laugardagur, 11. janúar 2014

Laugardagur

Mig dreymir svo furðulega þessa dagana þessar næturnar. Man draumana alveg þegar ég vakna, en er búin að gleyma þeim fljótlega eftir að ég kemst á ról. Mig dreymir fólk sem ég þekki í alvörunni, í aðstæðum sem ég þekki ekki og allt er voða skrýtið og öfugsnúið. Kannski væri ráð að skrifa draumana niður, þetta er að verða efni í sagnabálk...

Í morgun var svo mikið að gera í draumalandi að ég svaf til hádegis! Ég missti því alveg af sólarupprásinni og finnst þessi dagur því hafa verið óþarflega stuttur. Við Neró skelltum okkur í göngu fljótlega eftir hádegi, enda afskaplega fallegur og bjartur dagur hér á Skagatá:


Við fengum góða gesti í kaffi seinnipartinn og þegar þeir kvöddu fórum við fjölskyldan í keilu. Vinurinn vann að sjálfsögðu með yfirburðum, enda æfir hann þessa íþrótt tvisvar í viku. Ekki skil ég samt hvernig hægt er að ná upp færni í þessu sporti, ekki frekar en í golfi, snóker eða fótbolta. Maður kemur kúlu á hreyfingu, hvort sem maður kastar henni, slær í hana með priki, eða sparkar í hana, og svo vonar maður það besta. Hjá mér snýst þetta um heppni og dagsform, því sama hversu oft ég prófa, ég verð ekki betri í þessum greinum! Vinurinn segir að þetta snúist um tækni og æfingu, hafa réttan snúning og taka ákveðið mörg skref... einmitt það!

Sólin var með gott skor og skemmti sér vel

Þessi skoraði 118 stig í sínum leik, heppni flott frammistaða hjá drengnum!

Eftir hörkukeilukeppni héldum við heim í eldhús, mölluðum lambalæri og gerðum konfekt. Já, rétt lesið, konfekt! Við vorum allt of sein að gera jólakonfektið í desember, og ákváðum þess vegna að vera tímanlega með þorrakonfektið... Það stefnir því allt í kósí sófakvöld með konfekti og kertaljósum, ljúfa líf, ljúfa líf <3 p="">

Hnetusmjör+döðlur+kókosmjöl+haframjöl+súkkulaði


Engin ummæli: