sunnudagur, 27. september 2015

Einfaldara líf

Í ósköp smáum skrefum er ég þessi misserin að tileinka mér einfaldara líf. Hvert og eitt skref telst alls ekki afrek út af fyrir sig, þetta eru ósköp léttvægar breytingar sem einar og sér hafa lítið að segja. En eins og í mörgu öðru þá sést best þegar litið er um öxl hversu langt hefur verið farið.

Ferðalagið er nýhafið, en hefur nú þegar haft talsverð áhrif til hins betra. Mér líður hreinlega eins og fargi hafi verið af mér létt! Og stærstu áskoranirnar eru enn framundan, þetta verður eitthvað!

Mig langar dálítið að halda utan um þetta ferli hér á blogginu, svona fyrir sjálfa mig að fylgjast með þróuninni.

Nokkur skref sem ég hef tekið undanfarið:

  • Slökkt á tilkynningum frá Facebook í símanum
  • Er ekki með Facebook-glugga opinn þegar ég er í tölvunni
  • Vinn bara eitt verkefni í einu 
  • Stunda hugleiðslu
  • Horfi lítið á sjónvarp
  • Fylgist lítið með fréttum
  • Útbý matseðil fyrir vikuna
Skrefin eru örugglega fleiri, ég þarf að muna að punkta þau niður. Þegar ég byrjaði að skrifa þessa færslu hélt ég að ég væri ekki einu sinni byrjuð, en halló, þarna er fullt af skrefum sem ég hef þegar tekið og skipta mig afskaplega miklu máli!

Fyrir það fyrsta er Facebook sá allra versti tímaþjófur sem upp hefur verið og algerlega nauðsynlegt fyrir almenna vellíðan að kúpla sig algerlega út úr því samfélagi eins og hægt er. Það er samt ekki hægt að hætta þarna því þá missir maður gersamlega af öllu og er aldrei hafður með í neinu, ég hef prófað það og það gengur ekki upp. En það er hægt að vera með aðgang án þess að þurfa að flytja lögheimilið þangað inn og án þess að láta Facebook rjúfa friðinn stanslaust með endalausum tilkynningum í símann og á tölvuskjáinn. Galdurinn er að kíkja bara inn reglulega, en slökkva svo aftur.

Varðandi það að einbeita sér að einu verkefni í einu, þá hefur þetta verið vandamál hjá mér lengi. Ég á svo ótal mörg áhugamál og er stanslaust með einhver verkefni í gangi og í gegnum tíðina hef ég djöflast í þeim öllum í einu. Fyrirfram hélt ég að ef ég ætlaði að hætta því þá þýddi að ég gæti ekki lengur multitaskað. Ekki rétt. Þegar ég þarf að snúa mér að næsta verkefni þá hætti ég í verkefninu sem ég var í áður. Get svo bara hafist handa við það aftur síðar. Ekkert að því, alger snilld!

Ég hef oft reynt við hugleiðsluna, en hef ekki haft athyglina í lagi hingað til (örugglega að hugsa um öll verkefnin sem bíða mín!). Þá frétti ég af því að þetta væri alveg eins og með hlaupin, maður þarf að koma sér í form til að geta hugleitt af einhverju viti. Þannig að ég hófst handa með það fyrir augum, gerði bara lítið í einu og er alltaf að bæta mig í þessu. Ég náði í ansi flott app í símann fyrir þetta, það heitir Insight timer og reynist mér ótrúlega vel. Um daginn náði ég meira að segja að hugleiða í 20 mínútur án þess að sofna og allt, þetta er allt að koma.

Sjónvarp og fréttir duttu út á svipuðum tíma. Sjónvarpið horfi ég stundum á, ef það er eitthvað í því. ef það er ekkert í sjónvarpinu þá slekk ég. Varðadi fréttirnar þá getur það verið ótrúlega erfitt að búa í þessu neikvæða umhverfi sem hefur einkennt Ísland síðan kreppan skall á og ætla sér að vera jákvæður. Þess vegna hætti ég að fylgjast með fréttum og held svei mér þá að jákvæðnin hafi blossað upp strax! Ég segi ekki að ég sjái aldrei fréttir (sé þeim til dæmis einstöku sinnum deilt á Facebook...), en þær sem ég tek eftir eru jákvæðar og gagnlegar. Hinar fréttirnar mega eiga sig. Og ég á ekki við að ég hunsi fréttir af ástandinu í Sýrlandi eða flóttamannastraumnum í Evrópu. Ég les þær til gagns, ekki til að láta neikvæðnina draga mig inn í svarthol kommentakerfisins. Fleiri mættu taka það til sín sem eiga það.

Matseðillinn. Ó, elsku matseðillinn. Þetta skref er nú ekki að ganga fullkomlega upp, og ég hef reynt áður en mistekist. Þýðir það að ég eigi að gefast upp? Nei, nei, alls ekki. Matseðillinn gekk núna viðstöðulaust í fimm vikur og svo var óvart frí í síðustu viku. Núna þegar þessari færslu lýkur fer ég beinustu leið í að búa til matseðil fyrir næstu viku og held ótrauð áfram eins og ekkert hafi í skorist, vúhúú!

sunnudagur, 13. september 2015

Sunnudagur

Góður dagur að baki, og nóg eftir! Þrátt fyrir að afkvæmi mín séu að stíga fyrstu skref unglingsára sinna finnst þeim alltaf jafn gaman að skoða afkvæmi annarra dýrategunda og bara dýr yfirleitt eru mjög vinsæl hjá þeim. Við skelltum okkur því í Húsdýragarðinn í dag með góðum hópi úr fjölskyldunni. Þeim þótti leitt að ekki skuli vera opið í tækin yfir vetrartímann, en létu sér dýrin nægja í þessari ferð. 

Ungviðið dáist að ungviðinu
Selirnir vekja alltaf aðdáun. Afkvæmin mín rifja upp hvernig þau náðu eitt sinn
ekki að sjá upp fyrir glerið. Nú nær efri brún glersins þeim í mitti!