sunnudagur, 23. janúar 2011

Mynd vikunnar

Maður er svona næstum því að standa sig í færsluflokknum Mynd vikunnar. Reyndar er það nú þannig að síðustu daga hef ég svipast um eftir myndefni, en ekki haft erindi sem erfiði. Hér á ég auðvitað við skort á myndefni utandyra, hér innandyra er ekki þverfótað fyrir myndefni daginn út og inn þar sem sambýlisfólk mitt boðið og búið að stilla sér upp hvenær sem er :)

Utandyra hefur verið frekar súldarlegt um að litast upp á síðkastið, allt blautt og brúnt. Ekki eitt fallegt sólarlag síðan um áramót.

Þess vegna er mynd vikunnar að þessu sinni úr sömu syrpu og síðast, frá ferð minni niður á Breið á gamlársdag. Ég Gimpaði þessa mynd aðeins og sjá:
31.12.2010 - Ljósbrot
Kannski er sólin og ljósbrotið aðeins of mikið af því góða, en þegar maður er að æfa sig þá er nú öllu tjaldað til!

Nú er bara að vona að veðrið fari að lagast, ég get a.m.k. ekki tekið mynd af þessu brúna og blauta út um allt, það er alveg á hreinu :)

sunnudagur, 16. janúar 2011

Afmælisbarn dagsins

Unglingurinn minn er búinn að fylla tuginn og kominn á tvítugsaldurinn blessaður. Hann var mældur í bak og fyrir og í ljós kom að hann hefur stækkað um heila 3 cm síðan í lok október. Út af þessu öllu saman var hér heljarinnar veisla í dag og drengurinn vel sáttur eftir daginn eins og sést á meðfylgjandi mynd.
10 ára Vinur

fimmtudagur, 13. janúar 2011

Mynd vikunnar

Viti - Vitrari
Nú hef ég endurheimt myndavélina mína. Eða þannig, ég fékk reyndar nýja í dag því sú sem ég fékk í jólagjöf bilaði á gamlársdag. Það var bara komið myrkur í dag þegar ég fékk hana, þannig að mynd vikunnar er frá því á gamlársdag.

Nú er bara að vona að mynd vikunnar verði vikulegur viðburður hér eftir!

þriðjudagur, 4. janúar 2011

Rauðlaukssulta

Með hamborgarhryggnum á aðfangadagskvöld bar ég fram heimagerða rauðlaukssultu. Sultaður rauðlaukur er hrikalega góður og nauðsynlegur með góðri steik og er aðlagaðri uppskrift deilt hér með:

  • 2 rauðlaukar
  • 1 msk olía
  • 2 msk sykur (eða púðursykur? Var bara að detta það í hug núna og ætla að prófa það næst...)
  • 2 msk sérrí
  • 1 dl. rifsberjahlaup (heimagert auðvitað!)
  • 1 msk rauðvínsedik
  • 1 dl. vatn
  • Smá Maldon salt og pipar
Rauðlaukurinn er skorinn í ræmur og léttsteiktur í olíunni í potti. Öllu hinu bætt útí og látið malla í klukkutíma.
Þetta geymist alveg fram á gamlárskvöld (Svo framarlega sem það er afgangur...)

Njótið!

sunnudagur, 2. janúar 2011

Don´t worry, be happy!

Gullkorn dagsins er frá Vininum...
"Mamma, viltu hætta að nota svona mikla hamborgarasósu, ég verð hræddur um þig. Og svo er ekki eins og þið kúkið peningum!!!"