sunnudagur, 12. janúar 2014

Þetta verður eitthvað...

Einkasonurinn verður táningur í næstu viku. Þrettán vetra uppátækjasamur happafengur.
Hann hefur sýnt miklar framfarir í uppátækjum síðustu misseri, svo miklar að móðirin  hefur stundum áhyggjur af öryggi, eldhættu og útlimamissi.

Í vikunni keypti hann sér einnota myndavél, tók úr henni filmuna og víraði flassið upp á nýtt. Hann dvaldi um stund í bílskúrnum með lóðboltann og verkfærin sem systir hans gaf honum í jólagjöf og æpti loks upp yfir sig: "Það tókst, það tókst!!!". Svo hló hann holum rómi: Múhahahahahaaaa... því honum tókst að búa til það sem hann kallar "Stun-Gun", stuðbyssu, ætlaða til að yfirbuga árásarmenn og aðra glæpamenn sem á vegi hans verða. Þar til hann hittir þá fyrir æfir hann sig á saklausri töng inni í bílskúr, varinn með hönskum og öryggisgleraugum frá Landsbjörgu til vara. Það er bara þannig sem hann rúllar.


3 ummæli:

Kristín Edda sagði...

Þessi drengur er ótrúlegur!

Ég fæ enga pósta! En skrái mig hér með á "snapplistann" - er það ekki annars í boði? Mér finnst gaman að fá "snöpp" frá þér og tvöföld ánægja að fá svona fín bloggskilaboð með. Kaffi, konfekt (ekki heimagert þó, þið myndarfólk!) og Bogguskrif = unaður á sunnudegi.

Hörður B sagði...

Á svo ekki að stýra honum á rétta braut, iðnmenntun kannski. Ekki þetta einskis nýta bóknám :).......ahhhh, stroka út takkinn minn er bilaður, verð að láta þetta fara..... ;)

Björg sagði...

Tja Hörður, þú nærð mér ekkert upp svona!! Ég reyni að hvetja drenginn áfram í því sem hann sýnir áhuga og greiða götu hans þegar hann vantar eitthvað til að geta gert það sem hann langar hverju sinni (eins og í svona tilraunir). Það hefur reynst vel, hann prófar sig svo áfram sjálfur þessi elska :)

Vonandi finnur hann nám við hæfi þar sem hann fær að njóta sín, mér er nákvæmlega sama hvort það er verknám eða bóknám, bara ef hann er ánægður. Svo er líka hægt að fara blandaða leið :)