föstudagur, 25. janúar 2013

Fablab


Vinurinn hangir ekki í tölvunni allan daginn, nei hann fer í FabLab og sker út ostabakka og nokkur hálsmen fyrir mömmu sína! Bara af því hann langar til þess <3
Published with Blogger-droid v2.0.10

Þorri er mættur á E9



Hákarl á pizzuna... það fer ekki á milli mála að Þorri er mættur á E9.
Published with Blogger-droid v2.0.10

sunnudagur, 13. janúar 2013

Fjögurra daga helgi

En yndisleg og dásamleg helgi! Það er ekkert annað :)

Mér finnst helgarnar verða svo svakalega drjúgar ef maður kemur sér í gírinn strax á fimmtudegi og á fimmtudaginn fórum við Tóti einmitt á frábæra tónleika með SoundPost á Café Haiti. Alveg yndislegt að hitta Halla og Hörpu og sjá og heyra þau koma fram. Föstudagurinn var ljúfur, ég gerði kjúklingasúpu í kvöldmatinn og þurfti ekki að elda meira það sem eftir lifði helgar því síðasti dreitillinn rann ljúflega niður í kvöld, sunnudagskvöld :) Laugardagurinn var rólegur framan af, smá þrif, hamstrabúrin tekin í gegn og unglingapartý undirbúið, prinsinn er að verða 12 ára í næstu viku. 12 ÁRA, ég meina það! Ég hef nú aldrei vitað annað eins rólegheita-partý, það þurfti ekki einu sinni að sópa þegar þessar elskur voru farnar og ég lét þau vita að þeim væri meira en velkomið að halda öll sín unglingapartý á E9.

Svo kom sunnudagurinn. Fjórði dagur þessarar helgar (út af þessu með fimmtudaginn manstu?) og framan af leit nú út fyrir að ég ætlaði ekki úr náttfötunum. Sem betur fer dreif ég mig úr þeim seinnipartinn og skellti mér upp á Háahnúk með Neró og þar horfðum við saman á sólsetrið. Svakalega flott veður, snjór yfir öllu, él á köflum en annars bjart. Alveg yndislegt og gaf alveg tóninn fyrir næstu viku sem verður væntanlega ein sú mest spennandi um langa hríð. Kannski verður meira sagt frá því síðar, en auðvitað á maður ekki að drífa sig svo eða hugsa svo mikið um það sem framundan er að maður gleymi að njóta því sem er akkúrat núna. Þess vegna tók ég myndir í dag! Svo ég geti notið aðeins lengur :)








miðvikudagur, 2. janúar 2013

Vor í lofti?

Ég tók göngu/skokkhring um Akranes áðan og held svei mér þá að það sé vor í lofti! Klakinn að bráðna af gangstéttum í þíðunni og milt og hlýtt kvöldveður. Er þetta óvinsælasta færsla dagsins? Veit ekki, að minnsta kosti er ekki víst að samlandar mínir í öðrum landshlutum taki undir þessa hugmynd mína.
Frá snjóhreinsun á Ísafirði 2. janúar 2013
Frá kvöldskokkinu á Akranesi 2. janúar 2013

Það er gott að búa á Akranesi, veðurlega séð :)

þriðjudagur, 1. janúar 2013

Áramót

Þá er árið 2012 loksins búið og undirrituð á ekki eftir að sakna þess. Ég tek áramót ávallt alvarlega og sérstaklega núna þegar liðið ár hefur verið erfitt og slítandi. T.d.set ég alltaf áramótaheiti og áramótaheitið mitt núna tengist nýju upphafi, að segja skilið við þar sem liðið er og hætta að velta mér upp úr erfiðleikunum. Ég ætla að horfa fram á við og vera bjartsýn. Hananú, þetta verður ekki mikið mál ha? Alla vega verður ekki mikið mál að gera árið 2013 betra en árið 2012, það er þó stór plús :)

Jól og áramót hafa farið vel með liðið á E9. Við erum búin liggja í leti, borða og svo höfum við spilað mikið. Sólin er orðin snillingur í Íslandopoly og við getum tekið 3ja tíma spil þar sem hún er í banastuði allan tímann og vinnur svo auðvitað að lokum (hún er klók nefnilega!). Vinurinn hefur beðið spenntur eftir sprengjunum því áramót eru jú uppáhaldshátíðin hans (afmælið hans er í öðru sæti og jólin í því þriðja). Hann var því í aðalhlutverki í gærkvöldi ásamt afa sínum, þeir sprengdu sem óðir væru litlu drengirnir. Við fórum líka á áramótabrennu í Kalmansvík, en það var mjög hvasst og kalt svo þar var ekkert sprengt. Skaupið var fínt, dáldið meinfýsið en við hlógum oft og ég er bara alveg sátt við það. Ætla að hleypa nokkrum myndum hér að, er orðin hrifin af því að nota bloggið sem dagbók í máli og myndum, það er gaman að fletta hér í gegn og rifja upp og stundum óska ég að ég hefði sett inn fleiri myndir!

Á skautum milli jóla og nýárs 2012. Þess ber að geta að við erum  góð á skautum, rosalega góð.

Spilakvöld á E9

Á leið á áramótabrennu í Kalmansvík

Þessi er með myndavél á öllum myndum

Á brennu með ömmu Siggu

Flugeldar

Partý á Skagabraut, amma klikkar ekki á því um áramót :)

Göngutúr á nýársdag