sunnudagur, 28. apríl 2013

Kosningakvak

Á mínu bernskuheimili voru tveir stórviðburðir í hávegum hafðir, svona fyrir utan jól og áramót, og þá á ég við Eurovision og kosningar. Þessi kvöld eru mér ennþá í fersku minni, öll fjölskyldan samankomin, snakk og nammi í boði fyrir alla og maður mátti vaka eins lengi og maður vildi. Ég man meira að segja yfir ískrandi spennu yfir úrslitum sem ég vissi ekki hvað þýddu í raun og veru og vissi aldrei með hverjum ég ætti að halda því foreldrarnir héldu því fyrir sig hvern þau styddu. Þetta á bæði við um Eurovision og kosningar.

Svo voru kosningar núna um helgina, fjölskyldan öll samankomin, snakk og nammi í skál og horfur á langri vöku. Þá rann það upp fyrir mér að hér á E9 er þetta bara uppskrift að ósköp venjulegu kósíkvöldi! Við sitjum hérna saman velflest föstudags- og laugardagskvöld með eitthvað gotterí og horfum á sjónvarpið eða spilum fram eftir öllu. Fyrir mínum börnum eru þessar samverustundir eflaust yndislegar, en bara hreint ekkert sérstakar! Og þeim finnast þessar kosningar ekkert sérstaklega spennandi sjónvarpsefni þannig þau kjósa kannski heldur ósköp venjulegt kósíkvöld með fjölskyldunni.

Mér sýnist aðeins vera tvennt í þessu að gera, annað hvort draga verulega úr samverustundum svo þær verði ekki svona almennar og hversdagslegar, eða gefa í. Héðan í frá mun kosningavökum alltaf ljúka með flugeldasýningu. Og Eurovision-partýin enda á því að Regína Ósk og Friðrik Ómar mæta hingað í stofuna og taka syrpu fyrir okkur og 100 bestu vini okkar.

Nema hvað.


sunnudagur, 21. apríl 2013

Pallaveður

Þvílíkur sólskinsdagur sem verið hefur í dag, svo dásamlegur  að hér sit ég við skriftir úti á palli, í sólstól með sólgleraugu, á hlýrabol í þokkalegasta hita og smjatta á sítrónugosi og harðfiski með smjöri. Ég játa að þetta síðasta er kannski ekki það sem vænta mátti helst í þessum kringumstæðum, en þegar harðfiskþörfin knýr dyra fær maður ekki flúið. Ekki einu sinni sítjandi í sólbaði úti á palli. Örugglega af því ég er nú einu sinni fyrrum harðfiskbóndadóttir. Sítrónugosið er þó meira í takt við aðstæður, nýjasta æðið mitt, minnir á sólskin í dós. Tjisssss!

sunnudagur, 14. apríl 2013

Tagine


En hvað ég væri til í að eiga Tagine pott akkúrat núna. Tagine er leirpottur ættaður frá Marokkó og notaður er til að elda alls kyns lamba- og kjúklingarétti, inni í ofni eða á hellu. Mér skilst að útkoman sé dásamlega safarík og meyr, enda er kjötið hægeldað með alls konar kryddi og grænmeti í pottinum. Lokið er keilulaga og heldur gufunni inni í pottinum og svo er maturinn borinn fram á neðri hluta pottsins eftir eldun. Mig langar mest að panta mér einn svona pott strax í kvöld, en mun sitja á mér í bili þar til ég finn minn eina rétta. Þar til sá dagur rennur upp dunda mér bara við að lesa uppskriftir og smjatta á þeim í huganum.

Sunnudagsganga

Við mæðgurnar ákváðum að hressa okkur við og skelltum okkur í göngutúr í rokinu áðan. Sólin sýndi listir sínar í klifurgrindinni á skólalóðinni, við gengum niður Vesturgötuna þar sem við fengum okkur ís í sólarblíðunni. Neró var spenntur yfir þessu líka og sleikti gangstéttina fyrir framan sjoppuna af miklum móð. Við veðjuðum á að þarna missi viðskiptavinirnir oftast pulsuna sína, svo mikill var ákafinn! Ég tók líka tvö videó af Sólinni í klifurgrindinni, ekkert smávegis hvað hún er fær, kann að fara afturábak og áfram snúninga á köðlunum og er mjög seig.






laugardagur, 6. apríl 2013

Líttu sérhvert sólarlag


Njótum hvers dags, maður veit aldrei.

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt
sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt
hverju orði fylgir þögn 
– og þögnin hverfur alltof fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund
skaltu eiga við það mikilvægan fund
því að tár sem þerrað burt 
– aldrei nær að græða grund.

Líttu sérhvert sólarlag,
sem þitt hinsta væri það.
Því morgni eftir orðinn dag
enginn gengur vísum að.

Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr
enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.
Því skaltu fanga þessa stund
– því fegurðin í henni býr.

þriðjudagur, 2. apríl 2013

Það er gróska á E9

Þrátt fyrir spár um að yfirvofandi sé páskahret með tilheyrandi kulda, þá dafna grænmetisplöntur og kryddjurtir vel í sólríkum gluggum hér á E9. Þarna sjást gúrku- og tómataplöntur sem við vorum að færa í stærri potta, basilikkan er aðeins að kíkja upp úr körfunni þarna í glugganum, en risavöxnu plönturnar í stóru pottunum er kúrbítur! Já, það kom mest á óvart, hann rauk svoleiðis upp úr moldinni og það eru komnir blómknúppar á hann og allt. Vona að hann haldi áfram að dafna, við erum nefnilega sérstaklega spennt fyrir frjóvguninni sem þarf víst að vinna í höndum! 
Það er nú ekki leiðinlegt að fyrirliggjandi er plöntuorgía í stofunni á E9, skítt með allt páskahret!