Lesnar bækur árið 2013:
- Ljósmóðirin e. Eyrúnu Ingadóttur. Eyrún skrifar um Þórdísi Símonardóttur sem var ljósmóðir á Eyrarbakka um aldamótin 1900. Þetta er söguleg skáldsaga því Eyrún styðst við þær heimilidir sem til eru um Þórdísi. Mér finnst alltaf gaman að lesa sögur frá þessum tíma og ekki spillir þegar þær eru sannsögulegar. Mjög gaman að lesa þessa.
- Lesa aftur? Já
- Mæla með? Já
- Kona tímaflakkarans e. Audrey Niffenegger. Óneitanlega sérstök bók, ástarsaga þar sem Clare er ósköp venjuleg kona en Henry er tímaflakkari. Stundum erfitt að fylgjast með þessu tímaflakki og um tíma var ég orðin mjög þreytt á því og fannst þetta bara rugl. Samt góð bók sem fær mann til að hugsa.
- Lesa aftur? Nei
- Mæla með? Já
- And the Mountains Echoed e. Khaled Hosseini. Sumar bækur eru mannbætandi. Það er bara þannig. Þetta er þriðja bók Hosseini og fyrir lestur þessarar bókar kepptust hinar tvær um titilinn "besta bókin". Eftir þennan lestur hallast ég að því að fyrri bækur Hosseinis verði að keppast um silfur og brons, því þessi er algert gull. Sælgæti. Dásamleg unun sem ég mun aldrei gleyma. Meginþema bókarinnar hlýtur að vera tengsl. Tengsl systkina, fjölskyldna, vina og hvernig líf okkar allra getur bergmálað í lífum annarra. Ég hef aldrei lesið svona vel uppbyggða bók, hver kafli segir sögu einnar persónu og stundum er maður kominn vel áleiðis inn í kaflann þegar í ljós kemur hvernig aðalpersóna eða atburðir kaflans tengjast sögunni. Fléttan er svo vandlega ofin að ég gat varla slitið mig frá sögunni, en gerði það samt til að treina mér bókina! Besta bók sem ég hef komist í kynni við.
- Lesa aftur? Já
- Mæla með? Já
- Ósjálfrátt e. Auði Jónsdóttur: Rithöfundurinn Auður skrifar um það hvernig rithöfundurinn Eyja verður til. Skuggalegt hversu mikið er sameiginlegt með Eyju og Auði sjálfri og ótrúlega margt í bókinni sem gerði mér bilt við. Ég kannast við nokkrar persónur sem eru til í alvörunni og Auður lýsir nákvæmlega, stundum með smávegis útúrdúrum, og atburði sem gerðust í alvörunni. Lítið þorp á Vestfjörðum þar sem snjóflóð fellur og verður 20 manns að bana. Kvótinn seldur burt 15 árum síðar. Valdi Popp sem gaular á gítarinn og semur ástaróða til fjallanna (Er það hafið eða fjöllin, sem að laða mig hér að?). Bjargvætturinn, pólitíkus og hluthafi í fiskvinnslunni, samanrekinn og snaggaralegur karl með rússahúfu sem reisti sér heimili á hæðinni fyrir ofan þorpið með útsýni yfir eyrina. Dóttir hans, stelpan með sjófuglsaugun. Meira segja afi Eyju er nóbelsverðlaunaður rithöfundur sem býr í Mosfellsdalnum. Þegar svona mikið af skáldsögu er satt, fer lesandi ósjálfrátt að velta því fyrir sér hvar mörkin liggi á milli sannleikans og skáldskaparins. Sjálfri finnst mér þetta óþægilegt því ég þekki mig í þessari sögu. En sagan er samt góð, tímaflakkið aðeins of mikið af því góða, en þráðurinn heldur sér samt alveg.
- Lesa aftur? Kannski fljótlega þá, til að raða púslum tímaflakksins betur saman. Annars ekki.
- Mæla með? Já
- Elly - ævisaga Ellyjar Vilhjálms e. Margréti Blöndal: Ég er miklu fróðari um þessa mögnuðu konu og fegin því að hafa lesið þessa bók. Mér fannst skína í gegn að bókin er skrifuð af mikilli virðingu höfundar við Elly.
- Lesa aftur? Já
- Mæla með? Já
- Eva Luna e. Isabel Allende: Þessa er ég margbúin að lesa áður, en les hana reglulega aftur. Dásamleg saga, auðvitað.
