laugardagur, 27. mars 2010

Þegar lesendur eru farnir að hrjóta...

...er víst komið að því að setja inn nýja færslu!

Ég finn alveg að það er erfiðara að blogga eftir að FB kom til sögunnar. Maður er hreinlega orðinn háður stuttum stöðuuppfærslum í formi einnar setningar, engar refjar.

Ta.m. gæti ég sett hérna inn innihaldsríka færslu um brjálæðislega fallegt og kröftugt eldgos og hvernig Íslendingar sogast í þessum töluðu orðum að gosstöðvunum eins og flugur að ljósi... íklæddir gallabuxum og strigaskóm leggja þeir á Fimmvörðuháls til að líta undrið eigin augum. Umferðateppa í Fljótshlíðinni. Ég gæti líka farið á FB og skrifað "gos og hraun, einhver?" og málið teldist dautt.

Auðvitað gæti ég líka skrifað hér heillanga færslu um ríkisstjórnina og myntkörfulánin og atvinnuleysið og angistina og uppgjöfina og allsráðandi tilgangsleysið og knýjandi flóttaþörfina á Íslandi í dag. Á FB gæti ég orðað þetta pent: "Helvítis Fokking Fokk"

Og eigum við að ræða Icesave eitthvað?

Þetta er dáldið skrýtið allt saman og spurning hvað þetta kemur til með að þýða fyrir tjáningarhæfileikana. Fyrir nokkrum árum þá voru viðhafðar miklar áhyggjur af því að bloggið myndi ganga af íslenskri tungu dauðri. Ég skrifaði m.a.s. BA-ritgerð um það efni. Núna held ég hreinlega að Facebook komi til með að verða helsti áhættuþátturinn og bloggið muni að lokum koma okkur til bjargar!

Æ, hvað ég verð að halda áfram að blogga!

Sorrý hvað þetta er leiðinleg færsla, hún átti ekkert að verða svoleiðis upphaflega en varð bara þannig á leiðinni. Ég lofa að blogga um mat næst :)

Pís át...