sunnudagur, 23. ágúst 2015

Sunnudagspjakk

Það er eitthvað svo unaðslega dásamlegt við það að róta í moldarbeði. Það er því undarlegt að ég hafi mig ekki oftar út í garð að potast í beðum, en þannig er þó í pottinn búið hér á bæ.

Í dag dreif ég mig þó út í garð. Rólegur sunnudagsmorgunn að baki, Tóti farinn af stað í vikutúr á hálendið og rigningarsuddi úti. Yndislegt að gleyma sér við pjakkið, hlusta á regnið falla á laufblöðin fyrir ofan mann og finna moldarlyktina. Maður er alveg endurnærður.

Og eitt er gott við að fara sjaldan út að reyta, það er að árangurinn er mjög sýnilegur! Hér er ég hálfnuð að reyta stórt trjábeð sem var allt á kafi í arfa (eins og sést neðst í vinstra horni):


Ég rétt skrapp inn til að fá mér kaffibolla, næst á dagskrá er að halda áfram að reyta út að horni og gera síðan klárt fyrir gítartímann. Já, ég hóf nám í gítarleik nýverið, það er saga síðari tíma :)