föstudagur, 21. desember 2007

Lalli Balli og Lúkkúbei

Börnin mín eru mögnuð og ekki síst þegar kemur að veikindum.

Sólin er með streptókokka. Ég fór með hana til læknis á miðvikudag út af útbrotum, og hún fékk pensilín gegn streptókokkum í hálsi. Hún varð ekkert veik þannig, og útbrotin eru nánast horfin núna. Hún er s.s. veik, án þess að sýnast veik.

Svo í morgun fékk Vinurinn ælupest. Ældi í allan dag eins og múkki, greyið. Um kvöldmatarleytið fékk hann sér svo tvær grillaðar samlokur með skinku og osti, hámaði í sig melónubita og þambaði nokkur glös af kóki. Orðinn stálsleginn á ný.

Ég þori nú samt ekki annað en að segja 7-9-13 og banka aðeins í borðið.

Þau eru s.s. búin að vera heima í dag. Öðru hverju koma upp rifrildi eins og systkina er vandi. Oftast koma rifrildin áreynslulaust en stundum verða þau uppiskroppa með þrætuefni.
Það hlýtur að hafa gerst áðan þegar Sólin kom hlaupandi til mín: "Mammaaa! Björgvin er að stríða Lalla Balla"
Það getur enginn séð Lalla Balla nema Sólin, en samt er hægt að stríða honum...
Ég fæ stundum undarlegar sögur af Lalla Balla. Hann á víst bróður. Sem btw er álfur. Sólin spurði bróðirinn um daginn hvað hann héti og sá svaraði víst "Álfur"
"Og ég sagði honum sko að það gæti enginn heitið Álfur!"
Svo setti hún hendur á mitti og hristi hausinn eins og hún væri alveg hissa á því hvernig einn ímyndaður álfur gæti látið.

Var ég einhvern tímann búinn að segja frá Lúkkúbei Sepubeibí?
Það var undarlegt tímabil. Sólin var varla orðin talandi þegar hún benti út í loftið og galaði á hann. Eða sagði að hann biði úti og þyrfti að komast inn. Maður þurfti m.a.s. að passa sig á því að setjast ekki á hann. Þá er nú Lalli Balli betri finnst mér, hann er þó ekki að þvælast fyrir manni!

Jæja, farin að súkkulaðihúða Sörurnar mínar. Þetta er örugglega í fyrsta sinn sem mér tekst að fullklára þær á einu kvöldi! Kannski af því ég er "bara" með tvöfalda uppskrift núna en ekki fjórfalda ;)
Hófsemi er dyggð!!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Börn eru alveg yndisleg og svo gaman að þeim.

Gaman að heyra hvað mín er dugleg að baka.....það tók mig heilan dag að gera tvöfalda uppskrift af sörum.....

See ya Dísa

Nafnlaus sagði...

Þú átt svo miklar perlur :o) og já kannast við það.. það er hægt að rífast útaf engu!
En heldurðu ekki bara að Sólin sé skyggn?? Mér finnst þetta allaveg frekar spúkí með Lúkkúbei Sepubeibí.

En gleðileg jól kæra vinkona. (Jólakortið fer sem sagt af stað eftir jól!!! Já... það var búið að loka pósthúsinu þegar ég loksins drullaðist þangað!)

Hafði það gott.
Jólaknús...