þriðjudagur, 31. desember 2013

Áramótakveðja

Þessi vika milli jóla og nýárs er mín uppáhaldsvika af öllum vikum ársins. Hana nýti ég til að fara yfir myndir og minningar, taka til í skúffum og skápum og stilla upp og gera klárt fyrir nýárið. Þetta er ég búin að vera að gera undanfarna daga og er núna alveg að verða tilbúin fyrir þessi tímamót. Þar sem ég sit hér við skrifborðið mitt sýnist mér að ekki veiti af fýsískri tiltekt líka, en ætli ég fari ekki í hana á nýársdag eins og venjulega. Tiltekt síðustu daga hefur átt sér stað innra með mér, í ranghölum og skúmaskotum hugans, þar sem af nógu var að taka enda ótrúlega magnað ár að baki.

Síðustu ár hef ég verið ansi heit fyrir áramótaheitum, en þau snúast aldrei nokkurn tímann um mataræði eða hreyfingu eða það sem er bannað. Ónei, mín heit snúast um það sem ég ætla að gera, ekki það sem ég ætla ekki að gera. Þau snúast um það sem ég vil bæta við líf mitt, ekki það sem ég vil losna við. Þau snúast um markmið og stefnu á nýju ári, að halda áfram að vera ég sjálf, ég held áfram því sem vel gengur og bæti inn við áskorunum og áherslum eftir þörfum. Fyrir ári setti ég mér markmið sem var ansi fjölþætt en í grunninn samt mjög einfalt því það snerist aðeins um eitt atriði: hamingju. Eins og ég var rosalega fegin þegar árinu 2012 lauk, þá fyllist ég smá söknuði nú þegar árinu 2013 er að ljúka, enda held ég að ég geti fullyrt að þetta ár hafi verið það allra besta sem ég hef upplifað, ég kem svo ótrúlega þakklát, rík og hamingjusöm undan þessu ári að mér vöknar pínulítið um augun þegar ég hugsa um það.

Takk allir þeir sem áttu þátt í þessu frábæra ári og megi árið 2014 færa ykkur ást, farsæld og frið, hamingju og gleði, óvæntar uppákomur og nýjar áskoranir.

Ást og út!

fimmtudagur, 26. desember 2013

Gleðileg jól!

Aðventan og jólin hafa farið ósköp vel með okkur hér á E9 og ég held að allir séu sáttir með sitt. Prófin kláruðust hjá mér 13. des og þá eiginlega lagðist ég í nokkurra daga hýði, var alveg gjörsamlega búin með batteríin og orkaði varla að gera neitt eftir vinnu, eins og ég var nú stórhuga og hafði ætlað mér að gera allt. Þar sem ekki var mikið af orku til skiptanna ákvað ég að hafa lítið um bakstur og þrif fyrir þessi jólin, en meira um góðar samverustundir og rólegheit. Þetta er spurning um að forgangsraða rétt :)

Okkar fyrsta verk eftir próflok var að baka piparkökuhús, í ár urðu þau þrjú og við röðuðum þeim upp í smávegis þorp ofan á píanóinu.





Svo gerðumst við mæðgur svo frægar að fara á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu. Það var alveg stórkostleg upplifun og við vorum alveg ákveðnar að fara aftur síðar, jafnvel strax í febrúar, en þá eiga að vera Disney-tónleikar sem okkur langar mikið á, menningarssvamparnir sem við erum!

Ég má nú líka til með að minnast á yndislega stund sem ég átti með systrum mínum rétt fyrir jól en við hittumst í miðbænum og röltum niður Laugaveginn. Veðrið var yndislegt, frost og stillt og stemningin alveg frábær, jólasöngvar sungnir, hægt að kaupa ristaðar möndlur af götusala, við skoðuðum í búðir og fengum okkur svo að borða á Primo, uppáhaldsveitingastaðnum mínum. Set hér inn eina góða af systrunum, það er nú ekki amalegt að eiga þessar dásamlegu konur að, heppin ég!



