föstudagur, 9. apríl 2010

Eggjakaka með spínati og fetaosti

Hér kemur nú uppskrift sem ég bjó alls ekki til sjálf, en vildi einungis óska að svo hefði verið. Þetta er eggjakaka með spínati og fetaosti, bökuð í ofni. Hún er (brjál)æðislega góð á bragðið og ég mæli sérstaklega með henni sem hluta dögurðar, ójá.


8-10 egg
1/2 l. matreiðslurjómi
200 gr. spínat
200 gr. fetaostur í teningum
salt og pipar

Píska létt saman rjóma, eggjum og kryddi. Bæta spínati og fetaosti útí. Velta létt saman, bakað í eldföstu formi við 200 í ca. 20 mínútur (fer eftir stærð formsins og þykkt kökunnar).


mánudagur, 5. apríl 2010

Kókostvist

Mig langar að deila með fróðleiksfúsum lesendum hvað ég eldaði og át í kvöldmatinn núna áðan. Fyrir valinu varð endurbættur, þýddur og staðfærður Mango Chutney kjúklingur. Ég hef oft gert hann áður við mikinn fögnuð matargesta, en í kvöld bar svo við að ég átti til dós af kókosmjólk.

Nú getur svo sem vel verið að lesendur hugsi með sér "og hvað með það?". Mig langar að svara því til að ég hef aldrei áður átt dós af kókosmjólk, og þar af leiðandi ekki eldað nokkurn skapaðan hlut með því innihaldsefni áður. Nú bregður sem sagt svo við að ég á þessa áðurnefndu dós til, og Vinurinn fer fram á að fá að smakka þessa mjólk. Auðvitað fær hann það (eins og flest annað sem hann biður um), og vill síðan ekki drekka hana (eins og flest annað sem hann biður um), þannig að uppi sit ég með barmafulla dós af ilmandi kókosmjólk.

Við erum að tala um mjög hagsýna húsmóður, sem fer í skyndi að hugsa sér hvað mögulega sé hægt að gera við þessa mjólk því ekki er í boði að henda henni. Nú er ég ekki alin upp á framandi mat, eða neinu svoleiðis. Borðaði soðna ýsu og kótilettur og þess háttar mat. Hakkbuff stundum, og mikið af mjólkur- og berjagrautum. Og þá erum við komin að ástæðu þess að ég segi núna söguna af eldamennsku kvöldsins. Þar sem ég þefa af kókosmjólkinni þá fæ ég þvílíkan matarinnblástur. Ég finn nefnilega ekki bara lykt af kókos, heldur líka lykt af karrýi, steiktum kjúklingi og mangói! Ójá, kjellingin er komin með svo þroskað bragðskyn að heil uppskrift verður til bara við að finna lykt :)

Svo komst ég reyndar að því, þegar ég fór að versla í matinn, að það sem ég ætlaði að elda var bara gamli góði Mango Chutney kjúklingurinn með kókostvisti. Eeen ég er samt stolt af afrekinu og hér kemur hann þess vegna samt sem áður:


_______________________________________

  • Mango Chutney kjúklingur - með kókostvisti

  • Kjúklingabringur kryddaðar með salti og pipar og snöggsteiktar á pönnu

  • Settar í eldfast mót

  • Kókosmjólk, hálf dós Mango Chutney og ca. matskeið karrý hrært saman

  • Hellt yfir kjúklinginn

  • Eldað við 180° í ca. hálftíma

  • Borið fram með hrísgrjónum og brauði
    _________________________________________

    "