þriðjudagur, 21. janúar 2014

Hamingjumynd

Mér finnst svo gaman að skoða myndir og hreinlega verð bara að deila einni uppáhalds. Ég kalla hana Hamingjumyndina! Hún hangir útprentuð fyrir ofan skrifborðið mitt þar sem ég get horft á hana þegar ég vil, en annars sé ég hana líka fyrir mér þegar ég halla aftur augunum, það nægir alveg.

Þessi hamingjumynd er tekin í Hallormsstaðarskógi þar sem við áðum í hringferðinni okkar síðasta sumar. Það sem mér finnst svo frábært við þessa mynd er sjálf stundin sem hún er tekin á. Áður en ég smellti af hafði ég setið dágóða stund á steini í fjörunni og fylgst með hjörðinni minni. Allir undu glaðir við sitt: Sólin klifraði í klettum og sveiflaði sér í trjágreinum eins og hennar er von og vísa (rauðar leggings og græn peysa þarna inni í skógarþykkninu!), Pabbinn dundaði sér með myndavélina sína og Vinurinn dró upp vasahnífinn og tálgaði trjágrein. Fuglarnir sungu og Lagarfljótið gutlaði í fjörunni, annars var ró og friður og ég var yfirfull af orku, hamingju og gleði.

Þá hugsaði ég með mér: "þetta er ein af þessum gæðastundum lífs míns sem ég ætla að varðveita og ylja mér við um alla tíð", dró því næst upp myndavélina og smellti af þessari hamingjumynd (svona til öryggis, af því ég get verið ansi gleymin...).

Síðan í sumar hef ég margoft rifjað upp einmitt þessa stund og fyllist ljúfri, góðri tilfinningu í hvert sinn. Ef eitthvað hvílir á mér eða ég verð pínu döpur, þá sest ég niður, loka augunum og fer þangað aftur í huganum, sæki þessa gæðastund og nýt hennar aftur. Og aftur. Og aftur. Eins oft og ég vil. Og samstundis birtir til hjá mér hér í núinu, ég fyllist orku og allt verður eins og það á að vera, auðvelt og gott.

Vonandi eiga sem flestir sína hamingjumynd. Ekkert endilega útprentaða, það er nægir að eiga huglæga mynd af hamingjuríkri andrá til að grípa til þegar þörf er á orkuskoti. Mæli með því!

laugardagur, 18. janúar 2014

Afmælishelgi

Jæja, þá er vinurinn orðinn 13 ára. Hann hélt upp á bekkjarafmælið á fimmtudaginn, sjálfan afmælisdaginn, og í dag var fjölskyldunni svo boðið til veislu. Hann er rosalega ánægður með bæði partýin og þakklátur fyrir kveðjur og gjafir, enda fékk hann mikið af því sem hann helst óskaði sér, nefnilega pening! Hann er að safna sér fyrir notaðri alvöru Canon myndavél og mér skilst að hann eigi nánast fyrir henni núna svo það er mikil spenna á heimilinu og allt á fullu að gera tilboð í vélar sem pabbinn drengurinn gæti hugsað sér að eignast.

Talandi um myndir, ég hef ákveðið að þrettándi afmælisdagurinn sé sá afmælisdagur barna minna sem ég hætti að setja vandræðalega mynd af þeim nývöknuðum og grútmygluðum inn á veraldarvefinn, svo það verður enginn svoleiðis birting með þessum pósti. Kannski ég setji frekar inn tvær fallegar myndir frá síðasta sumri á einni af ferðum okkar um landið okkar fagra. Þarna vorum við að keyra yfir vað og Vinurinn hékk út um gluggann afturí. Myndirnar tók ég á símann út um minn glugga og mér finnst þær lýsa svo ótrúlega mikilli gleði, tilhlökkun og kátínu, einhverju sem þessi uppáhaldsvinur minn er stútfullur af!



Á morgun hefst svo skólinn hjá mér eftir frábært jóla-nýárs-janúar-frí! Sjálf kennslan er auðvitað löngu hafin, en ég verð fljót að vinna upp þessar tvær vikur sem ég ákvað að framlengja fríið mitt um. Ég nenni auðvitað ekki að byrja í kvöld, í kvöld eru það mikilvægari verkefni: kósí í sófanum með besta fólkinu og góðri bíómynd. 

Ást og út!

sunnudagur, 12. janúar 2014

Þetta verður eitthvað...

Einkasonurinn verður táningur í næstu viku. Þrettán vetra uppátækjasamur happafengur.
Hann hefur sýnt miklar framfarir í uppátækjum síðustu misseri, svo miklar að móðirin  hefur stundum áhyggjur af öryggi, eldhættu og útlimamissi.

