mánudagur, 1. ágúst 2011

Sumarfrí

Vinurinn, Sólin og Strokkur
Sumarfríið líður hratt, vika nr. 3 hófst í morgun. Það er samt eins gott að veðrið fari að skána, annars er ég hætt við og fer bara aftur í vinnuna! Sé nú lítinn tilgang í því að hanga í sumarfríi ef það er rigning og/eða rok.

Annars byrjaði þetta sumarfrí á sumarbústaðaferð, vorum í 6 nætur þar. Fengum nokkra gesti, fórum í túristaferð að Gullfossi og Geysi. Litum við hjá hinum fagra fossi Faxa. Heimsóttum ömmu Huldu á Þingvöllum. Annars bara leti og ljúflegheit.

Sól við Faxa


Vinur við Faxa


Besta fólkið við Gullfoss
Síðan keyrðum við af stað á fimmtudegi með tjaldvagninn í eftirdragi í hálfgerða óvissuferð. Okkur greip ævintýraþrá og því beygðum við út af malbikinu og ókum langa leið eftir línuvegi sem við sáum glitta í. Þessi slóði hefur örugglega verið lagður þarna á sínum tíma af illsku einni saman ( í alvöru, þessi troðningur var ekki lagður af mennskum höndum heldur einhverju djöfullegu afli og ef ég hefði munað eftir myndavélinni þá hefði ég bæði getað sett inn myndir af þessum óskapnaði og einnig myndir af Tóta að skipta um hjólalegur í bílnum þegar heim var komið (örugglega útaf þessum slóða sko)). Eftir að hafa tekið þrjáoghálfan tíma í að keyra þessar 100 km löngu ófærur skoðuðum við Háafoss og Granna.

Um kvöldið komumst við í Landmannalaugar sem eiga víst að vera svo frábærar og tjölduðum þar eina nótt. Ég á alveg erindi á þetta svæði aftur, en ekkert sérstaklega í Landmannalaugar. Mér fannst Dómadalurinn mikið huggulegri, svæðið í kringum Landmannahelli líka og síðan leiðin niður, maður minn það er fallegt. Landmannalaugar voru bara yfirfullar af fólki og kúlutjöldum svo maður var að kafna, líst ekki á það.

Á föstudeginum héldum við áfram og komumst að Kleifum við Kirkjubæjarklaustur seinnipartinn. Það er frábært svæði sem ég hefði alveg verið til í að skoða betur. Rétt við tjaldsvæðið er Stjórnarfoss og í Stjórninni tókum við sundsprett um leið og við vorum búin að tjalda. Íííískalt og hressandi eins og svona böð gerast best :o) Fórum svo aftur ofan í morguninn eftir og m.a.s. Tóti með! Hann fer nefnilega alveg að fíla þetta :o)
Ég að synda í Stjórninni

Vinurinn tekur dýfu!

Eftir eina nótt að Kleifum keyrðum við til vesturs yfir Mýrdalssand og undir hin dásamlega fallegu Eyjafjöll. Stoppuðum að Skógum og skoðuðum Skógafoss. Við Markarfljót keyrðum við inn í mikið öskufok, svo þétt að það skóf í skafla á veginum við fljótið! Við keyrðum í öskuskýi alveg á Akranes, með góðu kaffistoppi á Hellu þar sem var ættarmót niðja ömmu Bjargar og hennar systkina. Upphaflega ætluðum við nú að tjalda þar, en löngunin var ekki mikil vegna öskunnar.

Um síðustu helgi fórum við síðan á Hellissand með góðu fólki. Tjölduðum í rigningu og roki á föstudagskvöldið, en á svoleiðis kvöldum er ómetanlegt að eiga fortjald og hitara. Á laugardeginum keyrðum við í kringum jökulinn, stoppuðum í hinni fallegu Skarðsvík og á Djúpalónssandi sem stendur alltaf fyrir sínu. Fengum okkur kaffi og tertusneið í Fjöruhúsinu á Hellnum og lukum hringnum með sundi í Ólafsvík. Dásamlegt veður allan daginn og fram á nótt. Fórum í göngu um Hellissand og spiluðum Kubb, bara gaman.

Ekki eins gaman þegar ég vaknaði við æluspýju um nóttina þegar Sólin gubbaði yfir mig og sig og hvað sem fyrir varð... Okkur tókst að búa um okkur aftur með því að snúa við dýnunni og þurrka þetta mesta. Við þurftum því að pakka saman um morguninn, degi fyrr en við ætluðum. Eitt ælustopp á leiðinni og líka stoppað í kaffi í bústað hjá tengdó. Ég hef aldrei þurft að þvo svona mikinn þvott eftir tveggja nátta útilegu, það er kominn þriðjudagur og ég er enn að! Svefnpokarnir, koddi, lak, dýnuver og svo öll fötin. Ég er alveg á báðum áttum hvort ég nenni í fleiri útilegur!

Sólin er samt orðin hress núna og um leið og hreini þvotturinn er kominn á sinn stað þá skellum við okkur örugglega :o)