mánudagur, 31. desember 2007

2008!!!

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og fjölskylda!!!

Takk fyrir allt liðið, gamalt og gott.
Gangið hægt um gleðinnar dyr, ekki þó á kostnað góðrar skemmtunar :)

laugardagur, 29. desember 2007

Shark Tale

Ég hef örugglega verið svona 12 ára þegar ég smakkaði hákarl í fyrsta og næstsíðasta sinn. Á þorrablóti í Holti lét ég vaða á kasúldinn kafloðinn bita og hélt það væri nú varla mikið mál. Sem Vestfirðingur ætti ég nú að geta komið þessu ofan í mig eins og allir hinir.

Það fór nú ekki svo. Aðallega man ég eftir ógeðfelldu bragðinu sem sveið í nef, kok og háls og ætlaði aldrei að fara, svo og undarlegu stinnu áferðinni sem ég get ekki líkt við neitt annað. Svo man ég líka eftir því að það var óvenju löng leiðin á klósettið, sem kom svo í ljós að var upptekið. Úff, hvað ég kúgaðist meðan ég beið eftir því að það losnaði.

Alla vega, þetta var fyrir ótal mörgum árum síðan. Nú á ég son sem myndi éta hákarl í hvert mál væri það í boði. Og mann sem myndi sitja til borðs með drengnum og éta hákarl með hníf og gaffli kæmi sú staða upp. Þeir tveir eiga það til að lauma sér í frystikistuna og sneiða sér vænt stykki sem þeir bera inn í hús og smjatta á fyrir framan okkur mæðgur á meðan við tvær höldum fyrir nefið og hryllum okkur í bak og fyrir.

Nú í kvöld gat ég ekki meir og bað um að fá að smakka herlegheitin. Ef maður vill að börnin sín smakki það sem á borð er borið fyrir þau, er þá ekki lágmark að sýna smá lit sjálfur í þeim efnum?

Það er skemmst frá því að segja að ekkert hafði breyst frá því síðast. Áferðin, sviðinn og bragðið var allt við það sama. Lyktin eins og af innviðum karlaklósetts. Ég stend við fyrri orð mín, þetta er ekki mannamatur. M.a.s. hundurinn vill ekki sjá þetta.


Ég hef samt ekki miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á mataruppeldið á heimilinu. Ég smakkaði þetta þó. Það er þó meira en feðgarnir hafa gert þegar ég ber sveppi á borð fyrir þá.

Eins og sveppir eru nú ótrúlega góðir!!

fimmtudagur, 27. desember 2007

Þar kom að því að grámygla hversdagsleikans legðist yfir mann á ný. Það kostaði þvílík átök að vakna til vinnu í morgun, aðalástæðan auðvitað sú að ég var búin að snúa sólarhringnum þannig við að ég gat engan veginn sofnað á skikkanlegum tíma í gær!

Sem betur fer er maður aftur kominn í frí eftir morgundaginn og það alveg fram á hádegi á miðvikudag.

Jólin hafa verið frábær það sem af er, nóg af mat og súkkulaði og jólaboðum. Það eina sem mér finnst vanta er spilakvöld, einhver sem vill spila um helgina?!?

Við Tóti vorum eins og fólkið í VR-auglýsingunni á aðfangadagskvöld ætluðum við sko að lesa frá okkur allt vit eins og venja er. Ég var svo uppgefin að ég komst á bls 22, og þá var ég sofnuð... Þetta er náttúrulega engin frammistaða, það er nú lágmark að lesa eins og eina bók á aðfangadagskvöld...
Krakkarnir hafa nefnilega verið dugleg að vakna snemma í desember, einum of dugleg finnst mér. Vinurinn fór samt gersamlega yfir strikið á aðfaranótt aðfangadags. Ég fór að sofa kl. 2, og hann var kominn kl. 3 til að spyrja hvort það væri kominn dagur... Svo núna er öllu snúið við, þau sofa til 10 á morgnana þar sem það er engin forvitni lengur um það sem er í skónum!!

mánudagur, 24. desember 2007

Aðfangadagur

Þá er þetta allt saman að bresta á.

