þriðjudagur, 31. desember 2013

Áramótakveðja

Þessi vika milli jóla og nýárs er mín uppáhaldsvika af öllum vikum ársins. Hana nýti ég til að fara yfir myndir og minningar, taka til í skúffum og skápum og stilla upp og gera klárt fyrir nýárið. Þetta er ég búin að vera að gera undanfarna daga og er núna alveg að verða tilbúin fyrir þessi tímamót. Þar sem ég sit hér við skrifborðið mitt sýnist mér að ekki veiti af fýsískri tiltekt líka, en ætli ég fari ekki í hana á nýársdag eins og venjulega. Tiltekt síðustu daga hefur átt sér stað innra með mér, í ranghölum og skúmaskotum hugans, þar sem af nógu var að taka enda ótrúlega magnað ár að baki.

Síðustu ár hef ég verið ansi heit fyrir áramótaheitum, en þau snúast aldrei nokkurn tímann um mataræði eða hreyfingu eða það sem er bannað. Ónei, mín heit snúast um það sem ég ætla að gera, ekki það sem ég ætla ekki að gera. Þau snúast um það sem ég vil bæta við líf mitt, ekki það sem ég vil losna við. Þau snúast um markmið og stefnu á nýju ári, að halda áfram að vera ég sjálf, ég held áfram því sem vel gengur og bæti inn við áskorunum og áherslum eftir þörfum. Fyrir ári setti ég mér markmið sem var ansi fjölþætt en í grunninn samt mjög einfalt því það snerist aðeins um eitt atriði: hamingju. Eins og ég var rosalega fegin þegar árinu 2012 lauk, þá fyllist ég smá söknuði nú þegar árinu 2013 er að ljúka, enda held ég að ég geti fullyrt að þetta ár hafi verið það allra besta sem ég hef upplifað, ég kem svo ótrúlega þakklát, rík og hamingjusöm undan þessu ári að mér vöknar pínulítið um augun þegar ég hugsa um það.

Takk allir þeir sem áttu þátt í þessu frábæra ári og megi árið 2014 færa ykkur ást, farsæld og frið, hamingju og gleði, óvæntar uppákomur og nýjar áskoranir.

Ást og út!

Engin ummæli: