föstudagur, 17. júlí 2015

Básar

Þetta er nú meira dýrðarsumarið búið að vera hjá okkur, og fríið rétt hafið! Við erum núna stödd í Básum og held við séum ekkert á leiðinni heim. Ég gerði nefnilega svo góðan díl við landvörðinn, hehe :) Við erum búin að vera tvær nætur og þær kosta heilar 6.000. Árgjaldið í Útivist er 7.200 og þá má maður tjalda frítt. Þar sem undirrituð er hreint ágæt í reikningi, sótti hún einfaldlega um inngöngu hið snarasta. Umsóknin var samþykkt á staðnum og við verðum hér því eitthvað áfram :)

Hér erum við í Nauthúsagili, á leiðinni inn í Bása. Við ætlum að stoppa
þarna aftur á bakaleiðinni. Með sundföt!
Við erum búin að ganga mikið síðan við komum hingað. Í gær gengum við 11 kílómetra upp á Fimmvörðuháls (samkvæmt skiltinu, Endomondo segir 9 km...) til að berja augum þá Magna og Móða, gígana sem mynduðust í gosinu 2010. Þvílík upplifun! Þeir eru ennþá ylvolgir og brennisteinslyktin loðir enn við þá, svo manni fann sterklega fyrir því að vera staddur á virku eldfjallasvæði.
Hér fetum við Kattarhryggi, útsýnið stórbrotið á báða bóga... en
best að hafa augun bara á þröngu einstiginu framundan!
Uppi á Móða
Sigri hrósandi fjölskylda, krakkarnir eru hetjur dagsins að
draga okkur alla leið :)

Við vorum ofsalega þreytt þegar við komumst aftur til byggða, en stoltari en nokkru sinni fyrr og ótrúlega ánægð með þetta afrek. Ég veit ekki um marga 11 og 14 ára krakka sem án þess að kvarta sérstaklega mikið labba 22 kílómetra á fjöll (eða18 km samkvæmt Endomondo, svo öllu sé haldið til haga +Thorarinn Jonsson ).

Þegar heim var komið hvíldum við okkur vel og kældum þreytta fætur í læknum sem rennur rétt hjá lautinni okkar sem við tjölduðum í.
Hversu notalegt er að sitja á brúnni og kæla þreytta
fætur eftir frábæran göngudag!
Hversu yndislegt er eiginlega þetta líf?!
Dæs.
Yfir og út frá hamingjusömu konunni á hálendinu <3 div="">

sunnudagur, 5. júlí 2015

Kerling er komin til fjalla

Sumarfríið hófst núna um helgina  og það með stæl. Við lögðum í'ann í gær laugardag og skunduðum beinustu leið í Þjórsárver á ættarmót. Það var mjög gaman, matur, tónlist og dans fram á kvöld og síðan gítar og söngur við varðeld fram á nótt! Allt eins og það á að vera í Tunguætt :)
Þegar við náðum svo loks að vakna í dag pökkuðum við okkur saman og héldum í þynnra loftslag upp á hálendi og tjölduðum í Kerlingarfjöllum. Hingað hefur ekkert okkar komið áður, frekar kalt og aðeins hvasst hérna svo við ætlum snemma í háttinn og í göngu inn í Hveradali á morgun. Jafnvel maður taki sundfötin með sér, svei mér þá!