sunnudagur, 6. desember 2009

Jólahús

Jæja, þetta fór betur en á horfðist og hér kemur afraksturinn:




Barasta ekkert svo hroðalegt og meira að segja komið ljós í húsið og allt :)
Eitt gullkorn frá bakstrinum í gær fær að fljóta með:
Sól: Setjum meira súkkulaði, það er svo hollt
Mamman: Nú, er það hollt?
Sól: Já, það er svo hollt fyrir sálina
Hehe, það sem heimurinn þarf er meira súkkulaði :)

laugardagur, 5. desember 2009

Piparkökuhroði

Jólabaksturinn hófst í gærkvöldi, væntanlega með hroðalegum afleiðingum fyrir meðleigjendur mína eins og hér verður frá sagt.




Fyrir utan nokkrar staðal-uppskriftir og erfðagóss sem ég geymi á pappírsformi á vísum stað, þá er ég steinhætt að nenna að fletta í uppskriftabókum. Þess í stað googla ég öll möguleg og ómöguleg hráefni í leit að góðum uppskriftum. Í gærkvöldi kom í ljós að þessi fljótlega aðferð getur haft ákveðna ókosti í för með sér.

Í gær var ferð minni heitið á google og leit hófst að uppskrift að piparkökuhúsi. Úrvalið er mikið og ekki eru allar uppskriftirnar eins. Að lokum stóð valið á milli tveggja uppskrifta sem ég hafði báðar opnar, hvora í sínum flipa í vafranum.

Eftir nákvæman samanburð hófst ég handa á annarri uppskriftinni. Þar sem hún var mjög stór ákvað ég að gera bara helminginn í einu senn svo deigið kæmist nú örugglega fyrir í hrærivélarskálinni. Allt var nákvæmlega mælt (deilt með tveimur) og verkefnið leit ljómandi vel út.


...Hvað vantar nú í þetta dæmi?


Jáh, tónlistina. Hana vantar. Til að mér leiddist ekki mikið við baksturinn opnaði ég nefnilega þriðja vafraflipann og fann vin minn Buble á YouTube til að halda mér félagsskap við baksturinn. Hálfa uppskriftin mín var, þegar hér er komið sögu, hálfkláruð.

Nú verða kaflaskipti í frásögn þessari þegar ástkær eiginmaður minn kemur aðvífandi, hlammar sér niður við tölvuna og mundar sig við að hafa hana alfarið af mér.


"Nei, nei", hrópa ég. "Ég þarf að sjá uppskriftina, maður!"


Maðurinn var fljótur að gefa sig og opnaði meira að segja náðarsamlegast aftur fyrir mig gluggann með piparkökuuppskriftinni áður en hann flúði yfirráðasvæði mitt.

Sigri hrósandi kláraði ég að gera fyrri helming piparkökudeigsins. Smá sykur hér og aðeins af smjöri þar. Dash af sýrópi og málið dautt.


Það var ekki fyrr en um það leyti sem ég ætlaði að hefjast handa á seinni helmingnum sem ég áttaði mig á mistökunum. Á skjánum blasti við mér röng uppskrift.

Ástkær eiginmaður minn hafði opnað vitlausan flipa og uppskriftin sem ég kláraði var ekki sú sama og ég byrjaði á... og það er ekki gott, eins og þeir ættu að vita sem til þekkja...

Helmingurinn af helmingnum var s.s. vitlaus helmingur. Og þannig vitleysu er helmingi erfiðara að leiðrétta :( :(


Ég ætla ekki einu sinni að lýsa restinni. Þvílíkur hroði.

Og það er hroði sem bíður mín núna í skál inni í ískáp. Börnin mín vilja piparkökuhús, en ég veit ekki hvað hroði ætlar sér...


Til öryggis fór ég í búð í dag og keypti tilbúið ósamsett piparkökuhús í pappakassa. Þannig að hvernig sem fer, þá verður uppljómuðu piparkökuhúsi stillt upp hér á bæ fyrir þessi jól.