mánudagur, 17. mars 2014

Tveggja mánaða skammtur

Æ, sorrý, ég datt aðeins út úr skrifstuði og svo leið tíminn bara allt of hratt og þegar ég hugsa til baka trúi ég því tæplega að það séu nánast tveir mánuðir síðan ég skrifaði hér síðast!

Það er náttúrulega búið að vera í nógu að snúast, eins og gengur og gerist. Skólinn hófst rólega, ég er bara í tveimur kúrsum og get leyft mér að læra bara þegar ég nenni. Að minnsta kosti þar til líður að skilum og ég þarf að taka allnighter á þetta til að klára. Það er bara þannig sem ég rúlla, og það er í fína lagi!

Í febrúar átti ég afmæli eins og allir vita og af því tilefni bauð minn heittelskaði mér út að borða og á hótel í höfuðborginni, voða næs. Myndin hér til hliðar var einmitt tekin meðan við biðum eftir carpaccioinu okkar á Ítaliu (veitingastaðnum, ekki landinu).

Ég er búin að vera dugleg að syngja síðan um áramót, byrjaði aftur í kórnum um áramót og tók líka þátt í verkefninu "Syngjandi konur á Vesturlandi" sem haldið var í Borgarnesi í byrjun mars. Það var alveg dásamlegt, mæting á laugardagsmorgni kl. 10 og æft fram á kvöld, svo var matur og skemmtun um kvöldið. Á sunnudeginum var aftur hafist handa kl. 10 og æft fram eftir degi og síðan tónleikar í Hjálmakletti seinnipartinn. Aðrir tónleikar í Grundarfjarðarkirkju og Fríkirkjunni í sömu vikunni. Þvílíkt spítt og gaman að vinna þetta svona. Það eina sem fer í taugarnar á mér við kóræfingar er nefnilega hversu lengi er hjakkast í sömu förunum og hversu oft sömu lögin eru æfð. Í þessu verkefni er spýtt í lófana og heilt prógram keyrt í gegn á mettíma. Tónleikarnir tókust allir rosalega vel og í heildina var þetta mjög gefandi og orkumikil vika allir svo jákvæðir og glaðir og hvetjandi. Mér skilst að þannig séu bara allir í Borgarnesi :)
Allar með mottur í Fríkirkjunni enda mottumars. Lagið er Hraustir menn.

Við Kristjana að syngja More than words, yndisleg kona þarna á ferð!
Hvað á ég að segja meir... kannski setja inn myndir frá öskudeginum, en búningarnir verða flottari með hverju árinu og mikill metnaður hjá krökkum hér í bæ að vera í heimagerðum búningum. Þetta þarf ekki að vera flókið, Sólin var veisluborð og Vinurinn var búktalari eins og sést:

Það er svo aldeilis margt framundan og ótrúlega margt sem tengist tónlist. Við Tóti fórum á Eyja-tónleika í Eldborg í byrjun febrúar, þar sem flutt voru lög eftir Ása í bæ, svona undirbúningur fyrir ættarmót í Eyjum í sumar. Svo eru aldeilis viðstöðulausar menningarheimsóknir í höfuðborgina framundan, það eru Led Zeppelin tribute tónleikar í föstudaginn, óperan Ragnheiður í næstu viku og svo sýningin Baldur með Skálmöld í Borgarleikhúsinu í apríl. Þannig að það er nóg um að vera og æði margt spennandi framundan. Ég er meira að segja búin að panta mér utanlandsferð í maí! Já, alveg dagsatt, við Ágústa erum skráðar í hlaup í Sönderborg í lok maí svo ég skrepp yfir helgi til hennar til að afgreiða það, með smá viðkomu í H&M og hlakka ótrúlega mikið til því ég hef ekkert heimsótt hana síðan hún flutti.

Æ, hvurslagt upptalning er þetta. Þær gerast nú ekki leiðinlegri færslurnar en þær sem innihalda tómar upptalningar, en þó er ég viss um að þetta mun ræsa bloggarann í mér og auk þess vera til tómrar gleði fyrir framtíðar-mig, svo hananú.

Engin ummæli: