- Berlínaraspirnar, Kuðungakrabbarnir og Á grænum grundum. Sem sagt þríleikurinn eftir Anne B. Ragde. Ég sá aldrei sjónvarpsþættina, en bækurnar héldu mér alveg. Er nú ákveðin að lesa meira eftir þennan höfund.
- Arsenikturninn og Næturóskin e. Anne B. Ragde. Sú fyrri skárri, hefði átt að sleppa þeirri seinni, tóm steypa!
- Ég fremur en þú e. Jojo Moyes. Besta bók sem ég hef á ævinni lesið, algert hnossgæti og það var með trega að ég skilaði þessari á bókasafnið og stundum sakna ég hennar enn! Ég sé lífið í nýju ljósi eftir þessa.
- Táknmál blómanna e. Vanessu Diffenbaugh. Yndisleg, skilur mikið eftir.
- Kantata e. Kristínu Marju Baldursdóttur. Frekar ruglingsleg framan af, því fjölskyldutengslin eru flókin og ég þurfti oft að fletta til baka og rifja upp hver var föðurbróðir hvers og hver elskaði hvern. En ofsalega góður texti, sumar setningarnar las ég aftur og aftur eins og ljóð.
- Bókaþjófurinn e. Markus Zusak. Sagan gerist í Þýskalandi nasismans þar sem dauðinn er sífellt nálægur. Enda er það dauðinn sjálfur sem er sögumaður og segir frá. Sjónarhornið er því frekar óvenjulegt en gengur mjög vel upp. Góð saga og vel skrifuð.
- Sáttmálinn e. Jodi Picoult. Fínasta bók, góð saga og vel skrifuð. Átti samt von á meiru miðað við þá umfjöllun sem ég hafði séð.
- Náðarstund e. Hannah Kent. Þessi bók er dásamleg, mæli heils hugar með henni. Hannah var skiptinemi á Sauðárkróki, kynntist þar sögunni um síðustu aftökuna á Íslandi og skrifaði svo þessi bók um þá sögu. Agnes, Natan og Friðrik birtast þar ljóslifandi og sjónarhornið er sniðugt, Agnes segir sögu sína prestinum sem fær það hlutverk að veita henni sáluhjálp meðan hún bíður aftökunnar.
- Árið sem tvær sekúndur bættust við tímann e. Rachel Joyce. Eins mikið og þessi bók hefur verið lofuð, varð ég fyrir vonbrigðum með hana. Bókin segir tvær sögur, aðra af uppvexti Byron og James og hina af geðsjúklingnum Jim í nútímanum. Sögurnar tengjast svo í lokin, en maður var nú búinn að sjá það fyrir.
- Veronika ákveður að deyja e. Paulo Coelho. Veronika tekur of stóran skammt af svefntöflum, vaknar á sjúkrahúsi nokkru síðar þar sem henni er sagt að hún sé dauðvona. Yndisleg saga um það að njóta hvers einasta augnabliks til hins ítrasta.
Bækur á náttborðinu sem eru í vinnslu eða bækur sem ég gríp í þegar ég hef ekkert annað eða langar ekki að byrja á nýrri:
- Orðbragð e. Braga Valdimar Skúlason og Brynju Þorgeirsdóttur
- On Writing e. Stephen King: Snilldar bók, glugga í hana öðru hverju og læt mig dreyma...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli