fimmtudagur, 24. apríl 2014

Borgarferð

Í gær fórum við hjónin með nokkrum vinum í borgarferð, þar sem við fórum út að borða, sáum sýninguna Baldur í Borgarleikhúsinu, kíktum í bæinn og gistum svo á hóteli. Alltaf gott að fara svona öðru hverju, en maður er óneitanlega ósköp lúinn í dag einhverra hluta vegna.
Flottur hópur
Ég hef aldrei hlustað á Skálmöld af viti og verð yfirleitt þreytt á þungarokki til lengdar, slekk bara eða skipti um stöð, svona oftast alla vega. Fíla eitt gott lag með Rammstein og annað gott lag með Tý, og hef ekki lagt eyrun við annað í þessari tónlistartegund, sorrý með mig... Þess vegna er sýningin Baldur eins og sniðin fyrir fólk eins og mig! Þungarokk gert aðgengilegt fyrir alla, mjög skemmtileg sýning þar sem þrír trúðar fara á kostum og segja söguna af Baldri (af því enginn skilur það sem söngvarinn er að segja...) á milli þess sem Skálmöld flytur okkur tónlistina sem segir sömu sögu. Trúðarnir voru yndislega fyndnir og ég verð að segja að Skálmöld hækkaði talsvert í áliti hjá mér, það fór ekki á milli mála að þarna eru á ferðinni afar færir tónlistarmenn sem fluttu vönduð lög af stakri snilld og fagmennsku og höfðu gaman að. Lögin fannst mér óvenju melódísk af þungarokki að vera og ég raulaði alveg nokkur lög eftir sýninguna. Núna langar mig bara að eiga disk með Skálmöld, held hann fái að fljóta með okkur í bílnum í sumar.
Skálmöld á sviði í Borgarleikhúsinu, algerlega ógleymanlegt!
Næstu dagar verða ansi þétt skipulagðir hjá mér, vorin virðast oft verða þannig hjá mér og ég kann ágætlega við það. Það er prófatíð og ég á eftir að skila einni ritgerð sem gildir 50% og læra fyrir eitt 100% lokapróf og þá er önnin búin. Ofan á þetta bætist að kórinn minn er að æfa á fullu fyrir tónleika auk þess sem það er óvenjumikið um að vera í vinnunni, svo það er bara allt á hvolfi. Nei djók, ekkert á hvolfi, þetta er allt saman afskaplega vel skipulagt og mun algerlega allt saman ganga upp eins og venjulega. Ég hef nefnilega margoft lent í því að hafa tekið svo mikið að mér að ég sé ekki fram úr hlutunum, þetta er sko alls ekki í fyrsta skipti! Og í öll hin skiptin gekk allt eins og í sögu og því skyldi ég ætla að þessi törn verði eitthvað öðruvísi :)

Ætla að snúa mér að verkefnalista dagsins, ekki seinna vænna að hefjast handa!
Kveðja,
átakssjúki lotufíkillinn ♥♥♥

miðvikudagur, 16. apríl 2014

Árgangsmótið

Þá er komið að því enn eitt árið, árstíminn þegar svo margir bregða sér á árgangsmót og fagna árafjöldanum sem liðinn er frá útskrift með gömlu bekkjarfélögunum. Hjá mér er meira að segja óvenju merkilegt árgangsmót, en nú í vor eru liðin 20 ár frá útskrift úr 10. bekk í Grunnskóla Flateyrar og ekki annað hægt en að halda ærlega upp á það. Alveg merkilegt hvað tíminn líður hratt, það geta ómögulega verið liðnir tveir áratugir síðan ég var 16 ára saklaus sveitastelpa!
16 ára saklaus sveitastelpa

Míns árgangs er minnst fyrir ýmislegt, til dæmis fyrirfinnst hvergi nokkurs staðar árgangur þar sem svo hátt hlutfall er af frambærilegum dönsurum, söngvurum og bara almennt framúrskarandi einstaklingum. Aukinheldur hefur metið sem árgangurinn minn setti á samræmdu prófunum ekki enn verið slegið: hæsta meðaltal heils árgangs í einu sveitarfélagi á landsvísu í öllum greinum, takk fyrir takk! Þú getur rétt ímyndað þér lesandi góður hversu stolt ég er af því að tilheyra þessum útskriftarárgangi.

En blundum ekki lengur við botnlaust sjálfshól og ýkjulausar staðreyndir, mergur málsins og málefni dagsins er nefnilega fyrirhugað Árgangsmót. Það vill svo til að ég á sæti í skemmti- og undirbúningsnefnd og eins og gefur að skilja þá er í mörg horn að líta þegar svona mikið stendur til. Þetta er annasamt starf, en þó skemmtilegt og vonandi borgar allt stritið sig að lokum. Það þarf að leigja sal og panta hljómsveit; Sálina jafnvel, en Pál Óskar til vara. Svo er að skipuleggja óvissuferð og reyna að fjárafla svoldið (ég er líka í fjáröflunarnefndinni) svo hægt sé að leigja rútur og kannski kaupa eitthvað fyrir mannskapinn að eta og drekka í ferðinni. Svo var ég að spá í að byrja daginn snemma með fótboltamóti, reyna að hrista mannskapinn saman  fyrir téða óvissuferð og síðan verður hátíðarkvöldverður og diskótek. Það stefnir í ógleymanlegt kvöld þar sem dans og drykkja fá að ráða ferðinni fram á nótt, í bland við dash af daðri og vangadansi við æskuástir og trúnó með þeim sem maður á óuppgerðar sakir við. Eitt er víst að þetta verður rosalegt, enda er þetta fyrsta árið sem árgangurinn heldur árgangsmót.

Já, var ég ekki búin að minnast á það? Árum saman hef ég horft löngunaraugum á myndir af annarra manna árgangsmótum hlustað á svaðalegar sögur vor eftir vor. Samtímis hef ég kvalist yfir framtaksleysinu í mínum eigin árgangi og bölvað því að þar eru aldrei haldin árgangsmót, ALDREI!

Þannig að um daginn ákvað ég að þetta gengi ekki lengur, hvers vegna ætti minn útskriftarárgangur ekki að halda árgangsmót eins og aðrir? Svo ég gerði snögga áhugakönnun meðal bekkjarfélaganna og upp úr því fóru hjólin aldeilis að snúast. Það er gaman frá því að segja að hver einn og einasti tók vel í þessa hugmynd og það stefnir jafnvel í 100% mætingu, geri aðrir árgangar betur! Sem betur fer er mætingin þetta góð, því árgangurinn má ekki við miklum forföllum. Hann má bara alls ekki við neinum forföllum. Forföll eru reyndar óheimil og verða ekki tekin til greina.

Já, var ég ekki búin að minnast á það? Þegar árgangurinn minn var í 9. bekk Grunnskóla Flateyrar, þá vorum við fimm nemendur. Um vorið urðu einhver innanhússvandamál til þess að meirihluti nemenda ákvað að hætta námi og klára grunnskólann annars staðar. Að hausti innritaðist aðeins einn nemandi í 10. bekk. Ég. Eini nemandinn sem hafði ekki hugmynd um einhverjar erjur við stjórnendur skólans eða að hægt væri að gefast upp á einhverju sem var ólokið.

Þér er óhætt að lesa þessa færslu aftur ef þér sýnist svo, lesandi góður, en hér hefur engu verið logið. Ég undirrituð ER útskriftarárgangur Grunnskóla Flateyrar árið 1994. Eins og hann leggur sig! Og hef ákveðið að það fái ekki lengur komið í veg fyrir ærlegt árgangsmót. Á ég ekki að fá árgangsmót eins og aðrir?

Jú auðvitað, og úr því er loksins að fara að rætast. Eitt er alla vega víst, að lagalistinn á diskótekinu verður óumdeilanlega frábær...


föstudagur, 4. apríl 2014

Vorboðinn ljúfi

Nema hvað. Það er 4. apríl og fyrsti húsbíllinn mættur á tjaldsvæði bæjarins.  Snjór í fjöllum engin fyrirstaða.