miðvikudagur, 17. ágúst 2011

Af hlaupum og öðrum tæknilegum stórvirkjum


Ansi hreint er maður langt leiddur þegar maður gefst upp á sumarfríinu og skellir sér bara í vinnu si sona, en það er þó einmitt það sem átti sér stað á mánudaginn. Sökin er að mínu mati sú að verulega hefur kólnað í veðri síðustu daga og ekki hægt að liggja neitt á pallinum. Þá liggur nú beint við að fara bara aftur í vinnu. Ég á nokkra daga eftir í frí sem ég geymi bara aðeins, það er bara gott og gaman.

"Mamma, ég bara verð að hætta að tana og fara að vinna" :-/

 Annað smellið sem gerðist nú í vikunni en hefur smá forsögu. Þannig er mál með vexti að í nokkur ár, eða þar til ég varð 31 árs, trúði ég því heitt og innilega að ég gæti ekki hlaupið. Það væri bara eitthvað sem aðrir gerðu og ég hlyti bara að vera öðruvísi en annað fólk. Ég tók jú reyndar árlega, örugglega tvö ár í röð, þátt í víðavangshlaupi á 17. júní á mínum sokkabandsárum, en þá erum við að tala um kannski kílómeter og ég var að drepast eftir það. Sjálf sveitastelpan...

Reyndar, svona þegar ég spái í því, þá gat ég heldur ekki synt eða spilað fótbolta svo vel færi, en reyni að lifa sem lengst á hinum ofurstutta blakferli mínum sem ég segi kannski frá síðar. Íþróttir hafa s.s. aldrei legið vel fyrir mér og ég því einbeitt mér að huglægri þjálfun og styrkingu andans svona eftir að ég áttaði mig á því að íþróttir væru fyrir aula :o)

Svo fyrir tveimur árum féll í fang mér vefslóð. Eigum við að segja að hún hafi fallið af himnum ofan? Já, höfum söguna bara þannig.

Á þessari vefslóð las ég um prógram fyrir þá sem ekkert geta hlaupið og því lofað að á tveimur mánuðum fengi ég þol hlauparans. Ég væri nefnilega ekkert öðru vísi en annað fólk (Myth busted...). Jú, á þessum tveimur mánuðum kæmist ég "From Couch to 5k", eða upp úr sófanum og í 5 km hlaup!


Undur og stórmerki!

Þetta gekk líka svona stórvel þrátt fyrir arfaslakan tónlistasmekk míns persónulega einkaþjálfara Roberts Ullrey sem talaði við mig í I-podinum mínum (við erum að tala um ömurlega techno-lyftutónlist í slow-motion...). Í dag sé ég að hægt er að fá alls konar podcast eins og hér, hér og hér fyrir þá sem hafa áhuga...

Síðan hef ég verið að hlaupa öðru hverju, tek svona skorpur og hleyp reglulega en dett svo í að hlaupa ekki neitt. Ég meira segja datt um tíma í prógramið "From 5k to Couch" og massaði það í nokkra mánuði. Þangað til nú í ágúst tókst mér aldrei að hlaupa meira en þessa 5 kílómetra sem Mr. Ullrey setti mér fyrir. Svo bara allt í einu kom það, mér tókst að hlaupa 6 km og síðan kemur að þessu smellna sem gerðist í vikunni, mér tókst að hlaupa 10 kílómetra án þess að stoppa eða labba neitt, whoop-whoop!

Um leið og ég var búin að hlaupa þessa 10 kílómetra áttaði ég mig líka á því að miðað við hvað ég er ógeðslega góð í að hlaupa þá ég ekkert dót við hæfi og úr því verður bætt hið snarasta. Í þessum töluðu orðum hleypur vinkona mín eins og vindurinn með Android símann sinn í Danzka og ég dauðöfunda hana. Mig langar líka í dót sem fylgist með lengd og mínútum og hækkun/lækkun og þannig :o/ Svo nú skoða ég snjallsíma og spekúlera mikið. Landslagið er aðeins öðruvísi en þegar ég var í "bransanum", en ég reyni að klóra mig fram úr þessu.

Málið er að þegar ég hljóp kílómeter í víðavangshlaupi í den (og var að drepast) þá var nóg að eiga vasadiskó. Fyrir tveimur árum þegar mér tókst að hlaupa 5 kílómetra hélt I-pod mér við efnið. Nú eru aðrir tímar og maður bara verður að fylgja. Ætli ég að eiga möguleika í þesum bransa, þá verð ég að eiga snjallsíma með Android-stýrikerfi og GPS staðsetningarmöguleika, annars á ég mér enga von, punktur og pasta!

föstudagur, 12. ágúst 2011

Meira af sumarfríi

Tölvan öðlaðist líf að nýju þegar ég lagði hana í hendur dásamlegs viðgerðarmanns sem ekki aðeins endurheimti öll gögn, heldur tók hana algerlega í gegn frá A til Ö. Held hún sé betri en ný núna, mjög hraðvirk og fín :o)

Ég er enn í sumarfríi. Um síðustu helgi fórum við í bústað með Snorra, Ínu og þeirra slekti. Rosalega fín helgi með mikið af mat og afslöppun. Á sunnudaginn var svo afmælisveisla í Heiðmörk hjá hinum 2ja ára Reyni. Frábært veður og Heiðmörk er falleg umgjörð um svona fjölskylduboð, stundum vildi ég að ég ætti sumar-afmælisbörn...



