sunnudagur, 6. desember 2009

Jólahús

Jæja, þetta fór betur en á horfðist og hér kemur afraksturinn:




Barasta ekkert svo hroðalegt og meira að segja komið ljós í húsið og allt :)
Eitt gullkorn frá bakstrinum í gær fær að fljóta með:
Sól: Setjum meira súkkulaði, það er svo hollt
Mamman: Nú, er það hollt?
Sól: Já, það er svo hollt fyrir sálina
Hehe, það sem heimurinn þarf er meira súkkulaði :)

laugardagur, 5. desember 2009

Piparkökuhroði

Jólabaksturinn hófst í gærkvöldi, væntanlega með hroðalegum afleiðingum fyrir meðleigjendur mína eins og hér verður frá sagt.




Fyrir utan nokkrar staðal-uppskriftir og erfðagóss sem ég geymi á pappírsformi á vísum stað, þá er ég steinhætt að nenna að fletta í uppskriftabókum. Þess í stað googla ég öll möguleg og ómöguleg hráefni í leit að góðum uppskriftum. Í gærkvöldi kom í ljós að þessi fljótlega aðferð getur haft ákveðna ókosti í för með sér.

Í gær var ferð minni heitið á google og leit hófst að uppskrift að piparkökuhúsi. Úrvalið er mikið og ekki eru allar uppskriftirnar eins. Að lokum stóð valið á milli tveggja uppskrifta sem ég hafði báðar opnar, hvora í sínum flipa í vafranum.

Eftir nákvæman samanburð hófst ég handa á annarri uppskriftinni. Þar sem hún var mjög stór ákvað ég að gera bara helminginn í einu senn svo deigið kæmist nú örugglega fyrir í hrærivélarskálinni. Allt var nákvæmlega mælt (deilt með tveimur) og verkefnið leit ljómandi vel út.


...Hvað vantar nú í þetta dæmi?


Jáh, tónlistina. Hana vantar. Til að mér leiddist ekki mikið við baksturinn opnaði ég nefnilega þriðja vafraflipann og fann vin minn Buble á YouTube til að halda mér félagsskap við baksturinn. Hálfa uppskriftin mín var, þegar hér er komið sögu, hálfkláruð.

Nú verða kaflaskipti í frásögn þessari þegar ástkær eiginmaður minn kemur aðvífandi, hlammar sér niður við tölvuna og mundar sig við að hafa hana alfarið af mér.


"Nei, nei", hrópa ég. "Ég þarf að sjá uppskriftina, maður!"


Maðurinn var fljótur að gefa sig og opnaði meira að segja náðarsamlegast aftur fyrir mig gluggann með piparkökuuppskriftinni áður en hann flúði yfirráðasvæði mitt.

Sigri hrósandi kláraði ég að gera fyrri helming piparkökudeigsins. Smá sykur hér og aðeins af smjöri þar. Dash af sýrópi og málið dautt.


Það var ekki fyrr en um það leyti sem ég ætlaði að hefjast handa á seinni helmingnum sem ég áttaði mig á mistökunum. Á skjánum blasti við mér röng uppskrift.

Ástkær eiginmaður minn hafði opnað vitlausan flipa og uppskriftin sem ég kláraði var ekki sú sama og ég byrjaði á... og það er ekki gott, eins og þeir ættu að vita sem til þekkja...

Helmingurinn af helmingnum var s.s. vitlaus helmingur. Og þannig vitleysu er helmingi erfiðara að leiðrétta :( :(


Ég ætla ekki einu sinni að lýsa restinni. Þvílíkur hroði.

Og það er hroði sem bíður mín núna í skál inni í ískáp. Börnin mín vilja piparkökuhús, en ég veit ekki hvað hroði ætlar sér...


Til öryggis fór ég í búð í dag og keypti tilbúið ósamsett piparkökuhús í pappakassa. Þannig að hvernig sem fer, þá verður uppljómuðu piparkökuhúsi stillt upp hér á bæ fyrir þessi jól.

laugardagur, 21. nóvember 2009

http://heilaspuni.is

http://heilaspuni.is

Posted using ShareThis

Gínuvandræði

Í gær fórum við fjölskyldan öll saman niður í bæ að erindast. Mjög hentugt og óhjákvæmilegt nú þegar aðeins einn bíll er á heimilinu.


Alla vega, við förum á nokkra staði og erum á ákveðnum tímapunkti stödd í tuskubúð einni hér í bæ þar sem við göngum um og skoðum. Flott búð, nýjar vörur að streyma inn fyrir jólin og fólk í stigum að hengja upp jólaskraut, mikið að gera.


Á einum stað í búðinni stendur drifhvítt par, kviknakið og bíður þess að einhver bjargi þeim frá blygðun sinni, klæði þau í jólafötin og smelli þeim út í glugga. Þau voru hálfumkomulaus greyin, þar sem þau hölluðu sér aðeins hvort upp að öðru og horfðu upp í loftið. Það er víst mjög vandræðalegt að ná augnsambandi þegar maður er allsber segja mér þeir sem það þekkja.




Hjá þessu pari heltist Sólin úr lestinni og úr varð hin mesta skemmtan.


"Oj, mamma sjáðu!", kallaði hún þar sem hún stóð í klofhæð karlsins og benti fram fyrir sig á myndarlega bunguna.

Síðan leituðu augu hennar ofar og mamman varð heldur vandræðaleg við næstu athugasemd:

"Vá, mamma sjáðu. Þessi er geðveikt massaður!!"

Sólin stakk svo höndum í vasa og lallaði sér á eftir okkur tautandi: "geeeðveikt massaður, sko".


Hehe, þetta er snillingur :)

sunnudagur, 1. nóvember 2009

Jól í skókassa

Jól í skókassa er mjög sniðugt verkefni. Og þarft.

Börn á Íslandi pakka skókössum í jólapappír og fylla þá af nauðsynjum og skemmtilegheitum. Skókassarnir eru síðan sendir sem jólagjafir til barna í Úkraínu.


Börnin mín taka þátt. Auðvitað.



Nema hvað þegar við ætluðum að hefjast handa átti ég engan skókassann enda ekki vön að geyma skókassa eftir tæmingu. Þá voru nú góð ráð dýr... Mjög dýr!




Til að gera langa sögu stutta þá enda þessi saga nú vel. Börnin í Úkraínu fá skókassann sinn og ég á ótrúlega fallega nýja skó sem sóma sér vel hjá félögum sínum í skóhillunni.

Ég bíð spennt eftir verkefnunum: Páskar í fartölvukassa og Sumarfrí í rauðvínsbelju :)

sunnudagur, 25. október 2009

Sex ára Sól


Afmælisstelpa dagsins er 6 ára :)


Hún var ekki vitund mygluð þegar hún var vakin með dásamlegum söng í morgunsárið og gjöfum dreift yfir rúmið hennar :)

laugardagur, 24. október 2009

Fyrsti vetrardagur


FB uppreisn!

Facebook hefur gengið af blogginu dauðu, eða því til húðar í það minnsta.

FB er enda ekki miðill að mínu skapi, of frekur á tíma, sífelldum breytingum háður og tjáningarformið takmarkað. Ef ekki væri fyrir púslið á FB væri ég löngu hætt að kíkja þar inn.

Mér finnst unaðslegt að skrifa, skrifa og skrifa og takmarkanir á því sviði eru ekki mér að skapi. Ég fæ enga útrás af skrifum eins og "kjötbollur í matinn" eða "farin í sturtu" - "búin í sturtu". Hvað þá að ég fái kikk út úr að lesa þess háttar stöðuuppfærslur.
Ein af ástæðum þess að 497 dagar eru frá síðustu bloggfærslu hér er sú að mér fannst allt í einu óþægilegt að hver sem er gæti lesið skrifin mín. Maður lokar ekki bloggsíðum (þá breytist bloggið í e-ð annað og ég gæti alveg eins bloggað á hinu takmarkaða og afmarkaða FB...) og því hætti ég að blogga.

Þar sem nú eru allir farnir á FB sé ég fram á frið og ró hér á blogginu mínu og gæti jafnvel hugsað mér að setja hingað inn færslu endrum og eins, hver veit.

Svei mér, ég held ég byrji bara að blogga aftur :)