mánudagur, 7. október 2013

Hlaupamyndir dagsins

Kalmansvík
Miðvogur

Það er nú ekkert lítið hressandi að skella sér í smá hlaup á svona fallegum haustdegi!

föstudagur, 4. október 2013

Græjukall

Vinurinn er á kafi í alls konar tilraunum þessa dagana, mjög gaman að fylgjast með. Um daginn eignaðist hann til dæmis lítinn hátalara úr ónýtu leikfangi. Þá tók hann gömul heyrnartól úr síma, skar eyrnaplöggin af og lóðaði vírana við hátalarann. Pakkaði honum svo inn í þvottasvamp og teipaði vel. Þá er kominn svona eins og hátalarapúði sem hann stingur undir húfuna sína og getur hlustað á tónlist úr símanum sínum á meðan hann labbar í skólann!
Hátalarinn

Vantar bara svampinn, það var óþægilegt að hafa hátalarann beran upp við eyrað


Svo tók við skeið þar sem Vinurinn hjólaði út um allan bæ með þessa græju á hausnum:


Ansi flott vídeó sem urðu til með þessari aðferð. Það hefði ekki gengið að teipa myndavélina á hjálminn því þá væri festingin einnota, það hefði þurft að eyðileggja hana eftir notkun. Þess vegna útbjó ormurinn opnanlegt hulstur úr pappa og teipaði hulstrið á hjálminn :)
Snillingur!

fimmtudagur, 3. október 2013

Bílalán

Eins og meðfylgjandi mynd sýnir svo bersýnilega erum við hjónin mjög samstíga og gáfuleg í öllum okkar gjörðum. Og skynsöm. Viljum samt hafa gaman og njóta lífsins. Ætli við séum ekki bara svona meðalhJón, fyrir utan það hvað við tökum okkur miklu betur út á mynd en hinir Jónarnir og Gunnurnar. Eins og sést.

Það sem fylgir hér á eftir er ágætis dæmisaga, þetta er saga af mannfræðitilraun sem gerð var nýlega hér á E9. Attenborough var að hringja rétt í þessu og falast eftir kvikmyndaréttinum... held það nú!

Alla vega, tilraun þessi gekk út á það virkja svoldið alla þessa skynsemi og gáfur hjónakornanna og kröfur þeirra um skemmti- og notalegtheit og er lesendum velkomið að draga lærdóm af þessari sögu og jafnvel hafa til eftirbreytni ef vill.

Þannig er að fyrirhuguð er endurnýjun á þarfasta þjóninum hér á bæ, nefnilega fjölskyldubílnum. Eða frúarbílnum, eins og Mr. T kallar hann þegar hann bilar. Sem gerist æ oftar enda er kvikindið orðið 12 ára og hefur alveg mátt muna fífil sinn fegurri eins og maður segir.

Sem sagt, við þurfum nýjan bíl, en við eigum ekki alveg fyrir nýjum bíl. Gætum kannski keypt undir hann dekk og einn aðvörunarþríhyrning í skottið, en lítið meira en það. Þegar svoleiðis er ástatt hjá manni, þá er náttúrulega hægt að taka bílalán. Lánið lék nú ekki beint við okkur þegar við gerðum það síðast, sælla minninga, svo ég forðast þannig byrðar á okkar herðar í lengstu lög.

Þess vegna settum við hjónin á fót söfnunarreikning. Við ætlum að safna fyrir bíl! Úr því við héldum okkur hafa efni á því að kaupa bíl og borga af honum, þá hlytum við að geta beðið með bílakaupin í eitt ár og lagt þessa mánaðarlegu afborgun til hliðar. Eftir ár ættum við allavega fyrir útborgun í bíl, slyppum með lægra lán og spöruðum stórfé á vöxtum. Það var þannig sem skynsömu og gáfulegu hjónin hugsuðu sér þetta og síðan sú ákvörðun var tekin eru liðin nokkur mánaðarmót. Um hver mánaðarmót borgum við alla reikninga og eigum afgang. Þá horfi ég þennan Bílareikning í heimabankanum og hugsa: "Neeeeeee, ekki er nú girnilegt að eyða mikið í þennan bíl, sé til í lok mánaðar ef það er afgangur...". Eins og gefur að skilja hefur yfirleitt ekki farið króna inn á þennan reikning!

Og þá kemur að lokapunkti þessarar dæmisögu, atriðinu sem draga má lærdóm af og hafa til eftirbreytni ef vill. Þannig er að í heimabankanum er hægt að nefna reikningana og mér datt í hug að breyta nafninu á Bílareikningum og nú heitir hann Ferðareikningur.Við ætlum jú að ferðast á þessum nýja bíl, rúnta um landið á honum með fellihýsið í eftirdragi og hafa gaman, njóta lífsins. Og viti menn, söfnunin hefur heldur betur tekið við sér!

Það er erfitt að safna fyrir bíl af því það er leiðinlegt að safna fyrir því sem mann langar ekki að eyða krónu í. Þess vegna þurftum við þetta nýja sjónarhorn, þennan nýja vinkil á markmiðið. Jú, við þurfum að kaupa okkur bíl, en við erum í raun að safna fyrir hringferðinni og ferðalagi um Vestfirði næsta sumar. Við erum að safna fyrir samveru fjölskyldunnar, ógleymanlegum augnablikum og yndislegum minningum, einhverju sem mun endast okkur ævina á enda. Bíllinn sjálfur er ekki markmiðið, en án hans væri erfiðara að komast þangað.

Ætli niðurstaða þessarar tilraunar sé ekki sú að maður geti áorkað hverju sem er, svo framarlega sem markmiðið sé skýrt og mann langi virkilega til að ná því. Svo er bara að leggja af stað. Ef ekkert gengur, þá er alveg reynandi að skýra markmiðið aðeins betur og átta sig á því hvort þetta sé eitthvað sem mann langar í raun.