laugardagur, 29. desember 2007

Shark Tale

Ég hef örugglega verið svona 12 ára þegar ég smakkaði hákarl í fyrsta og næstsíðasta sinn. Á þorrablóti í Holti lét ég vaða á kasúldinn kafloðinn bita og hélt það væri nú varla mikið mál. Sem Vestfirðingur ætti ég nú að geta komið þessu ofan í mig eins og allir hinir.

Það fór nú ekki svo. Aðallega man ég eftir ógeðfelldu bragðinu sem sveið í nef, kok og háls og ætlaði aldrei að fara, svo og undarlegu stinnu áferðinni sem ég get ekki líkt við neitt annað. Svo man ég líka eftir því að það var óvenju löng leiðin á klósettið, sem kom svo í ljós að var upptekið. Úff, hvað ég kúgaðist meðan ég beið eftir því að það losnaði.

Alla vega, þetta var fyrir ótal mörgum árum síðan. Nú á ég son sem myndi éta hákarl í hvert mál væri það í boði. Og mann sem myndi sitja til borðs með drengnum og éta hákarl með hníf og gaffli kæmi sú staða upp. Þeir tveir eiga það til að lauma sér í frystikistuna og sneiða sér vænt stykki sem þeir bera inn í hús og smjatta á fyrir framan okkur mæðgur á meðan við tvær höldum fyrir nefið og hryllum okkur í bak og fyrir.

Nú í kvöld gat ég ekki meir og bað um að fá að smakka herlegheitin. Ef maður vill að börnin sín smakki það sem á borð er borið fyrir þau, er þá ekki lágmark að sýna smá lit sjálfur í þeim efnum?

Það er skemmst frá því að segja að ekkert hafði breyst frá því síðast. Áferðin, sviðinn og bragðið var allt við það sama. Lyktin eins og af innviðum karlaklósetts. Ég stend við fyrri orð mín, þetta er ekki mannamatur. M.a.s. hundurinn vill ekki sjá þetta.


Ég hef samt ekki miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á mataruppeldið á heimilinu. Ég smakkaði þetta þó. Það er þó meira en feðgarnir hafa gert þegar ég ber sveppi á borð fyrir þá.

Eins og sveppir eru nú ótrúlega góðir!!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gerirðu mikið af því að þefa af innviðum karlaklósetta???

Ég bara varð ;-)

Nafnlaus sagði...

Ég er sko alveg sammála þér í þessu Bogga Hákarl Vondur, sveppir góðir
kv. Jón Gunnar

Nafnlaus sagði...

Ég er líka sammála þér. En mér þykir þú ansi frökk að hafa látið vaða í að smakka þetta óæti aftur! Mér fannst nóg að smakka þetta einu sinni.

Hafið það gott um áramótin :o)

Knús..