Tréð stendur uppstrílað á stofugólfinu umvafið pakkaflóði, villibráðin er að marinerast inni í ískáp og maltið og appelsínið bíður síns tíma í búrinu. Börnin festa ekki hugann við neitt, rása um húsið og vita ekkert hvað þau eiga af sér að gera. Úti er hundslappadrífa eins og hún gerist best og trjágreinarnar í
garðinum svigna undan hvítum þungum snjó. Ekkert annað virkar eins vel
á jólaskapið :)


Mamman þurfti reyndar að setja í fjórhjóladrifið í morgun og redda jólagjöf á síðustu stundu. Þegar verið var að klára að pakka inn síðustu gjöfunum í gærkvöldi, kom nefnilega í ljós að það sem við höfðum keypt handa Sólinni var ónothæft!

Við höfðum keypt svona í Toys´R´us og ég var ekkert að lesa mikið á kassann, fannst þetta bara sniðugt svona teikniborð til að tengja við sjónvarpið og var handviss um að Sólin yrði alsæl með það. Svo þegar ég var að pakka þessu inn í gær og er að skoða kassann og dást að því hvað ég væri sniðug að finna svona sjónvarpsteikniborð fyrir Sólina mína þá rek ég augun í leiðbeiningar utan á kassanum. Í ljós kom að þetta teikniborð er viðbót við einhverja leikjatölvu sem heitir V tech og ég hef aldrei á ævinni heyrt um. Ég man ekki einu sinni eftir því að hafa séð þessa leikjatölvu í Toys´r´us og ég ætla sko að leita að henni þegar ég fer og skila þessum "tölvuleik" eftir jól.

Ég er auðvitað fegin því að hafa rekið augun í þetta í gær, og sloppið við að svekkja Sólin á þessu. Mér finnst samt glatað að þurfa að finna eitthvað handa henni á síðustu stundu og nú fær hún einhverja gjöf sem keypt var í flýti án mikillar umhugsunar. Fúlt.

Þrátt fyrir svona síðbúið jólastress, þá lítur dagurinn og kvöldið bara vel út hjá okkur.
Á matseðlinum er kvöld er svo innbakaður Camenbert í forrétt, marineruð önd og heiðagæs á steikarsteini í aðalrétt og svo blaut súkkulaðikaka með ís og rjóma í eftirrétt síðar í kvöld. Get varla beðið!

Ykkur öllum óska ég gleðilegra jóla með von um að þið fáið gott að borða og njótið ljóss og friðar með fjölskyldunni í kvöld!!

Jólakveðjur,
Bogga



Blogged with Flock

föstudagur, 21. desember 2007

Lalli Balli og Lúkkúbei

Börnin mín eru mögnuð og ekki síst þegar kemur að veikindum.

Sólin er með streptókokka. Ég fór með hana til læknis á miðvikudag út af útbrotum, og hún fékk pensilín gegn streptókokkum í hálsi. Hún varð ekkert veik þannig, og útbrotin eru nánast horfin núna. Hún er s.s. veik, án þess að sýnast veik.

Svo í morgun fékk Vinurinn ælupest. Ældi í allan dag eins og múkki, greyið. Um kvöldmatarleytið fékk hann sér svo tvær grillaðar samlokur með skinku og osti, hámaði í sig melónubita og þambaði nokkur glös af kóki. Orðinn stálsleginn á ný.

Ég þori nú samt ekki annað en að segja 7-9-13 og banka aðeins í borðið.

Þau eru s.s. búin að vera heima í dag. Öðru hverju koma upp rifrildi eins og systkina er vandi. Oftast koma rifrildin áreynslulaust en stundum verða þau uppiskroppa með þrætuefni.
Það hlýtur að hafa gerst áðan þegar Sólin kom hlaupandi til mín: "Mammaaa! Björgvin er að stríða Lalla Balla"
Það getur enginn séð Lalla Balla nema Sólin, en samt er hægt að stríða honum...
Ég fæ stundum undarlegar sögur af Lalla Balla. Hann á víst bróður. Sem btw er álfur. Sólin spurði bróðirinn um daginn hvað hann héti og sá svaraði víst "Álfur"
"Og ég sagði honum sko að það gæti enginn heitið Álfur!"
Svo setti hún hendur á mitti og hristi hausinn eins og hún væri alveg hissa á því hvernig einn ímyndaður álfur gæti látið.

Var ég einhvern tímann búinn að segja frá Lúkkúbei Sepubeibí?
Það var undarlegt tímabil. Sólin var varla orðin talandi þegar hún benti út í loftið og galaði á hann. Eða sagði að hann biði úti og þyrfti að komast inn. Maður þurfti m.a.s. að passa sig á því að setjast ekki á hann. Þá er nú Lalli Balli betri finnst mér, hann er þó ekki að þvælast fyrir manni!

Jæja, farin að súkkulaðihúða Sörurnar mínar. Þetta er örugglega í fyrsta sinn sem mér tekst að fullklára þær á einu kvöldi! Kannski af því ég er "bara" með tvöfalda uppskrift núna en ekki fjórfalda ;)
Hófsemi er dyggð!!

föstudagur, 14. desember 2007

Jesús Kr. Jósefsson

Jæja, þá má jólaskapið koma.
Baggalútur búinn að hleypa jólalaginu 2007 af stokkunum, vúhú!

Jól á Kanarí

Annars er aðventulagið líka í lagi:

Jólafílingur

Hér er hægt að hlusta á fleiri lög með þessum snillingum. Tóti vill Föndurstund. Ég vil frekar fá Söguna af jesúsi. Já, ég kemst bara í réttu stemninguna við það lag held ég. Textinn tær snilld og Jesús Kr. Jósefsson alveg að gera sig bara held ég. Gamlárspartý kemur manni svo náttúrulega í réttu stemninguna líka.

Já, það er að koma... alveg að koma...

úff, neibb, ekkert jólaskap.

Kannski á morgun. Brjálað að gera þá, jólaball, syngja með kórnum og jólahlaðborð í þokkabót.

Eitt alveg ótengt þessu, þetta hefði ég viljað heyra í beinni!!! Átsj

sunnudagur, 9. desember 2007

Sleðaferð

Vorum að koma úr dásamlegri fjallaferð. Veðrið alveg hreint geggjað, stillt og frost. Snjór yfir öllu, ekkert mikið en samt nóg til að renna nokkrar ferðir. Það er ekki laust við að það læðist að manni smá jólaskap!?!




Svo má ég til með að minnast á afmælisbarn dagsins. Ágústa mín, til hamingju með daginn mín kæra!!

föstudagur, 7. desember 2007

Jólafrííí

Mikið var að þessi vika kláraðist! Búin að bíða lengi eftir því að henni ljúki.

Krakkarnir komu heim á miðvikudaginn og höfðu frá svo ótrúlega miklu að segja að þau töluðu stanslaust þar til þau sofnuðu. Afi þeirra og amma urðu því örugglega fegin að komast heim til að hvíla eyrun aðeins... Ferðin var þvílíkt ævintýri fyrir þeim og ég á eflaust eftir að heyra sögur svona eitthvað fram á nýárið. Dröfn er nýja ædolið þeirra, og Sigrún Lóa, Magnús og Geiri eru líka hrikalega sniðug eitthvað. Svo hittu þau Kristínu og Önnu Magnýju í Tívolí og það voru víst fagnaðarfundir þegar þær sómafrænkur hittust á ný.
Allir sáttir með þessa ferð, bæði börnin og við sem nutum þess að vera ein heima í heila v-i-k-u!

Dagurinn í dag byrjaði ekki vel. Fyrst vaknaði ég með ljótuna. Ferlegt. Þar að auki átti ég ekki góðan hárdag. OG ég fór í próf. Var allt of lengi í prófinu svo ég náði ekki nema lágmarksmeðferð á ljótuna áður en ég rauk í vinnuna. Ferlegt.

Það sem er ekki ferlegt við daginn er að það er ekki nema sjöundi des og skólinn búinn! Jahér.
Í Háskólanum var maður alltaf í prófum fram yfir 20. svo þetta er bara draumur fyrir mér.

Jább, nú taka við ljúfir dagar friðsældar og gleði. Ég á bara nánast ekkert eftir að gera fyrir jól. Af því ég ætla ekkert að gera meira en venjulega :) Er alls ekki vön því að standa á haus í þrifum eða þvílíku veseni bara af því það koma jól. Jú, jú, skrifa á nokkur jólakort, hvað er það? Kannski baka eitthvað, en bara ef mig langar til þess. Ætli það endi ekki með Sörum bara? Jú, ég held það: af því mig langar til þess.

Annars er stefnt á heimsókn til mömmu á morgun og jafnvel sleðaferð í Akrafjall á sunnudaginn, hver veit.
Alveg hreint dýrindis helgi framundan held ég, með tilheyrandi huggulegheitum.
Ahhhh

Að lokum, er þessi hér ekki að grínast? Þetta bara getur ekki verið í lagi! Ég hélt fyrst að hún væri drukkin, eða þroskaheft. Nei, það kom í ljós að hún er Bandaríkjamaður eins og þeir gerast bestir!



fimmtudagur, 6. desember 2007

örstutt

Síðasta kvöld fyrir próf, börnin komin heim.
Eftir morgundaginn verður allt eðlilegt á ný.

Skrifa meira þá.
B

sunnudagur, 2. desember 2007

Sólaróður

Í sumar skrifaði ég nokkur orð um hvernig okkur myndi hefnast fyrir þetta yndislega sumar sem við fengum hér á Fróni:



-16. júlí 2007-
Ég vaknaði viti mínu fjær af gleði í morgun.


Ha! Sól aftur??

Svo hló ég dátt og sló mér á lær, en ótrúlega skemmtilegt...eða hvað?

Er ég sú eina sem er að velta því fyrir sér hvað gæti búið að baki þessu veðurundri? Þessu samliggjandi sólskini sem fær Íslendinga til að brosa, fækka fötum og gera klikkaða hluti? Er mögulegt að á þessu skeri geti verið biluð blíða í 6 vikur án afleiðinga?

Ég held að annað af tvennu gerist í framhaldinu af þessum ofurskammti sólar:
1) Hér verður svartasti og versti vetur sem hugsast getur, arfavitlaust ævarandi myrkur hylur okkur frá október fram í mars svo allir þeir sem náðu ekki sólinni í sumarfríinu sínu eiga bágt með að halda hann út.
2) Hér verða náttúruhamfarir: eldgos og jarðskjálftar út í eitt sem umturna lífinu eins og við þekkjum það.

Ég er ekki bölsýnismannneskja heldur raunsæ. Mín kenning er sú að á undan hverri óbærilegri upplifun hefur alltaf verið yndislegur tími sem maður minnist með sól í hjarta og sinni. Því fæ ég alltaf hnút í hjartað þegar eitthvað gott verður á leið minni, hugsa: ókei, hvað er nú í gangi, hvað gerist næst?


Alla vega, 4 dagar í sumarfrí.
Það spáir rigningu.

Was I right or was I right?

Ef ég trúði ekki statt og stöðugt á þá hugmynd að sólin býr innra með mér, þá myndi ég hreinlega ekki nenna að vakna á morgun :)

Munið að veður er afstætt hugtak, ef maður bara dregur fyrir gluggana, kveikir á kertum og reynir af fremsta megni að hafa það huggulegt þá er lífið hreinlega ekki svo slæmt. Svo þarf bara að þrauka öööörlítið lengur, það er sól og sumarylur handan við hornið.


Sól úti,
sól inni,
sól í hjarta,
sól í sinni,
sól í sálu minni.