Undirbúningur jólanna fór svo fram með hefðbundnu sniði nema hvað við drógum úr jólakortaritun. Yfirleitt höfum við sent milli 30 og 40 kort á ári en þeim kortum fækkar stöðugt sem við fáum til baka og í fyrra komu heil 7... Þannig að í ár ákvað ég að jólakortaskrif væru ekki ofarlega á verkefnalistanum og sendi bara örfá, aðallega til þeirra sem hafa alltaf sent okkur og bara þau sem við gátum sjálf borið út (ég var ekki nógu tímanlega með útlendu kortin og svo er ég hvort eð er í smá fýlu út í Póstinn...). Viti menn, við fengum alveg heilan slatta af kortum, nema hvað! Ætli við tökum okkur ekki á í kortaskrifum á næsta ári, okkur finnst þetta ótrúlega góður og skemmtilegur siður sem við viljum alls ekki leggja af. Hér eru jólakort aldrei opnuð fyrr en seint á aðfangadagskvöld, þegar búið er að taka upp allar gjafir og við komin í náttfötin með kaffi og konfekt, þá lesum við jólakort og elskum að fá myndakort og jólasögur. Sorrý þeir sem fengu ekki kort frá okkur í ár, við munum leggja extra mikið í jólakortin 2014 í staðinn, þau verða sögulega skemmtileg og tímanleg og falleg!

Jólatréð var svo sett upp á Þorláksmessukvöld og pökkum raðað undir það samstundis, Aðfangadagur var hefðbundinn, möndlugrautur í hádeginu, hreint lín sett á öll rúm og sængur viðraðar úti. Dagurinn leið svo við matseld og rólegheit, ég gerði sultaðan rauðlauk og svo prófaði ég líka að gera heimagert rauðkál sem tókst með ágætum. Í matinn var hamborgarhryggur með brúnuðum kartöflum og hrísgrjónasalatinuhennarmömmu (hrísgrjón+steikt grænmeti) og í eftirrétt blaut súkkulaðiterta og ananasfrómasinnhennarmömmu. Allt heppnaðist voða vel og heimilsfólk var voða sátt. Nema með ananasfrómasinn og hrísgrjónasalatið, ég var sú eina sem borðaði þá rétti... skil ekki hvað er að þessu liði!

Enn minnkar þetta jólatré!
Á jóladag fórum við svo suður í hangikjötsveislu hjá mömmu og pabba og svo aftur upp á Skaga seinnipartinn í hangikjötsveislu hjá tengdó. Veðrið var hræðilegt, rok og mikil hálka en við létum okkur hafa það því það er ekki hægt að missa af þessum fjölskylduboðum, það er nauðsynlegur hluti jólahaldsins að hitta fjölskylduna og gleðjast saman. Ég heyri allt of marga bölva þessum jólaboðum út í eitt og skil ekki hvað þetta fólk er að meina, það væri nú lítið gaman að hanga einn heima öll jólin á náttfötunum og fara ekki út úr húsi. Það er bara gaman að þeysa milli jólaboða á jóladag, aðra daga er svo rólegra, eins og í dag á annan dag jóla er ekkert boð og við höfum bara verið í rólegheitunum heima á náttaranum að borða konfekt og afganga, alveg yndislegt :)

sunnudagur, 1. desember 2013

Smá jóló á E9

Húsfreyjan á E9 er niðursokkin í ritgerðaskrif og prófalestur þessa dagana. Það er lítill tími til að jólast, en við krakkarnir hentum þó upp smá ljósum í kvöld og kveiktum á fyrsta kertinu á aðventu"disknum". Það verður að duga í bili!
Aðventukveðja ♡

föstudagur, 8. nóvember 2013

Mánaðarskammtur

Sólsetur á Breiðinni í gær kl. 16:48
Ekki fá áfall, en hér kemur ein færsla frá bloggara sem lifir í öðru tímabelti en aðrir jarðarbúar... sver það, það getur alls ekki verið kominn mánuður frá því ég var í hlaupatúr að pára síðustu færslu! En alla vega, tíminn hefur liðið hratt þetta haustið, enda er mjög mikið að gera hjá okkur öllum. Við stöldrum samt við öðru hverju og njótum, en ég gleymdi bara að skrifa um það í mánuð, sorrý framtíðar-ég sem elskar að lesa gamlar færslur!

Þennan mánuðinn er margt og mikið búið að gerast, við fórum í Húsafell í vetrarfríinu okkar (við Tóti tókum líka frí, þvílíkur lúxus!). Svo átti Sólin auðvitað afmæli, orðin 10 ára þessi elska. Hún hélt afmælispartý fyrir bekkjarfélagana og svo annað fyrir fjölskylduna, allt með nokkuð hefðbundnu sniði. Við erum búin að fara á töfrasýningu hjá Einari Mikael, við hjónin fórum í bíó að sjá Prisoners (frábær mynd, mæli með henni) og ég er búín að syngja þrjú gigg með Stúkunum (á Fellsenda, á Höfða og í Akranesvita).

