mánudagur, 24. desember 2007

Aðfangadagur

Þá er þetta allt saman að bresta á.

Tréð stendur uppstrílað á stofugólfinu umvafið pakkaflóði, villibráðin er að marinerast inni í ískáp og maltið og appelsínið bíður síns tíma í búrinu. Börnin festa ekki hugann við neitt, rása um húsið og vita ekkert hvað þau eiga af sér að gera. Úti er hundslappadrífa eins og hún gerist best og trjágreinarnar í
garðinum svigna undan hvítum þungum snjó. Ekkert annað virkar eins vel
á jólaskapið :)


Mamman þurfti reyndar að setja í fjórhjóladrifið í morgun og redda jólagjöf á síðustu stundu. Þegar verið var að klára að pakka inn síðustu gjöfunum í gærkvöldi, kom nefnilega í ljós að það sem við höfðum keypt handa Sólinni var ónothæft!

Við höfðum keypt svona í Toys´R´us og ég var ekkert að lesa mikið á kassann, fannst þetta bara sniðugt svona teikniborð til að tengja við sjónvarpið og var handviss um að Sólin yrði alsæl með það. Svo þegar ég var að pakka þessu inn í gær og er að skoða kassann og dást að því hvað ég væri sniðug að finna svona sjónvarpsteikniborð fyrir Sólina mína þá rek ég augun í leiðbeiningar utan á kassanum. Í ljós kom að þetta teikniborð er viðbót við einhverja leikjatölvu sem heitir V tech og ég hef aldrei á ævinni heyrt um. Ég man ekki einu sinni eftir því að hafa séð þessa leikjatölvu í Toys´r´us og ég ætla sko að leita að henni þegar ég fer og skila þessum "tölvuleik" eftir jól.

Ég er auðvitað fegin því að hafa rekið augun í þetta í gær, og sloppið við að svekkja Sólin á þessu. Mér finnst samt glatað að þurfa að finna eitthvað handa henni á síðustu stundu og nú fær hún einhverja gjöf sem keypt var í flýti án mikillar umhugsunar. Fúlt.

Þrátt fyrir svona síðbúið jólastress, þá lítur dagurinn og kvöldið bara vel út hjá okkur.
Á matseðlinum er kvöld er svo innbakaður Camenbert í forrétt, marineruð önd og heiðagæs á steikarsteini í aðalrétt og svo blaut súkkulaðikaka með ís og rjóma í eftirrétt síðar í kvöld. Get varla beðið!

Ykkur öllum óska ég gleðilegra jóla með von um að þið fáið gott að borða og njótið ljóss og friðar með fjölskyldunni í kvöld!!

Jólakveðjur,
BoggaBlogged with Flock

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól og hlökkum til að hitta ykkur hress og kát á næsta ári.
Ykkar vinir
Rakel og Steinar

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól elskurnar...
mmmm...matseðillinn hljómar vel!
Hér er kalkúnninn kominn inn í ofninn og allt "ameríska" meðlætið tilbúið. Við hlökkum öll til amerískra jóla hér í DK :)

Vorum einmitt að hugsa um að kaupa svona V-tech tölvu handa Önnu Magný í jólagjöf en ákváðum að bíða með það í eitt ár! Hér er þetta allavega feykivinsælt!

Hafiði það yndislegt í kvöld og yfir hátíðarnar...
Kveðja,
Kristín, Hulda, Magga, Elli, Anna Magný og Hulda Þórunn
Knúúúús á línuna!!!

Nafnlaus sagði...

Æ, æ frekar súrt með jólagjöfina. En við gáfum Jóhanni Inga svona tölvu, en vissi ekki að það væri til svona teikniborð... humm...

En gleðileg jól... matseðillinn ykkar hljómar mjög vel. Við erum einmitt að fara í eftirréttinn -sherryfromage, ummm...

Knús..

Nafnlaus sagði...

Æ, æ frekar súrt með jólagjöfina. En við gáfum Jóhanni Inga svona tölvu, en vissi ekki að það væri til svona teikniborð... humm...

En gleðileg jól... matseðillinn ykkar hljómar mjög vel. Við erum einmitt að fara í eftirréttinn -sherryfromage, ummm...

Knús..