnudagur, 3. október 2010

Helgin

Jæja, nú hlýtur heilsan að fara að lagast. Fór í blóðprufu og fékk niðurstöður á föstudaginn og lyfseðil fyrir járni og banönum (eða bönunum?). Þá á mér víst að fara að líða betur. Held að orkan sé jafnvel aðeins að aukast hjá mér, a.m.k. hefur helgin verið afkastamikil og góð.

Í gærmorgun Gengum við til Góðs sem var ánægjulegur klukkutíma göngutúr. Allir sem voru heima og með meðvitund þetta snemma á laugardagsmorgni gáfu í baukinn (annars hótaði ég þeim að þeir fengju á baukinn, heheheee). Sumir voru auðvitað ekki vaknaðir ennþá og þóttust ekkert heyra í dyrabjöllunni. Svo voru þeir sem voru ekki enn farnir að sofa og vildu bara fá okkur með í partíið! Þar var einn sérstaklega gjafmildur og gaf bara allan ferðasjóðinn sinn eins og hann lagði sig. Hann hefur svo vonandi farið að sofa fljótlega, gat varla staðið í lappirnar greyið!

Eftir gönguna skelltum við okkur í sund og fengum m.a.s. smá sól á okkur, mjög ljúft. Dagurinn var svo toppaður með heimagerðri pizzu í kvöldmatinn, slúúúrrp!

Í dag rúlluðum við okkur í Borgarnes að sjá Einar Áskel í Brúðuheimum. Mikið flott og mikið gaman, væri alveg til í að fara þarna aftur til að eyða eins og dagsparti í að skoða sýninguna og umhverfið þarna í kring. Stefnum bara að því næsta sumar.

Og svo eitt til viðbótar sem tókst að afreka þessa helgi, ég er nánast búin að taka upp kartöflurnar! Bara smá horn eftir. Þannig að orkan hlýtur bara að vera á uppleið. Vonandi kemst ég líka út að hlaupa bráðum, hef ekkert komist í það í þrjár vikur og það er nú ekki gott...

Annars er margt spennandi framundan sem jafnvel verður skrifað um eftirá hér :)

mánudagur, 27. september 2010

Háin þrjú

Ég er lasin. Ó, svo lasin.
Alveg rólfær þannig, svoleiðis að maður mætir auðvitað í vinnu og sinnir svona þessum helstu daglegu skyldum. En er samt svo lasin, ó svo lasin.

Mér leiðist svona hálfkák. Vil bara ljúka svona hlutum af hið fyrsta, taka þetta með trukki, drífa þetta af, liggja eins og skotin í dag eða tvo og verða svo 99% á ný. Þetta ástand núna er hins vegar að gera mig brjálaða. Háin þrjú, Hóstaköst, Hor og Hausverkur draga mig niður í svona 50% sem er til lengri tíma litið langt fyrir neðan starfhæft bil! Á pantaðan tíma í viðgerð í vikunni, vona bara að eitthvað sé hægt að gera fyrir mig.

Sumir eiga erfitt með að hemja sig þegar þeir hitta lasið og kvefað fólk. Ráðin koma úr öllum áttum, alveg óumbeðin:
"Passaðu að þér verði ekki kalt"
"Éttu hvítlauk"
"Nagaðu engifer"
"Sjóddu sítrónu"
"Borðaðu hunang"
"Hitaðu rauðvín"
...
"Sofðu í öllum fötunum og drekktu heitt rauðvín með hvítlauk, hunangi, engifer og sítrónu..."

laugardagur, 25. september 2010

Sushi

Tölum aðeins um kvöldmatinn. Hann er óþrjótandi uppspretta orða :)
Í kvöld verður eldhúsinu mínu breytt í tilraunaeldhús því á matseðlinum er Sushi!! Í fyrsta sinn sem það er á boðstólunum hér og krakkarnir eru að springa úr spennu.

Húsmóðirin keypti kjána-heldan byrjendapakka sem inniheldur allt sem þarf: bambusmottu, Nori-blöð, hrísgrjón, hrísgrjónaedik, soyasósu og wasabi. Síðan er silungurinn og krabbinn er að þiðna í þessum töluðu skrifuðu orðum og gúrkan og avocadoið bíða spennt á kantinum. Ég slefa bara við að skrifa þetta!