Annars er líka búið að vera mikið að gera í skólanum, mörg stór skil afstaðin og meira framundan. Miðannarkrísan mætti á svæðið upp úr miðjum október, með tilheyrandi sjálfsefa og tilgangsleysis-pælingum. Held ég hafi hrist hana af mér, og þarf að vinna slatta upp eftir hana. Ég hlakka mikið til þegar þessi vetur er búinn, kannski var pínu of snemmt að byrja á svona þungu námi strax, en þetta er þó ekki nema einn vetur. Ég finn mestan mun á því að það er erfitt að lifa í núinu þegar maður bætir fullu námi við allt sem fyrir var. Svo finn ég líka að þótt ég ætti nú aldeilis að vera vön að vera í fullu námi ofan á allt heila klabbið (halló 2002-2009) þá var miklu auðveldara að gera þetta þarna fyrir 10 árum. Ég eiginlega nenni ekki að standa í neinu svona auka núna! Auk þess sem ég skil alls ekki hvernig fólk getur einbeitt sér í námi nú til dags. Ég meina það, ef Facebook og snjallsímar hefðu verið til fyrir 10 árum, þá hefði ég aldrei náð að útskrifast úr grunnnámi...

En hvað um það, nokkrar myndir fyrir framtíðar-mig :)
Systkinin gera dúkinn kláran fyrir hrekkjavöku-afmælis-partý.
...svo fjölskyldan kæmi nú ekki syngjandi inn í vitlaust herbergi á sjálfan Afmælismorguninn mikla!
AfmælisSól! Trúi því varla að þessi brosmilda snót sé orðin 10 ára, elska hana endalaust og til baka <3 td="">
Afmælisveislan var haldin á sjálfan afmælisdaginn. Hrekkjavökuþema og 23 gestir mættu í búningum, verulegt stuð á E9 þann daginn.
Við Snorralaug í Reykholti
Húsafell!!
Heitt kakó og sykurpúðar, algert möst í útilegum og sumarbústaðarferðum.
Þetta er nú hlaupamynd úr Húsafelli. Þarna var ég að því komin að snúa við, enda komin upp að rótum Eiríksjökuls og vegurinn sagður ófær. En ég er svo mikill rebell að ég gaf í og spítti aðeins lengra áfram, ekkert að færðinni þegar maður er á góðum hlaupaskóm! Villtist svo í skóginum á leiðinni heim, en það er önnur saga...
Þessi  myndi heitir: "Villtur hlaupari kastar mæðinni"
Hollý-Hú í heita pottinum. Ljúfa líf, ljúfa líf :)

Krakkarnir eru byrjuð að spila Scrabble við mömmu gömlu. Hjúkket! Þarf aðeins að þjálfa þau betur, vonandi verður þetta fjölskyldusportið í framtíðinni - *krossaputta* -

mánudagur, 7. október 2013

Hlaupamyndir dagsins

Kalmansvík
Miðvogur

Það er nú ekkert lítið hressandi að skella sér í smá hlaup á svona fallegum haustdegi!

föstudagur, 4. október 2013

Græjukall

Vinurinn er á kafi í alls konar tilraunum þessa dagana, mjög gaman að fylgjast með. Um daginn eignaðist hann til dæmis lítinn hátalara úr ónýtu leikfangi. Þá tók hann gömul heyrnartól úr síma, skar eyrnaplöggin af og lóðaði vírana við hátalarann. Pakkaði honum svo inn í þvottasvamp og teipaði vel. Þá er kominn svona eins og hátalarapúði sem hann stingur undir húfuna sína og getur hlustað á tónlist úr símanum sínum á meðan hann labbar í skólann!
Hátalarinn

Vantar bara svampinn, það var óþægilegt að hafa hátalarann beran upp við eyrað


Svo tók við skeið þar sem Vinurinn hjólaði út um allan bæ með þessa græju á hausnum:


Ansi flott vídeó sem urðu til með þessari aðferð. Það hefði ekki gengið að teipa myndavélina á hjálminn því þá væri festingin einnota, það hefði þurft að eyðileggja hana eftir notkun. Þess vegna útbjó ormurinn opnanlegt hulstur úr pappa og teipaði hulstrið á hjálminn :)
Snillingur!

fimmtudagur, 3. október 2013

Bílalán

Eins og meðfylgjandi mynd sýnir svo bersýnilega erum við hjónin mjög samstíga og gáfuleg í öllum okkar gjörðum. Og skynsöm. Viljum samt hafa gaman og njóta lífsins. Ætli við séum ekki bara svona meðalhJón, fyrir utan það hvað við tökum okkur miklu betur út á mynd en hinir Jónarnir og Gunnurnar. Eins og sést.

