föstudagur, 4. febrúar 2011

Á þessum síðustu og verstu

Á þessum síðustu og verstu, þegar fólk keppist við að skera niður hvar sem því er við komið og flestir berjast við að halda sig við nauðþurftir hefur áleitin spurning vaknað á mínu heimili: hvað á maður að leyfa sér? Á maður að drekka kaffi? Má kaupa rauðvínsflösku endrum og eins?
Skömmtunarseðill frá 1945. Þarna var kreppa.

Í mínu heimilisbókhaldi er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að niðurskurði, því eitthvað þarf jú að hengja upp eigi að skera það niður. Ég bölva mér daglega fyrir að vera ekki áskrifandi að Stöð 2 ásamt öllum aukarásunum. Ég vildi að ég væri áskrifandi að Gestgjafanum, Mannlífi og Mogganum. Þá gæti ég sagt þessu öllu saman upp og liðið betur. Ég vildi að ég reykti og drykki óhóflega. Óskandi væri að krakkarnir væru í dýru tómstundastarfi (helst á fleirum en einum stað). Ef ég bara væri með ávexti í áskrift eða eitthvað!
En nei, hófsemisfólkið á þessu heimili hefur ekki verið mikið fyrir að spreða í þessa hluti og þess vegna er ómögulegt að ætla sér að skera niður á þessum sviðum.

Í tölvupósti sem mér barst í dag var mér tjáð að ef ég ætti mat í ísskápnum, föt og skó og ætti rúm og þak yfir höfuðið þá væri ég ríkari en 75% alls mannkyns. Í sama pósti fékk ég þær upplýsingar að ef ég ætti bankareikning, peninga í veskinu og smáaura í bankanum þá tilheyrði ég þeim 8% mannkyns sem teldist vera að gera það gott!
 
Þetta eru ansi hreint merkilegar upplýsingar miðað við hversu skítt manni finnst nú allt vera hérna þessi misserin :) Þessir hlutir eru nefnilega almennt ekki taldir til munaðar, en allir með tölu eru þeir þó í minni eigu. Samkvæmt þessum upplýsingum þá hefur maður það gott, svona á heimsmælikvarða, svo ekki kvartar maður.

Samt eru margir sem kvarta og hafa það skítt. Ég fer samt ekki ofan af því að áður en hægt er að kvarta og kveina þá er nauðsynlegt að fara yfir bókhaldið og skera niður. Sá sem er blankur en er samt með allar sjónvarpsstöðvarnar verður að segja þeim upp áður en hægt er að kvarta. Sá sem er áskrifandi að blöðum og tímaritum þarf að segja þeim upp áður en hægt er að kvarta yfir blankheitum.

Og sá sem angar af tóbakslykt... en kvartar samt sárt yfir blankheitum... ég segi við hann fullum hálsi:
"Þetta eru ekki þínir síðustu og verstu!"

1 ummæli:

Hörður og Árný sagði...

Góður pistill, fær mann til umhugsunar um hvað maður hefur það gott í raun..