fimmtudagur, 26. desember 2013

Gleðileg jól!

Aðventan og jólin hafa farið ósköp vel með okkur hér á E9 og ég held að allir séu sáttir með sitt. Prófin kláruðust hjá mér 13. des og þá eiginlega lagðist ég í nokkurra daga hýði, var alveg gjörsamlega búin með batteríin og orkaði varla að gera neitt eftir vinnu, eins og ég var nú stórhuga og hafði ætlað mér að gera allt. Þar sem ekki var mikið af orku til skiptanna ákvað ég að hafa lítið um bakstur og þrif fyrir þessi jólin, en meira um góðar samverustundir og rólegheit. Þetta er spurning um að forgangsraða rétt :)

Okkar fyrsta verk eftir próflok var að baka piparkökuhús, í ár urðu þau þrjú og við röðuðum þeim upp í smávegis þorp ofan á píanóinu.





Svo gerðumst við mæðgur svo frægar að fara á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu. Það var alveg stórkostleg upplifun og við vorum alveg ákveðnar að fara aftur síðar, jafnvel strax í febrúar, en þá eiga að vera Disney-tónleikar sem okkur langar mikið á, menningarssvamparnir sem við erum!

Ég má nú líka til með að minnast á yndislega stund sem ég átti með systrum mínum rétt fyrir jól en við hittumst í miðbænum og röltum niður Laugaveginn. Veðrið var yndislegt, frost og stillt og stemningin alveg frábær, jólasöngvar sungnir, hægt að kaupa ristaðar möndlur af götusala, við skoðuðum í búðir og fengum okkur svo að borða á Primo, uppáhaldsveitingastaðnum mínum. Set hér inn eina góða af systrunum, það er nú ekki amalegt að eiga þessar dásamlegu konur að, heppin ég!



Undirbúningur jólanna fór svo fram með hefðbundnu sniði nema hvað við drógum úr jólakortaritun. Yfirleitt höfum við sent milli 30 og 40 kort á ári en þeim kortum fækkar stöðugt sem við fáum til baka og í fyrra komu heil 7... Þannig að í ár ákvað ég að jólakortaskrif væru ekki ofarlega á verkefnalistanum og sendi bara örfá, aðallega til þeirra sem hafa alltaf sent okkur og bara þau sem við gátum sjálf borið út (ég var ekki nógu tímanlega með útlendu kortin og svo er ég hvort eð er í smá fýlu út í Póstinn...). Viti menn, við fengum alveg heilan slatta af kortum, nema hvað! Ætli við tökum okkur ekki á í kortaskrifum á næsta ári, okkur finnst þetta ótrúlega góður og skemmtilegur siður sem við viljum alls ekki leggja af. Hér eru jólakort aldrei opnuð fyrr en seint á aðfangadagskvöld, þegar búið er að taka upp allar gjafir og við komin í náttfötin með kaffi og konfekt, þá lesum við jólakort og elskum að fá myndakort og jólasögur. Sorrý þeir sem fengu ekki kort frá okkur í ár, við munum leggja extra mikið í jólakortin 2014 í staðinn, þau verða sögulega skemmtileg og tímanleg og falleg!

Jólatréð var svo sett upp á Þorláksmessukvöld og pökkum raðað undir það samstundis, Aðfangadagur var hefðbundinn, möndlugrautur í hádeginu, hreint lín sett á öll rúm og sængur viðraðar úti. Dagurinn leið svo við matseld og rólegheit, ég gerði sultaðan rauðlauk og svo prófaði ég líka að gera heimagert rauðkál sem tókst með ágætum. Í matinn var hamborgarhryggur með brúnuðum kartöflum og hrísgrjónasalatinuhennarmömmu (hrísgrjón+steikt grænmeti) og í eftirrétt blaut súkkulaðiterta og ananasfrómasinnhennarmömmu. Allt heppnaðist voða vel og heimilsfólk var voða sátt. Nema með ananasfrómasinn og hrísgrjónasalatið, ég var sú eina sem borðaði þá rétti... skil ekki hvað er að þessu liði!

Enn minnkar þetta jólatré!
Á jóladag fórum við svo suður í hangikjötsveislu hjá mömmu og pabba og svo aftur upp á Skaga seinnipartinn í hangikjötsveislu hjá tengdó. Veðrið var hræðilegt, rok og mikil hálka en við létum okkur hafa það því það er ekki hægt að missa af þessum fjölskylduboðum, það er nauðsynlegur hluti jólahaldsins að hitta fjölskylduna og gleðjast saman. Ég heyri allt of marga bölva þessum jólaboðum út í eitt og skil ekki hvað þetta fólk er að meina, það væri nú lítið gaman að hanga einn heima öll jólin á náttfötunum og fara ekki út úr húsi. Það er bara gaman að þeysa milli jólaboða á jóladag, aðra daga er svo rólegra, eins og í dag á annan dag jóla er ekkert boð og við höfum bara verið í rólegheitunum heima á náttaranum að borða konfekt og afganga, alveg yndislegt :)

Engin ummæli: