laugardagur, 29. mars 2014

Hörpumaraþon

Undanfarnar vikur höfum við verið ansi dugleg að fara í Hörpuna, þetta dásamlega fallega tónlistarhús hvar ég myndi glöð eyða öllum frítíma mínum, kostaði miðinn ekki annað nýrað. Hörpusýkin hófst um miðjan febrúar þegar við Tóti fórum á tónleikana Ég þrái heimaslóð, með lögum eftir Ása í bæ. Alveg hreint ágætir, sérstaklega eftir hlé þegar þjóðhátíðarlögin voru tekin í bunum, þá kannaðist ég við mig!
Ég þrái heimaslóð

Svo voru það afar hressilegir Led Zeppelin tribute tónleikar, þar sem Stefán Jakobsson bar af annars frábærum hóp söngvara. Ekki hef ég hlustað mikið á Led Zeppelin í gegnum árin svo ég viti til, en þó hlýtur þessi tónlist að hafa síast inn hjá mér því ég þekkti nánast öll lögin. Held ég hreinlega að þau tvö sumur sem ég vann í fiski með Rás 2 í eyrunum allan daginn hafi riðið þar baggamuninn. Takk Rás 2!
Led Zeppelin (tribute sko, ekki rugla þessu saman við original bandið eins og sumir gerðu)

Síðan var það um síðustu helgi að ekki ómerkari maður en minn eigin Vinur sem steig á svið í Hörpu með félögum sínum í harmonikkusamspili Tónlistarskólans á Akranesi. Mikið var ég stolt, og hann líka sjálfur. Enda sagðist hann nú hafa tekið fram úr móður sinni í frægð og frama, mamman hefur víst aldrei orðið svo fræg að vera beðin um að koma fram á tónleikum í Hörpu! ENNÞÁ... 
Flotti Vinur minn tilbúinn að stíga á svið

Hörpumaraþoninu lauk svo í gær með algjörlega einstakri og ógleymanlegri sýningu, örugglega þeirri dásamlegustu sem ég hef á ævinni séð, óperunni Ragnheiði. Það er varla um annað talað núna en þessa sýningu, en svo virðist sem algert óperuæði hafi gripið landann og enginn telst vera maður með mönnum nema hafa farið á Ragnheiði! Og ekkert skrýtið, allt er svo ólýsanlega fallegt við þessa sýningu, sagan sjálf er auðvitað stórbrotin svo Rómeó og Júlía blikna í samanburðinum, tónlistin hans Gunna Þórðar er undur melódísk og hjartnæm, textinn hans Friðriks Erlingssonar sem birtist á skjá fyrir ofan sviðið (sem betur fer, annars hefði ég ekki náð helmingnum af honum) er ólýsanlega fallegur og sumar hendingarnar stungu mig inn að kviku. Söngvararnir standa sig með prýði og þá sérstaklega Þóra Einarsdóttir og nýi uppáhaldstenórinn minn Elmar Gilbertsson, hann mætti syngja mig í svefn á hverju kvöldi. Ég sver að aðeins þeir sem hafa steinhjarta sleppa við táraflóðið í lok sýningar.

Mamma og systur mínar, hvað ég er þakklát fyrir þessar konur í mínu lífi!


2 ummæli:

Kristín Edda sagði...

Vá! Fullorðins :) Ég hef hvorki komið í Hörpu né farið á Óperu. Þar að auki hef ég aldrei unnið í fiski... Mikið óskaplega er ég nú ung og óreynd...*dæs* En nóg um Carsten. Viltu hlaupa með mér uppá Snæfellsjökul og niður aftur 28.júní?
Kærlig hilsen!

Kristín Edda sagði...

Vá! Fullorðins :) Ég hef hvorki komið í Hörpu né farið á Óperu. Þar að auki hef ég aldrei unnið í fiski... Mikið óskaplega er ég nú ung og óreynd...*dæs* En nóg um Carsten. Viltu hlaupa með mér uppá Snæfellsjökul og niður aftur 28.júní?
Kærlig hilsen!