Nú bara ligg ég á netinu að skoða sushi uppskriftir og læt mig dreyma um að fara út að borða hér:
Osushi
Það getur ekki verið slæmt að borða þar sem maturinn kemur til manns á færibandi!! Gulir diskar kosta þetta mikið, grænir diskar kosta aðeins meira, bambusdiskarnir örlítið meira en það. Sitjandi þarna með allan þennan mat á stöðugri ferð er ekki víst að ég geti tekið fulla ábyrgð á gjörðum mínum...

Mmmm get ekki beðið til kvölds, slúrp!

mánudagur, 30. ágúst 2010

Gáta vikunnar...

Ein er sú athöfn sem ég stunda eins oft og ég get. Stundum á morgnana en oftar á kvöldin. Yfirleitt um helgar.

Ekki þarf að kosta mikið til hennar, en uppskeran er ríkuleg.

Ótrúlega margir stunda þetta, sumir halda því fyrir sjálfan sig en flestir eru ófeimnir við að ræða þetta við aðra og fá góð ráð og ábendingar.

Sumir vilja helst gera þetta í einrúmi en öðrum finnst best að hafa aðra með sér. Sumir ganga svo langt að gera þetta í stærri hópum...enn aðrir með alveg nýju fólki í hvert sinn, en ég ætla nú ekki að ganga fram af lesendum með nánari lýsingum á því!!
Og hvað er svona heillandi við þennan verknað? Tja, suma grípur hin taktfasta hrynjandi, aðra heillar ör hjartsláttur og svitakóf. Enn aðra grípur keppnisskap og samanburður við aðra iðkendur hvetur þá áfram.

Maður reynir auðvitað að gera þetta í hljóði, en eins og allir vita sem reynt hafa þá getur það oft og tíðum reynst ansi erfitt. Iðulega læðast stunur yfir varirnar, auk þess sem allir líkamsvessar byrja að flæða óhindrað með tilheyrandi snörli og þvíumlíkum óhljóðum. Vegna þessa reyni ég alltaf að muna að hafa með mér pappír.

Auðvitað er maður ekki alltaf upplagður eins og gefur að skilja. Þreyta og orkuleysi eru algengar afsakanir og þegar kemur að þessari iðju er höfuðverkur er fullkomlega gild ástæða til að taka sér frí.

Ó, ég gæti haldið endalaust áfram!

Einhverjar hugmyndir um hvað ég er að tala?

fimmtudagur, 12. ágúst 2010

Útilegur og fjallgöngur

Þetta hefur verið ágætis sumar. Svo ágætt reyndar að ég hef ekki átt yfir það orð aflögu til að setja hingað inn :-)
Á leið á Botnssúlur. Séð frá Sandhrygg út Hvalfjörðinn.

En svona það helsta um útilegur og fjallgöngur:
Veiðivötn voru grisjuð fyrstu helgina í júlí. Flott veður og 28 fiskar á okkur fjögur.
Seinna í júlí fórum við í útilegu í Berserkjahraun með Snorra og Ínu og áttum þessar líka Góðu stundir á Grundarfirði að auki.
Um verslunarmanna helgi tvölduðum við hjá mömmu, Helgu og Pétri við sumarbústað í Grímsnesi. Mjög gaman og lærðum við m.a. nördaspilið Kubb sem reyndist hin mesta skemmtan, spiluðum Fimbulfamb svo eitthvað sé nefnt. Gistum reyndar síðan þriðju nóttinu í bústaðnum hjá Siggu og Jonna, grilluðum saman og höfðum notalegt.
Svo eru þær Íris og Ágústa báðar búnar að vera í fríi á Íslandi og það er alltaf yndislegt að sjá þær en að sama skapi leitt þegar þær fara aftur.

Fjallgöngur hafa nú ekki verið stundaðar eins grimmt og ætlað var. Við Ágústa fórum bæði á Háahnúk og Geirmundartind þegar hún var hér. Síðan fórum við Tóti, Ragnheiður og Alli á Botnssúlur sl. sunnudag. Við höfðum stefnt að þessu í allt sumar og loksins tókst það. Frábær ganga, passleg áskorun þótt þetta hafi verið erfitt á köflum.

Hana, búið að skrifa um útilegur og fjallgöngur eins og ég ætlaði mér. Ferlegt að kunna ekkert að blogga um annað lengur...

sunnudagur, 20. júní 2010

Básar


Við fórum að Básum í Goðalandi á föstudaginn og tjölduðum í tvær nætur ásamt Snorra, Ínu og stóðinu þeirra. Okkur leist nú ekkert sérstaklega á blikuna á leiðinni þangað, því mikið er af ösku þarna á svæðinu og vegurinn erfiður yfirferðar. Greinilegt var hvar hlaupið hafði í árnar við eldgosið og sérstaklega undir Gígjökli þar sem þvílíkir jökulruðningar sýndu hvar hlaupið rutt sér leið niður í Markarfljót.

Við komumst þetta samt klakklaust, fórum bara varlega yfir vöðin og tjaldvagninn var skraufaþurr þegar á leiðarenda var komið.

Þetta var frábær ferð, við fórum í stutta göngu á laugardeginum, svokallaðan Básahring. Síðan skelltum við okkur í Stakkholtsgjá, sem er 2km djúp og einstaklega falleg. Yfirþyrmandi hamraveggirnir beggja vegna iðagrænir upp á brúnir og bullandi jökulá hlykkjast eftir gjánni miðri. Við þurftum m.a.s. að taka af okkur skóna á einum stað og vaða yfir ána, sem var í fínu lagi. Gaman að fá ösku á milli tánna, aldrei gert það áður!

Síðan var náttúrulega bara grillað og borðað út í eitt og virkileg notalegheit í hávegum höfð allan tímann. Krökkunum fannst þetta æði, þvílík ævintýri alls staðar. Ekki spillti fyrir að við skoðuðum Seljalandsfoss á heimleiðinni í bak og fyrir. Það var síðan voða gott að komast í sund Hellu og skola öskurykið af hópnum.

Dásamleg ferð, hvað ætli verði næst?

mánudagur, 14. júní 2010

Fyrsta útilega sumarsins

Fyrsta útilega sumarsins var farin núna um helgina þegar við tjölduðum á Þingvöllum í tvær nætur ásamt Herði og Árnýju og strákunum þeirra. Þetta var nú frekar í blautari kantinum en samt þrælskemmtilegt og allir skemmtu sér konunglega. Við flýðum rigninguna á Þingvöllum á laugardeginum og keyrðum austur í Laugarás þar sem við heimsóttum dýrin í Slakka.
Sólin og svangi kálfurinn
Pabbinn og Vinurinn

Svo er bara spurning hvert farið verður um næstu helgi :)

sunnudagur, 30. maí 2010

Akrafjallshringurinn 30. maí 2010

Akrafjallshringurinn 30. maí 2010
Bogga, Ragnheiður og Árný
16,5 km á 6,5 tímum
Alvöru fjallganga með fjallavatnafótabaði og öllum pakkanum.

mánudagur, 24. maí 2010

sunnudagur, 23. maí 2010

Tindinum náð

Við hjónin fórum í fjallgöngu í gær og tókum synina með. Vinurinn er eldhress eftir þetta allt saman, en Neró er dálítið þreyttur greyið og er enn að hvíla sig eftir áreynsluna...

Ferðinni var heitið á Háahnúk á Akrafjalli, tindinum var náð á einumoghálfum tíma (sá sem skrifaði í gestabókina á undan okkar var 31 mínútu að eigin sögn...)

Á morgun: Síldarmannagötur.

Ef til vill verður þetta fjallgöngusumarið mikla, hvur veit!

föstudagur, 9. apríl 2010

Eggjakaka með spínati og fetaosti

Hér kemur nú uppskrift sem ég bjó alls ekki til sjálf, en vildi einungis óska að svo hefði verið. Þetta er eggjakaka með spínati og fetaosti, bökuð í ofni. Hún er (brjál)æðislega góð á bragðið og ég mæli sérstaklega með henni sem hluta dögurðar, ójá.


8-10 egg
1/2 l. matreiðslurjómi
200 gr. spínat
200 gr. fetaostur í teningum
salt og pipar

Píska létt saman rjóma, eggjum og kryddi. Bæta spínati og fetaosti útí. Velta létt saman, bakað í eldföstu formi við 200 í ca. 20 mínútur (fer eftir stærð formsins og þykkt kökunnar).


mánudagur, 5. apríl 2010

Kókostvist

Mig langar að deila með fróðleiksfúsum lesendum hvað ég eldaði og át í kvöldmatinn núna áðan. Fyrir valinu varð endurbættur, þýddur og staðfærður Mango Chutney kjúklingur. Ég hef oft gert hann áður við mikinn fögnuð matargesta, en í kvöld bar svo við að ég átti til dós af kókosmjólk.