- Lesa aftur: Já, margoft
- Mæla með: Já
- Kuldi e. Yrsu Sigurðardóttur: Óðinn skrifar skýrslu um barnaheimilið Krók, en er samtímis að koma sér fyrir í nýju lífi með dóttur sinni eftir að barnsmóðir hans fellur út um glugga og lætur lífið. Mjög draugaleg og spúkí saga, ég varð reglulega hrædd við lesturinn og fegin því að hafa Tóta við hlið mér.
- Lesa aftur: Já, þegar plottið verður gleymt
- Mæla með: Já
- Lífsreglurnar fjórar e. Don Miguel Ruiz: Yndisleg lítil bók og innihaldið miklu stærra en útlit bókarinnar gefur til kynna. Er búin að punkta þessar reglur hjá mér og mun hér eftir hafa þær að leiðarljósi. Þýðingin hennar Birgittu reyndar dálítið óvenjuleg, allar setningar svo snubbóttar og skrýtnar, eiginlega eins og maður sé að lesa með indjána-hreim. Kannski á þetta bara að vera svoleiðis.Væri samt til í að lesa hana á frummálinu til að sjá muninn.
- Lesa aftur? Já, væri til í að eiga hana líka :)
- Mæla með? Já, fyrir alla þá sem hafa áhuga á að bæta líf sitt, mitt er allavega á hraðri uppleið eftir lesturinn!
- Valeyrarvalsinn e. Guðmund Andra Thorsson : Algert sælgæti og lestrarunaður, langar að eiga þessa bók. Fullt af stuttum sögum sem gerast allar á sama augnablikinu í litlu þorpi út á landi. Ótrúlega skemmtileg hugmynd að sjónarhorni og vel útpælt. Verð að lesa þessa aftur fljótlega.
- Lesa aftur? Já, sem allra fyrst
- Mæla með? Já algjörlega
- Rof e. Ragnar Jónasson: Frábær bók, enda gaf í Tóta hana í jólagjöf :) Byrjar vel og heldur sér vel alveg út í gegn, en aðeins of margir karakterar kynntir til sögunnar í upphafi, maður þarf stundum að fletta til baka til að muna (ég þooooli ekki svoleiðis :/). Endirinn var óvæntur og plottið útpælt. Mæli með þessari.
- Lesa aftur? Já, já, um leið og plottið er gleymt
- Mæla með? Já algjörlega
- Hálendið e. Steinar Braga. Ómæ, hvað mér leið illa á meðan á lestri þessarar bókar stóð. Hárin risu og ég fann fyrir ógleði og pirringi allan tímann. Og þar sem ég les alltaf áður en ég fer að sofa þá var ég hálfreið út í þessa bók alveg frá fyrstu blaðsíðu, ég fann enga hugarró á meðan ég las. Ekki heldur Tóti, því ég var stöðugt kvartandi yfir bókinni við hann þar sem hann lá við hlið mér með sína notalegu ljósmyndabók sem gæti ekki einu sinni hreyft við biðukollu. Söguþráðurinn var frekar ótrúverðugur og það sem gerist í bókinni einhvern veginn of vont til að vera læst. Díses kræst. Þetta er alls ekki illa skrifuð bók, en bara of óþægileg fyrir mig. Ég var mjög fegin þegar ég lokaði henni þessari.
- Lesa aftur? Öööönei
- Mæla með? Nei
- Heimanfylgja e. Steinunni Jóhannesdóttur. Steinunn segir þessa bók byggða á rannsóknum á lífi og skáldskap Hallgríms. Ekki veit ég hvaða heimildir eru til um upplifun Hallgríms af eigin fæðingu eða fyrsta holdrisinu hans... samt getur hún skrifað um það. Fyrir mér var þetta góð lýsing á tíðarandanum og aðbúnaði fólks á þessum tíma, en ég fann ekki tengingu við Hallgrím og fannst þetta ekki vera hann sem hún skrifar um.
- Lesa aftur? Nei
- Mæla með? Nei
- Málverkið e. Ólaf Jóhann Ólafsson. Gerist í seinni heimsstyrjöld á Ítalíu, íslensk kona, málverk sem hún falsaði og Þjóðverjar komust yfir, ensk kona með nagandi samviskubit sem bíður heimkomu manns síns og skýtur skjólshúsi yfir flóttamenn og íslensku konuna...og reyndar málverkið líka, en hún veit samt ekki af því. Fínasta bók, ég kann vel við það sem ég hef lesið eftir Ólaf Jóhann, hann getur komið Íslendingum fyrir á óvenjulegum stöðum og skrifað sögu þeirra eins og ekkert sé eðlilegra.
- Lesa aftur? Já
- Mæla með? Já
Engin ummæli:
Skrifa ummæli