mánudagur, 30. ágúst 2010

Gáta vikunnar...

Ein er sú athöfn sem ég stunda eins oft og ég get. Stundum á morgnana en oftar á kvöldin. Yfirleitt um helgar.

Ekki þarf að kosta mikið til hennar, en uppskeran er ríkuleg.

Ótrúlega margir stunda þetta, sumir halda því fyrir sjálfan sig en flestir eru ófeimnir við að ræða þetta við aðra og fá góð ráð og ábendingar.

Sumir vilja helst gera þetta í einrúmi en öðrum finnst best að hafa aðra með sér. Sumir ganga svo langt að gera þetta í stærri hópum...enn aðrir með alveg nýju fólki í hvert sinn, en ég ætla nú ekki að ganga fram af lesendum með nánari lýsingum á því!!
Og hvað er svona heillandi við þennan verknað? Tja, suma grípur hin taktfasta hrynjandi, aðra heillar ör hjartsláttur og svitakóf. Enn aðra grípur keppnisskap og samanburður við aðra iðkendur hvetur þá áfram.

Maður reynir auðvitað að gera þetta í hljóði, en eins og allir vita sem reynt hafa þá getur það oft og tíðum reynst ansi erfitt. Iðulega læðast stunur yfir varirnar, auk þess sem allir líkamsvessar byrja að flæða óhindrað með tilheyrandi snörli og þvíumlíkum óhljóðum. Vegna þessa reyni ég alltaf að muna að hafa með mér pappír.

Auðvitað er maður ekki alltaf upplagður eins og gefur að skilja. Þreyta og orkuleysi eru algengar afsakanir og þegar kemur að þessari iðju er höfuðverkur er fullkomlega gild ástæða til að taka sér frí.

Ó, ég gæti haldið endalaust áfram!

Einhverjar hugmyndir um hvað ég er að tala?

fimmtudagur, 12. ágúst 2010

Útilegur og fjallgöngur

Þetta hefur verið ágætis sumar. Svo ágætt reyndar að ég hef ekki átt yfir það orð aflögu til að setja hingað inn :-)
Á leið á Botnssúlur. Séð frá Sandhrygg út Hvalfjörðinn.

En svona það helsta um útilegur og fjallgöngur:
Veiðivötn voru grisjuð fyrstu helgina í júlí. Flott veður og 28 fiskar á okkur fjögur.
Seinna í júlí fórum við í útilegu í Berserkjahraun með Snorra og Ínu og áttum þessar líka Góðu stundir á Grundarfirði að auki.
Um verslunarmanna helgi tvölduðum við hjá mömmu, Helgu og Pétri við sumarbústað í Grímsnesi. Mjög gaman og lærðum við m.a. nördaspilið Kubb sem reyndist hin mesta skemmtan, spiluðum Fimbulfamb svo eitthvað sé nefnt. Gistum reyndar síðan þriðju nóttinu í bústaðnum hjá Siggu og Jonna, grilluðum saman og höfðum notalegt.
Svo eru þær Íris og Ágústa báðar búnar að vera í fríi á Íslandi og það er alltaf yndislegt að sjá þær en að sama skapi leitt þegar þær fara aftur.

Fjallgöngur hafa nú ekki verið stundaðar eins grimmt og ætlað var. Við Ágústa fórum bæði á Háahnúk og Geirmundartind þegar hún var hér. Síðan fórum við Tóti, Ragnheiður og Alli á Botnssúlur sl. sunnudag. Við höfðum stefnt að þessu í allt sumar og loksins tókst það. Frábær ganga, passleg áskorun þótt þetta hafi verið erfitt á köflum.

Hana, búið að skrifa um útilegur og fjallgöngur eins og ég ætlaði mér. Ferlegt að kunna ekkert að blogga um annað lengur...