Nú getur svo sem vel verið að lesendur hugsi með sér "og hvað með það?". Mig langar að svara því til að ég hef aldrei áður átt dós af kókosmjólk, og þar af leiðandi ekki eldað nokkurn skapaðan hlut með því innihaldsefni áður. Nú bregður sem sagt svo við að ég á þessa áðurnefndu dós til, og Vinurinn fer fram á að fá að smakka þessa mjólk. Auðvitað fær hann það (eins og flest annað sem hann biður um), og vill síðan ekki drekka hana (eins og flest annað sem hann biður um), þannig að uppi sit ég með barmafulla dós af ilmandi kókosmjólk.

Við erum að tala um mjög hagsýna húsmóður, sem fer í skyndi að hugsa sér hvað mögulega sé hægt að gera við þessa mjólk því ekki er í boði að henda henni. Nú er ég ekki alin upp á framandi mat, eða neinu svoleiðis. Borðaði soðna ýsu og kótilettur og þess háttar mat. Hakkbuff stundum, og mikið af mjólkur- og berjagrautum. Og þá erum við komin að ástæðu þess að ég segi núna söguna af eldamennsku kvöldsins. Þar sem ég þefa af kókosmjólkinni þá fæ ég þvílíkan matarinnblástur. Ég finn nefnilega ekki bara lykt af kókos, heldur líka lykt af karrýi, steiktum kjúklingi og mangói! Ójá, kjellingin er komin með svo þroskað bragðskyn að heil uppskrift verður til bara við að finna lykt :)

Svo komst ég reyndar að því, þegar ég fór að versla í matinn, að það sem ég ætlaði að elda var bara gamli góði Mango Chutney kjúklingurinn með kókostvisti. Eeen ég er samt stolt af afrekinu og hér kemur hann þess vegna samt sem áður:


_______________________________________

  • Mango Chutney kjúklingur - með kókostvisti

  • Kjúklingabringur kryddaðar með salti og pipar og snöggsteiktar á pönnu

  • Settar í eldfast mót

  • Kókosmjólk, hálf dós Mango Chutney og ca. matskeið karrý hrært saman

  • Hellt yfir kjúklinginn

  • Eldað við 180° í ca. hálftíma

  • Borið fram með hrísgrjónum og brauði
    _________________________________________

    "

laugardagur, 27. mars 2010

Þegar lesendur eru farnir að hrjóta...

...er víst komið að því að setja inn nýja færslu!

Ég finn alveg að það er erfiðara að blogga eftir að FB kom til sögunnar. Maður er hreinlega orðinn háður stuttum stöðuuppfærslum í formi einnar setningar, engar refjar.

Ta.m. gæti ég sett hérna inn innihaldsríka færslu um brjálæðislega fallegt og kröftugt eldgos og hvernig Íslendingar sogast í þessum töluðu orðum að gosstöðvunum eins og flugur að ljósi... íklæddir gallabuxum og strigaskóm leggja þeir á Fimmvörðuháls til að líta undrið eigin augum. Umferðateppa í Fljótshlíðinni. Ég gæti líka farið á FB og skrifað "gos og hraun, einhver?" og málið teldist dautt.

Auðvitað gæti ég líka skrifað hér heillanga færslu um ríkisstjórnina og myntkörfulánin og atvinnuleysið og angistina og uppgjöfina og allsráðandi tilgangsleysið og knýjandi flóttaþörfina á Íslandi í dag. Á FB gæti ég orðað þetta pent: "Helvítis Fokking Fokk"

Og eigum við að ræða Icesave eitthvað?

Þetta er dáldið skrýtið allt saman og spurning hvað þetta kemur til með að þýða fyrir tjáningarhæfileikana. Fyrir nokkrum árum þá voru viðhafðar miklar áhyggjur af því að bloggið myndi ganga af íslenskri tungu dauðri. Ég skrifaði m.a.s. BA-ritgerð um það efni. Núna held ég hreinlega að Facebook komi til með að verða helsti áhættuþátturinn og bloggið muni að lokum koma okkur til bjargar!

Æ, hvað ég verð að halda áfram að blogga!

Sorrý hvað þetta er leiðinleg færsla, hún átti ekkert að verða svoleiðis upphaflega en varð bara þannig á leiðinni. Ég lofa að blogga um mat næst :)

Pís át...