þriðjudagur, 8. febrúar 2011

Hlaupadrama

Hlaupadagbókin hefur bara ekkert verið uppfærð undanfarið.

Ástæðan? Jú, ég hef bara ekki nennt þessu og hef látið Zumba tvisvar í viku nægja. Aukinheldur er færðin einstaklega leiðinleg þessa dagana og ég hef bara ekki hætt mér út á ísi lagðar gangstéttar bæjarins svona á ónegldum sólunum!

Í kvöld greip mig þó hlaupaórói mikill sem ég varð að finna farveg. Ekki var hægt að hlaupa úti vegna veðurs og mig langaði ekki inn í Höllina. Því átti ég þann kost vænstan að fara á bretti í þreksalnum, þangað sem ég hef ekki komið í hartnært ár.

Úff!

Þetta er bara ekki fyrir mig, alltof kaótískt og troðið af fólki á kafi í áramótaheitinu sínu (skil þetta ekki, það er komið fram í febrúar!). Svo eru allir salir í notkun fyrir einhverja lokaða tíma svo eini staðurinn til að teygja er frammi á gangi! Mjög flott, mjööög flott.

Annars ætlaði ég ekkert að skrifa um þetta, ég ætlaði nefnilega að skrifa um verurnar tvær sem ávalt eru meðíferð þegar ég fer að hlaupa. Aðra skulum við kalla Ofurkvendi. Ofurkvendið situr á hægri öxl minni og hvíslar í eyra mér dásamlegum hvatningarorðum, hún segir mér að ég geti allt sem ég ætli mér og að ég muni alveg ná að hlaupa þessa 5 km á undir 25 mínútum.
Á vinstri öxlinni situr önnur vera, Letipúkinn. Hann er feitur og pattaralegur og hvíslar líka að mér ljúfum orðum en inntakið er efnislega allt annað. Hann talar um hvað það væri nú notalegt að vera komin heim og í bað, gott væri að skríða upp í sófa og kúra aðeins. Ég eigi alveg skilið að komast upp í rúm og þetta hlaup sé nú ekki mikilvægt enda komi ég aldrei til með að verða góð í því. Letipúkinn er á þeirri skoðun að ég eigi að snúa við og labba heim (eða bara húkka far?).
Ofurkvendið og Letipúkinn berjast um athygli mína frá þeirri stundu sem mér dettur í hug að fara að hlaupa og þangað til ég er komin heim aftur. (Stundum erum við hér að tala um svona þriggja tíma stanslaust nöldur!). Þá loks er ég fæ þaggað niður í Letipúkanum og hleyp úti þá fer ég yfirleitt svipaðan hring sem er um 5 km langur. Galdurinn er sá að hunsa Letipúkann fyrstu 2,5 kílómetrana þegar hann þrábiður mig um að snúa við og beina athyglinni frekar að ofurkvendinu sem hughreystir mig og styður áfram. Seinni helming leiðarinnar hjálpast þau náttúrulega bæði að við að hvetja mig heim:

Já, hlauptu manneskja, sóóófiinn!
Já, duglega þú, þetta geturðu!
Komasvooo, fótabaðið og súkkulaðisjeikinn bíður ekki í allt kvöld! 
Vá hvað þú ert seig, er ekki bara maraþonið í sumar?!?
Þetta verður sko þitt síðast hlaup, sérðu ekki eftir að hafa lagt af stað?!?) 
:o)

Í þreksalnum er þetta öðruvísi, því þar er eins og gefur að skilja lítið hægt að hlaupa í hringi (!) og allt of auðvelt að ýta á einn takka og þá stoppar brettið! Ég verð að segja að í kvöld lét ég undan, var komin 4 km þegar Letipúkinn vann og brettið stöðvaðist (heheee, fyndið hvernig hægt er að beygja sagnir þannig að það virðist sem svo að brettið hafi sjálft séð um að stöðvast!).

Niðurstaðan er sú að þreksalurinn hentar okkur þremur engan veginn því hann er jú kaótískur, of fullur af fólki, of lítill og allt það. Í þreksalnum vinnur Letipúkinn líka alltaf, þannig að við ætlum ekkert að fara þangað aftur í bráð.

Vonum bara að ísa taki að leysa í bráð eða að naglaskór detti af himnum ofan :o)

föstudagur, 4. febrúar 2011

Á þessum síðustu og verstu

Á þessum síðustu og verstu, þegar fólk keppist við að skera niður hvar sem því er við komið og flestir berjast við að halda sig við nauðþurftir hefur áleitin spurning vaknað á mínu heimili: hvað á maður að leyfa sér? Á maður að drekka kaffi? Má kaupa rauðvínsflösku endrum og eins?
Skömmtunarseðill frá 1945. Þarna var kreppa.

Í mínu heimilisbókhaldi er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að niðurskurði, því eitthvað þarf jú að hengja upp eigi að skera það niður. Ég bölva mér daglega fyrir að vera ekki áskrifandi að Stöð 2 ásamt öllum aukarásunum. Ég vildi að ég væri áskrifandi að Gestgjafanum, Mannlífi og Mogganum. Þá gæti ég sagt þessu öllu saman upp og liðið betur. Ég vildi að ég reykti og drykki óhóflega. Óskandi væri að krakkarnir væru í dýru tómstundastarfi (helst á fleirum en einum stað). Ef ég bara væri með ávexti í áskrift eða eitthvað!
En nei, hófsemisfólkið á þessu heimili hefur ekki verið mikið fyrir að spreða í þessa hluti og þess vegna er ómögulegt að ætla sér að skera niður á þessum sviðum.

Í tölvupósti sem mér barst í dag var mér tjáð að ef ég ætti mat í ísskápnum, föt og skó og ætti rúm og þak yfir höfuðið þá væri ég ríkari en 75% alls mannkyns. Í sama pósti fékk ég þær upplýsingar að ef ég ætti bankareikning, peninga í veskinu og smáaura í bankanum þá tilheyrði ég þeim 8% mannkyns sem teldist vera að gera það gott!
 
Þetta eru ansi hreint merkilegar upplýsingar miðað við hversu skítt manni finnst nú allt vera hérna þessi misserin :) Þessir hlutir eru nefnilega almennt ekki taldir til munaðar, en allir með tölu eru þeir þó í minni eigu. Samkvæmt þessum upplýsingum þá hefur maður það gott, svona á heimsmælikvarða, svo ekki kvartar maður.

Samt eru margir sem kvarta og hafa það skítt. Ég fer samt ekki ofan af því að áður en hægt er að kvarta og kveina þá er nauðsynlegt að fara yfir bókhaldið og skera niður. Sá sem er blankur en er samt með allar sjónvarpsstöðvarnar verður að segja þeim upp áður en hægt er að kvarta. Sá sem er áskrifandi að blöðum og tímaritum þarf að segja þeim upp áður en hægt er að kvarta yfir blankheitum.

Og sá sem angar af tóbakslykt... en kvartar samt sárt yfir blankheitum... ég segi við hann fullum hálsi:
"Þetta eru ekki þínir síðustu og verstu!"

fimmtudagur, 3. febrúar 2011

Zumba

Ég er í Zumba.
Veit ekki alveg hvort þetta er dans eða eróbikk, enda skiptir það litlu því hvorugt tilheyrir minni sterku hlið.
Eins og er þá er ég eins og konan í græna bolnum aftast í þessu myndbandi:

Þetta er samt gaman og maður er aðeins betri með hverjum tíma og eftir þessar 6 vikur standa vonir mínar til að þetta hafi nú skánað aðeins svona á heildina litið :)