Í vikunni keypti hann sér einnota myndavél, tók úr henni filmuna og víraði flassið upp á nýtt. Hann dvaldi um stund í bílskúrnum með lóðboltann og verkfærin sem systir hans gaf honum í jólagjöf og æpti loks upp yfir sig: "Það tókst, það tókst!!!". Svo hló hann holum rómi: Múhahahahahaaaa... því honum tókst að búa til það sem hann kallar "Stun-Gun", stuðbyssu, ætlaða til að yfirbuga árásarmenn og aðra glæpamenn sem á vegi hans verða. Þar til hann hittir þá fyrir æfir hann sig á saklausri töng inni í bílskúr, varinn með hönskum og öryggisgleraugum frá Landsbjörgu til vara. Það er bara þannig sem hann rúllar.


laugardagur, 11. janúar 2014

Laugardagur

Mig dreymir svo furðulega þessa dagana þessar næturnar. Man draumana alveg þegar ég vakna, en er búin að gleyma þeim fljótlega eftir að ég kemst á ról. Mig dreymir fólk sem ég þekki í alvörunni, í aðstæðum sem ég þekki ekki og allt er voða skrýtið og öfugsnúið. Kannski væri ráð að skrifa draumana niður, þetta er að verða efni í sagnabálk...

Í morgun var svo mikið að gera í draumalandi að ég svaf til hádegis! Ég missti því alveg af sólarupprásinni og finnst þessi dagur því hafa verið óþarflega stuttur. Við Neró skelltum okkur í göngu fljótlega eftir hádegi, enda afskaplega fallegur og bjartur dagur hér á Skagatá:


Við fengum góða gesti í kaffi seinnipartinn og þegar þeir kvöddu fórum við fjölskyldan í keilu. Vinurinn vann að sjálfsögðu með yfirburðum, enda æfir hann þessa íþrótt tvisvar í viku. Ekki skil ég samt hvernig hægt er að ná upp færni í þessu sporti, ekki frekar en í golfi, snóker eða fótbolta. Maður kemur kúlu á hreyfingu, hvort sem maður kastar henni, slær í hana með priki, eða sparkar í hana, og svo vonar maður það besta. Hjá mér snýst þetta um heppni og dagsform, því sama hversu oft ég prófa, ég verð ekki betri í þessum greinum! Vinurinn segir að þetta snúist um tækni og æfingu, hafa réttan snúning og taka ákveðið mörg skref... einmitt það!

Sólin var með gott skor og skemmti sér vel

Þessi skoraði 118 stig í sínum leik, heppni flott frammistaða hjá drengnum!

Eftir hörkukeilukeppni héldum við heim í eldhús, mölluðum lambalæri og gerðum konfekt. Já, rétt lesið, konfekt! Við vorum allt of sein að gera jólakonfektið í desember, og ákváðum þess vegna að vera tímanlega með þorrakonfektið... Það stefnir því allt í kósí sófakvöld með konfekti og kertaljósum, ljúfa líf, ljúfa líf <3 p="">

Hnetusmjör+döðlur+kókosmjöl+haframjöl+súkkulaði


laugardagur, 4. janúar 2014

Sólarupprás

Hvað er betra á fallegum vetrardegi en að vakna fyrir sólarupprás og fara í göngu niður að strönd, sitja þar á steini og fylgjast með dýrðinni?
Fátt sem toppar það held ég.
Vil samt taka það fram að í morgun 4. janúar var sólarupprás á Íslandi kl 11:22... ég gat því sofið til hálfellefu en samt náð henni!
Ljúfa líf, ljúfa líf!

föstudagur, 3. janúar 2014

Af bókum 2013

Fyrir ári síðan, þegar ég var að lesa jólabækurnar og fór ég að reyna að gera mér í hugarlund hversu margar bækur ég læsi á ári áttaði ég mig á því að ég hafði ekki hugmynd um hvort þessar bækur væru 5 eða 10 eða fleiri. Ég man varla hvað ég las fyrir mánuði síðan hvað þá það sem ég las fyrir ári síðan. Svo ég fór að skrifa niður það sem ég las og veit núna að árið 2013 las ég 13 bækur. Upplýsingar um þennan svakalega lestur er að finna hér.

Þetta er heldur minna en ég hafði ímyndað mér, þar sem ég er alltaf og undantekningalaust með bók á náttborðinu hjá mér og les alltaf áður en ég fer að sofa. Þegar ég renni yfir titlana, þá sé ég að 12 af þessum 13 bókum las ég fyrstu 8 mánuði ársins, en frá september til desember las ég aðeins eina bók... Skýringin er tvíþætt: skólabækur komust ekki á þennan lista, og svo það að í haust fór ég yfirleitt seint að sofa vegna lærdóms og orkaði ekki að lesa fyrir svefninn! Annars væri listinn auðvitað mun lengri ;)

Nú er kominn nýr listi fyrir árið 2014, ég kláraði fyrstu bók ársins fyrr í kvöld þegar Lygin hennar Yrsu lá í valnum fyrir mér og ég er staðráðin í því að lesa fleiri bækur á þessu ári en því síðasta. Í kvöld byrja ég á "Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf", titillinn lofar góðu og ég er ekki að djóka!