mánudagur, 27. september 2010

Háin þrjú

Ég er lasin. Ó, svo lasin.
Alveg rólfær þannig, svoleiðis að maður mætir auðvitað í vinnu og sinnir svona þessum helstu daglegu skyldum. En er samt svo lasin, ó svo lasin.

Mér leiðist svona hálfkák. Vil bara ljúka svona hlutum af hið fyrsta, taka þetta með trukki, drífa þetta af, liggja eins og skotin í dag eða tvo og verða svo 99% á ný. Þetta ástand núna er hins vegar að gera mig brjálaða. Háin þrjú, Hóstaköst, Hor og Hausverkur draga mig niður í svona 50% sem er til lengri tíma litið langt fyrir neðan starfhæft bil! Á pantaðan tíma í viðgerð í vikunni, vona bara að eitthvað sé hægt að gera fyrir mig.

Sumir eiga erfitt með að hemja sig þegar þeir hitta lasið og kvefað fólk. Ráðin koma úr öllum áttum, alveg óumbeðin:
"Passaðu að þér verði ekki kalt"
"Éttu hvítlauk"
"Nagaðu engifer"
"Sjóddu sítrónu"
"Borðaðu hunang"
"Hitaðu rauðvín"
...
"Sofðu í öllum fötunum og drekktu heitt rauðvín með hvítlauk, hunangi, engifer og sítrónu..."

laugardagur, 25. september 2010

Sushi

Tölum aðeins um kvöldmatinn. Hann er óþrjótandi uppspretta orða :)
Í kvöld verður eldhúsinu mínu breytt í tilraunaeldhús því á matseðlinum er Sushi!! Í fyrsta sinn sem það er á boðstólunum hér og krakkarnir eru að springa úr spennu.

Húsmóðirin keypti kjána-heldan byrjendapakka sem inniheldur allt sem þarf: bambusmottu, Nori-blöð, hrísgrjón, hrísgrjónaedik, soyasósu og wasabi. Síðan er silungurinn og krabbinn er að þiðna í þessum töluðu skrifuðu orðum og gúrkan og avocadoið bíða spennt á kantinum. Ég slefa bara við að skrifa þetta!

Nú bara ligg ég á netinu að skoða sushi uppskriftir og læt mig dreyma um að fara út að borða hér:
Osushi
Það getur ekki verið slæmt að borða þar sem maturinn kemur til manns á færibandi!! Gulir diskar kosta þetta mikið, grænir diskar kosta aðeins meira, bambusdiskarnir örlítið meira en það. Sitjandi þarna með allan þennan mat á stöðugri ferð er ekki víst að ég geti tekið fulla ábyrgð á gjörðum mínum...

Mmmm get ekki beðið til kvölds, slúrp!