þriðjudagur, 21. janúar 2014

Hamingjumynd

Mér finnst svo gaman að skoða myndir og hreinlega verð bara að deila einni uppáhalds. Ég kalla hana Hamingjumyndina! Hún hangir útprentuð fyrir ofan skrifborðið mitt þar sem ég get horft á hana þegar ég vil, en annars sé ég hana líka fyrir mér þegar ég halla aftur augunum, það nægir alveg.

Þessi hamingjumynd er tekin í Hallormsstaðarskógi þar sem við áðum í hringferðinni okkar síðasta sumar. Það sem mér finnst svo frábært við þessa mynd er sjálf stundin sem hún er tekin á. Áður en ég smellti af hafði ég setið dágóða stund á steini í fjörunni og fylgst með hjörðinni minni. Allir undu glaðir við sitt: Sólin klifraði í klettum og sveiflaði sér í trjágreinum eins og hennar er von og vísa (rauðar leggings og græn peysa þarna inni í skógarþykkninu!), Pabbinn dundaði sér með myndavélina sína og Vinurinn dró upp vasahnífinn og tálgaði trjágrein. Fuglarnir sungu og Lagarfljótið gutlaði í fjörunni, annars var ró og friður og ég var yfirfull af orku, hamingju og gleði.

Þá hugsaði ég með mér: "þetta er ein af þessum gæðastundum lífs míns sem ég ætla að varðveita og ylja mér við um alla tíð", dró því næst upp myndavélina og smellti af þessari hamingjumynd (svona til öryggis, af því ég get verið ansi gleymin...).

Síðan í sumar hef ég margoft rifjað upp einmitt þessa stund og fyllist ljúfri, góðri tilfinningu í hvert sinn. Ef eitthvað hvílir á mér eða ég verð pínu döpur, þá sest ég niður, loka augunum og fer þangað aftur í huganum, sæki þessa gæðastund og nýt hennar aftur. Og aftur. Og aftur. Eins oft og ég vil. Og samstundis birtir til hjá mér hér í núinu, ég fyllist orku og allt verður eins og það á að vera, auðvelt og gott.

Vonandi eiga sem flestir sína hamingjumynd. Ekkert endilega útprentaða, það er nægir að eiga huglæga mynd af hamingjuríkri andrá til að grípa til þegar þörf er á orkuskoti. Mæli með því!

4 ummæli:

Kristín Edda sagði...

Falleg mynd af fallegu og góðu fólki... leggings-pæjan stelur senunni (eins og svo oft...sbr.uppblásnir gúmmíhanskar við Veiðivötn i den...)

Nú er ég búin að fatta þetta rugl með póstana..hí hí hí. Enda er ég með þrjár háskólagráður.

*knús* á E9

Kristín Edda sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Unknown sagði...

hehe ég sá Siggu Sól ekki fyrr en þú bentir á hana!
útilegurfílingurinn blossaði upp í augnablikinu...

Björg sagði...

Aaaa, er einmitt illa haldin af útileguþrá þessa dagana. Langar mest að sækja fellihýsið strax úr geymslu og fara að undirbúa!
En þangað til er gott að ylja sér við góðar minningar og fletta í gegnum hamingjualbúmið :)