laugardagur, 18. janúar 2014

Afmælishelgi

Jæja, þá er vinurinn orðinn 13 ára. Hann hélt upp á bekkjarafmælið á fimmtudaginn, sjálfan afmælisdaginn, og í dag var fjölskyldunni svo boðið til veislu. Hann er rosalega ánægður með bæði partýin og þakklátur fyrir kveðjur og gjafir, enda fékk hann mikið af því sem hann helst óskaði sér, nefnilega pening! Hann er að safna sér fyrir notaðri alvöru Canon myndavél og mér skilst að hann eigi nánast fyrir henni núna svo það er mikil spenna á heimilinu og allt á fullu að gera tilboð í vélar sem pabbinn drengurinn gæti hugsað sér að eignast.

Talandi um myndir, ég hef ákveðið að þrettándi afmælisdagurinn sé sá afmælisdagur barna minna sem ég hætti að setja vandræðalega mynd af þeim nývöknuðum og grútmygluðum inn á veraldarvefinn, svo það verður enginn svoleiðis birting með þessum pósti. Kannski ég setji frekar inn tvær fallegar myndir frá síðasta sumri á einni af ferðum okkar um landið okkar fagra. Þarna vorum við að keyra yfir vað og Vinurinn hékk út um gluggann afturí. Myndirnar tók ég á símann út um minn glugga og mér finnst þær lýsa svo ótrúlega mikilli gleði, tilhlökkun og kátínu, einhverju sem þessi uppáhaldsvinur minn er stútfullur af!



Á morgun hefst svo skólinn hjá mér eftir frábært jóla-nýárs-janúar-frí! Sjálf kennslan er auðvitað löngu hafin, en ég verð fljót að vinna upp þessar tvær vikur sem ég ákvað að framlengja fríið mitt um. Ég nenni auðvitað ekki að byrja í kvöld, í kvöld eru það mikilvægari verkefni: kósí í sófanum með besta fólkinu og góðri bíómynd. 

Ást og út!

1 ummæli:

Björg sagði...

Nú er spurning hvort mín elskulega Kristín Edda fái póst í fyrramálið eins og aðrir á póstlistanum? Ég leyfi mér að veðja á það :D