Pabbinn og Vinurinn í sveppaleit


Sólin og Snorri í sólskinsskapi í Heiðmörk


Svona eru sumar-afmæli


Reynir 2ja ára og Snorri 2ja ára

þriðjudagur, 2. ágúst 2011

Dánarfregnir og jarðarfarir

Tölvan mín andaðist fyrir helgi. Sýnir bara bláan skjá með villumeldingum. Hvorki hægt að boota frá harða drifinu né CD og við hjónakornin kunnum til samans ekki meir. Í morgun streymdu svo inn um póstlúguna bæklingar með skólatilboðum á tölvum... tilviljun? Nei, ég kýs að kalla þetta örlög. Ég þarf samt að finna einhvern sem kann að nálgast gögnin á gömlu tölvunni því þar eru myndir og skrár sem ég þarf að eiga. Útförin verður auglýst síðar.




En þar sem sumarfríið er búið hjá húsbandinu og hann þurfti að fara til vinnu í morgun þá legg ég bara undir mig hans tölvu og hef það kósý ein í sumarfríi :o)

mánudagur, 1. ágúst 2011

Sumarfrí

Vinurinn, Sólin og Strokkur
Sumarfríið líður hratt, vika nr. 3 hófst í morgun. Það er samt eins gott að veðrið fari að skána, annars er ég hætt við og fer bara aftur í vinnuna! Sé nú lítinn tilgang í því að hanga í sumarfríi ef það er rigning og/eða rok.

Annars byrjaði þetta sumarfrí á sumarbústaðaferð, vorum í 6 nætur þar. Fengum nokkra gesti, fórum í túristaferð að Gullfossi og Geysi. Litum við hjá hinum fagra fossi Faxa. Heimsóttum ömmu Huldu á Þingvöllum. Annars bara leti og ljúflegheit.

Sól við Faxa


Vinur við Faxa


Besta fólkið við Gullfoss
Síðan keyrðum við af stað á fimmtudegi með tjaldvagninn í eftirdragi í hálfgerða óvissuferð. Okkur greip ævintýraþrá og því beygðum við út af malbikinu og ókum langa leið eftir línuvegi sem við sáum glitta í. Þessi slóði hefur örugglega verið lagður þarna á sínum tíma af illsku einni saman ( í alvöru, þessi troðningur var ekki lagður af mennskum höndum heldur einhverju djöfullegu afli og ef ég hefði munað eftir myndavélinni þá hefði ég bæði getað sett inn myndir af þessum óskapnaði og einnig myndir af Tóta að skipta um hjólalegur í bílnum þegar heim var komið (örugglega útaf þessum slóða sko)). Eftir að hafa tekið þrjáoghálfan tíma í að keyra þessar 100 km löngu ófærur skoðuðum við Háafoss og Granna.

Um kvöldið komumst við í Landmannalaugar sem eiga víst að vera svo frábærar og tjölduðum þar eina nótt. Ég á alveg erindi á þetta svæði aftur, en ekkert sérstaklega í Landmannalaugar. Mér fannst Dómadalurinn mikið huggulegri, svæðið í kringum Landmannahelli líka og síðan leiðin niður, maður minn það er fallegt. Landmannalaugar voru bara yfirfullar af fólki og kúlutjöldum svo maður var að kafna, líst ekki á það.

Á föstudeginum héldum við áfram og komumst að Kleifum við Kirkjubæjarklaustur seinnipartinn. Það er frábært svæði sem ég hefði alveg verið til í að skoða betur. Rétt við tjaldsvæðið er Stjórnarfoss og í Stjórninni tókum við sundsprett um leið og við vorum búin að tjalda. Íííískalt og hressandi eins og svona böð gerast best :o) Fórum svo aftur ofan í morguninn eftir og m.a.s. Tóti með! Hann fer nefnilega alveg að fíla þetta :o)
Ég að synda í Stjórninni

Vinurinn tekur dýfu!

Eftir eina nótt að Kleifum keyrðum við til vesturs yfir Mýrdalssand og undir hin dásamlega fallegu Eyjafjöll. Stoppuðum að Skógum og skoðuðum Skógafoss. Við Markarfljót keyrðum við inn í mikið öskufok, svo þétt að það skóf í skafla á veginum við fljótið! Við keyrðum í öskuskýi alveg á Akranes, með góðu kaffistoppi á Hellu þar sem var ættarmót niðja ömmu Bjargar og hennar systkina. Upphaflega ætluðum við nú að tjalda þar, en löngunin var ekki mikil vegna öskunnar.

Um síðustu helgi fórum við síðan á Hellissand með góðu fólki. Tjölduðum í rigningu og roki á föstudagskvöldið, en á svoleiðis kvöldum er ómetanlegt að eiga fortjald og hitara. Á laugardeginum keyrðum við í kringum jökulinn, stoppuðum í hinni fallegu Skarðsvík og á Djúpalónssandi sem stendur alltaf fyrir sínu. Fengum okkur kaffi og tertusneið í Fjöruhúsinu á Hellnum og lukum hringnum með sundi í Ólafsvík. Dásamlegt veður allan daginn og fram á nótt. Fórum í göngu um Hellissand og spiluðum Kubb, bara gaman.

Ekki eins gaman þegar ég vaknaði við æluspýju um nóttina þegar Sólin gubbaði yfir mig og sig og hvað sem fyrir varð... Okkur tókst að búa um okkur aftur með því að snúa við dýnunni og þurrka þetta mesta. Við þurftum því að pakka saman um morguninn, degi fyrr en við ætluðum. Eitt ælustopp á leiðinni og líka stoppað í kaffi í bústað hjá tengdó. Ég hef aldrei þurft að þvo svona mikinn þvott eftir tveggja nátta útilegu, það er kominn þriðjudagur og ég er enn að! Svefnpokarnir, koddi, lak, dýnuver og svo öll fötin. Ég er alveg á báðum áttum hvort ég nenni í fleiri útilegur!

Sólin er samt orðin hress núna og um leið og hreini þvotturinn er kominn á sinn stað þá skellum við okkur örugglega :o)