Það sem fylgir hér á eftir er ágætis dæmisaga, þetta er saga af mannfræðitilraun sem gerð var nýlega hér á E9. Attenborough var að hringja rétt í þessu og falast eftir kvikmyndaréttinum... held það nú!

Alla vega, tilraun þessi gekk út á það virkja svoldið alla þessa skynsemi og gáfur hjónakornanna og kröfur þeirra um skemmti- og notalegtheit og er lesendum velkomið að draga lærdóm af þessari sögu og jafnvel hafa til eftirbreytni ef vill.

Þannig er að fyrirhuguð er endurnýjun á þarfasta þjóninum hér á bæ, nefnilega fjölskyldubílnum. Eða frúarbílnum, eins og Mr. T kallar hann þegar hann bilar. Sem gerist æ oftar enda er kvikindið orðið 12 ára og hefur alveg mátt muna fífil sinn fegurri eins og maður segir.

Sem sagt, við þurfum nýjan bíl, en við eigum ekki alveg fyrir nýjum bíl. Gætum kannski keypt undir hann dekk og einn aðvörunarþríhyrning í skottið, en lítið meira en það. Þegar svoleiðis er ástatt hjá manni, þá er náttúrulega hægt að taka bílalán. Lánið lék nú ekki beint við okkur þegar við gerðum það síðast, sælla minninga, svo ég forðast þannig byrðar á okkar herðar í lengstu lög.

Þess vegna settum við hjónin á fót söfnunarreikning. Við ætlum að safna fyrir bíl! Úr því við héldum okkur hafa efni á því að kaupa bíl og borga af honum, þá hlytum við að geta beðið með bílakaupin í eitt ár og lagt þessa mánaðarlegu afborgun til hliðar. Eftir ár ættum við allavega fyrir útborgun í bíl, slyppum með lægra lán og spöruðum stórfé á vöxtum. Það var þannig sem skynsömu og gáfulegu hjónin hugsuðu sér þetta og síðan sú ákvörðun var tekin eru liðin nokkur mánaðarmót. Um hver mánaðarmót borgum við alla reikninga og eigum afgang. Þá horfi ég þennan Bílareikning í heimabankanum og hugsa: "Neeeeeee, ekki er nú girnilegt að eyða mikið í þennan bíl, sé til í lok mánaðar ef það er afgangur...". Eins og gefur að skilja hefur yfirleitt ekki farið króna inn á þennan reikning!

Og þá kemur að lokapunkti þessarar dæmisögu, atriðinu sem draga má lærdóm af og hafa til eftirbreytni ef vill. Þannig er að í heimabankanum er hægt að nefna reikningana og mér datt í hug að breyta nafninu á Bílareikningum og nú heitir hann Ferðareikningur.Við ætlum jú að ferðast á þessum nýja bíl, rúnta um landið á honum með fellihýsið í eftirdragi og hafa gaman, njóta lífsins. Og viti menn, söfnunin hefur heldur betur tekið við sér!

Það er erfitt að safna fyrir bíl af því það er leiðinlegt að safna fyrir því sem mann langar ekki að eyða krónu í. Þess vegna þurftum við þetta nýja sjónarhorn, þennan nýja vinkil á markmiðið. Jú, við þurfum að kaupa okkur bíl, en við erum í raun að safna fyrir hringferðinni og ferðalagi um Vestfirði næsta sumar. Við erum að safna fyrir samveru fjölskyldunnar, ógleymanlegum augnablikum og yndislegum minningum, einhverju sem mun endast okkur ævina á enda. Bíllinn sjálfur er ekki markmiðið, en án hans væri erfiðara að komast þangað.

Ætli niðurstaða þessarar tilraunar sé ekki sú að maður geti áorkað hverju sem er, svo framarlega sem markmiðið sé skýrt og mann langi virkilega til að ná því. Svo er bara að leggja af stað. Ef ekkert gengur, þá er alveg reynandi að skýra markmiðið aðeins betur og átta sig á því hvort þetta sé eitthvað sem mann langar í raun.



mánudagur, 23. september 2013

Fagrir haustdagar

Síðustu dagar hafa verið undurfagrir, litríkir og bjartir. Haustdagar eins og þeir gerast bestir. Ég er á kafi í lærdómi, en reyni samt að líta upp og njóta núsins þegar færi gefst.
Við Tóti fórum tvisvar á Háahnúk í vikunni. 45 mín á tindinn í fyrri ferðinni, 40 mín í þeirri seinni. Stefnt á hálftímann með tíð og tíma :)





Neró er hrifinn af fjallaferðum sambýlisfólks síns, þessi elska!

Snæfellsjökul ber við sjóndeildarhringinn. Ótrúlegir litir í sólsetrinu undanfarin kvöld.

Síðustu kvöld hafa verið óvenju litrík. Sólarlagið hér á Esjubrautinni er engu líkt!


þriðjudagur, 17. september 2013

Skrifstofan

Þá er allt komið á sinn stað á nýju skrifstofunni minni og ekki úr vegi að setjast þar niður og smella inn nokkrum myndum af dýrðinni. Skrifstofan er í geymslunni sem er ansi þægilegt því hingað koma fáir gestir og hér ríkir mikill friður. Það eina sem heyrist er suðið í frystikistunni og það minnir mig á einn stærsta kost þess að sitja hér í geymslunni, í desember verður enginn nær Sörunum en ég! Held ég eigi pottþétt eftir að notfæra mér það þegar þar að kemur. 
...Nú langar mig að baka Sörur. Ég fæ mér þá bara súkkulaði í staðinn! Já, það er súkkulaði á skrifstofunni minni, allar alvöru skrifstofur eru með súkkulaði.
Skrifborðið mitt. Allt á sínum stað: kerti, súkkulaði, mynd af firðinum mínum fagra. Og nei, ég er ekki á Facebook í tölvunni. Uglan, innri vefur háskólans, er af óskiljanlegum ástæðum höfð í sama stíl og Facebook bara til að gera saklausum háskólanemum grikk!

Að gera sér skrifstofu inni í geymslu hljómar ekkert vel. Þessi geymsla er þó engri annarri lík, stórir gluggar sem hægt er að opna upp á gátt og fögur fjallasýn. Og já, þarna eru papriku- og chiliplönturnar að leggjast í vetrardvala. Smá tilraun, vona að þær taki við sér aftur í vor.

Sólin gaf mömmu sinni heilræði sem hún skrifaði niður og skreytti og hangir það auðvitað fyrir ofan skrifborðið. Hún er ansi lunkin við þetta :)

Fyrir ofan skrifborðið hangir líka skipulag haustannar, það er aldrei of mikið af skipulagi. Reyndar eru þarna bara þrjú námskeið af fjórum, þýskunámskeiðið mitt er sjálfsnám og ég treð verkefnunum þar bara inn á milli þegar ég get :)

miðvikudagur, 4. september 2013

Morgunstund

Við Höfðavík kl. 6:39
Hin morgunsvæfa ég vaknaði óvenjusnemma þennan morguninn og úr varð morgunganga með Neró í björtu, svölu haustinu. Við vorum mjög hamingjusöm með það, eins og gefur að skilja. Vonandi verður það að vakna kl. 5:47 útsofin og últra hress nýr siður sem helst í einhvern tíma. Ég hef að undanförnu verið hugsi um siði og venjur og væntanlega verður það fljótlega að nýrri færslu sem skýrir það sem ég á við með þessu!

sunnudagur, 1. september 2013

Fyrsti í september

Og þá er kominn september. Næturnar orðnar dimmar og kvöldin rökkurfyllt. Ég verð að viðurkenna að það er langt síðan ég hef hlakkað svona mikið til haustsins. Ég er gersamlega stútfull af hugmyndum fyrir komandi mánuði og veit að þeir verða troðnir spennandi verkefnum, viðburðum, stefnumótum og bara gleði almennt. Svo finnst mér haustverkin alltaf skemmtileg en þessa dagana er ég haldin árlegri óstjórnlegri þörf fyrir að sulta allt mögulegt og safna mat í frystikistuna. Eða eins og máltækið segir: það er hægt að taka Boggu úr sveitinni, en það er vonlaust að taka sveitina úr Boggu!

Helgin sem nú er að líða var algerlega frábær, okkur var boðið að Hreðavatni með Snorra, Ínu og co í voðalega huggulegan bústað með arni og allt! Hef aldrei áður verið í bústað þar sem logar arineldur, mjög fátt sem toppar það. Annars var þetta mikil slökun, lestur, pottaferðir, göngutúrar, át og svona þetta hefðbundna. Alveg yndislegt.

Við fundum villt jarðaber rétt við bústaðinn!

Alltaf sólarmegin. Skömmu síðar sofnaði ég og náði svona "Flíspeysu-tani". Mjög flott.

Vinurinn fékk þeyttan rjóma út í berin sín

Sól og blíða og Hreðavatn þarna í fjarskanum
Göngutúr að Hreðavatni. Sólin er alltaf að búa til eitthvað fallegt sem gleður mömmuhjartað

Þessi ástarpungur grillaði glaður hamborgara fyrir okkur þegar við komum heim. Úrhellisrigning engin fyrirstaða!