Þessar bækur las ég á árinu 2014:
- Óreiða á striga e. Kristínu Marju Baldursdóttur: Sjálfstætt framhald bókarinnar "Karitas án titils". Saga Karitasar Jónsdóttur verður æ magnaðri og hún verður fræg listakona, býr í París og New York og ferðast um allt. Sigmar birtist reglulega og börnunum þeirra er líka fylgt eftir. Stórfín bók, aðeins ýktari en sú fyrri og hún hélt mér ekki alveg eins vel, en vel lestursins virði.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
- Stúlka með fingur e. Þórunni Valdimarsdóttur: Áhrifamikil saga Unnar Jónsdóttur sem um aldamótin 1900 er send frá heimili sínu í Reykjavík í vist á sýslumannsheimili.
- Lesa aftur: Nei
- Mæla með: Já
- Karitas án titils e. Kristínu Marju Baldursdóttir: Þessa er ég að lesa í annað sinn, af þeirri ástæðu að ég á miða í Þjóðleikhúsið þar sem búið er að setja upp sýningu um hana Karitas. Bókin jafngóð í annað sinn, jafnvel betri, algjört gull.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
- Rigning í nóvember e. Auði Övu Ólafsdóttur: Kona nýskilin við mann sinn vinnur happdrættisvinning og ákveður að stokka upp líf sitt, kasólétt vinkona hennar dettur í hálku og er ófær um að annast heyrnarlausan son sinn. Sá heyrnarlausi fær því að fljóta með í bílferð út á land. Samskipti eru flókin (við fyrrverandi manninn, viðhaldið) og nú bætist við drengur sem talar annað tungumál og ekki verða samskiptin einfaldari við það. Flottur textavefur sem hreif mig.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
- Undantekningin e. Auði Övu Ólafsdóttur.
- Illska e. Eirík Örn Norðdahl.
- Auðnin e. Yrsu Sigurðardóttur: Þessi gerist á Grænlandi þar sem starfsfólk námufyrirtækis hefur horfið sporlaust. Fín Yrsubók, alltaf hægt að stóla á Yrsu.
- Lesa aftur: Nei
- Mæla með: Já
- Upphækkuð jörð e. Auði Övu Ólafsdóttur: Mig langar að lesa ennþá meira eftir Auði Övu, textinn hennar er algert sælgæti. Bókin er stutt og rambar á barmi þess að vera raunsæ því yfir henni er ævintýrablær sem heillar. Auður Ava er snillingur að skrifa um óvenulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum án þess að sagan verði óraunveruleg. Bókin fjallar um Ágústínu sem getin var í rabbabaragarði, býr á eyju á norðurslóðum, gengur við hækjur en bíður færis að komast upp á Fjallið eina. Stór saga í litlum pakka.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
- Dísusaga e. Vigdísi Grímsdóttur: Ég er búin að vera í allt sumar að lesa þessa bók og aðrar bækur hafa fengið að fljóta inn á milli því þessi hélt mér ekki allan tímann. Efnið er alger snilld, og sjónarhornið er óvenjulegt og skemmtilegt, hver kannast ekki við innri rökræður og að hafa spilað fram ólíkum karakterum sem hæfa aðstæðum til að geta haldið andliti. Frásagnarstíllinn er samt ekki mér að skapi, ég er of óþolinmóð fyrir endalaust fjas um daginn og veginn og ég hugsaði með mér alla bókina: "nú hlýtur hún að fara að koma sér að kjarna málsins". En þar sem langdregin bið varð á því, leyfði ég mér að leggja þessa til hliðar öðru hverju og lesa annað. Leyfi þessari bók þó að njóta þess að vera óvenjuleg og án efa nauðsynleg höfundinum að fá að skrifast.
- Lesa aftur: Nei
- Mæla með: Nei
- Afleggjarinn e. Auði Övu Ólafsdóttur: Mikið er ég heppin að fá að lesa þrjár frábærar bækur í röð! Þetta er frábærlega vel skrifuð og góð bók. Ungur rótlaus maður ferðast til suður-Evrópu með afleggjara af einstöku rósaafbrigði sem hann gróðursetur í frægan rósagarð. Til hans kemur svo barnsmóðir hans með son þeirra, annan afleggjara sem dafnar vel þarna suðurfrá. Yndisleg saga sem ég átti erfitt með að leggja frá mér, en reyndi þó að draga á langinn að klára og langaði í meira þegar bókinni lauk.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
- Hvítfeld e. Kristínu Eiríksdóttur: Vá! Ofsalega vel útpæld bók sem heldur manni algerlega allan tímann og ekki hægt að leggja frá sér. Fléttan er mögnuð og ekkert sem sýnist, svakaleg fjölskyldusaga þar sem allir eiga sér leyndarmál og vefa lygavef sér til verndar. Þegar líður á söguna er hverju laginu af öðru listilega flett af lygavefnum.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
- Ljósa e. Kristínu Steinsdóttur: Þessi er algert yndi, efnið óvenjulegt; frásögn 19. aldar konu sem á framtíðina fyrir sér, en glímir við geðveiki. Dásamlega vel skrifuð, passlega slitrótt þegar Ljósa fær köst og eiginmaður hennar lokar hana inni í kró eins og húsdýr. Svo liðast textinn mjúklega áfram milli kasta þegar Ljósa fyllist von um hamingjusama framtíð.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
- Fölsk nóta e. Ragnar Jónasson: Í fyrra las ég fjórðu bókina hans Ragnars, Rof og var afar ánægð með hana. Fölsk nóta er fyrsta bókin hans og það er greinilegt að Ragnari hefur farið fram með tímanum. Þetta er ekki slæm bók, en svona... einföld. Hún fjallar um Ara Þór sem fær sendan himinháan erlendan greiðslukortareikning á nafni föður hans og alnafna, sem ekkert hafði heyrst frá í 10 ár og fjallar sagan um leit Ara að svörum á hvarfi föður síns. Söguþræðinum er fleytt áfram í samtölum, og það tekst misvel, stundum er Ari Þór nánast að yfirheyra aðila málsins, spyr og fær svar, spyr og fær annað svar. Samt finnst manni hann ekki spyrja réttra spurninga og stundum varð ég pirruð á því. Fléttan var samt sniðug og ég sé ekki eftir að hafa lesið þessa bók.
- Lesa aftur: Nei
- Mæla með: Nei
- Ég man þig e. Yrsu Sigurðardóttur: Sagan gerist að megninu til á Hesteyri í Ísafjarðardjúpi þar sem þrír vinir ætla að dvelja um vikutíma og gera upp hús sem þau hafa fest kaup á. Þessa bók skal aðeins lesa í björtu og alls ekki í einrúmi! Draugaleg og óskaplega sorgleg, stundum gat ég bara ekki lesið meir og þurfti að leggja bókina frá mér og jafna mig.. Sem sagt áhrifamikil og vel skrifuð bók.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
- Dóttir beinagræðarans e. Amy Tan: Ofsalega góð saga og vel skrifuð, ótrúlegt hvað hægt er að lifa sig vel inn í veröld sem er svo langt frá manns eigin, en maður skilur svo miklu betur að lestri loknum.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
- Skuggasund e. Arnald Indriðason: Ágætur Arnaldur, en frekar fyrirsjáanleg og ekki mín uppáhalds (af því það er bara ein Bettý). Til aðgreiningar frá hinum þá gerist þessi að megninu til á stríðsárunum og ástandið kemur við sögu.
- Lesa aftur: Nei
- Mæla með: Nei
- Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf e. Jonas Jonasson: Virkilega yndisleg bók, óstjórnlega fyndin og ég hló oft upphátt við lesturinn. Svo fór ég á myndina í bíó og fannst hún líka dásamleg þótt hún nái bókinni ekki alveg því sagan er miklu stærri en myndin sýnir. Algjör perla og ég get ekki beðið eftir að lesa næstu bók höfundarins.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
- Lygi e. Yrsu Sigurðardóttir: Virkilega flott plott, ég vissi strax í byrjun hver hinn seki var, áttaði mig samt ekki á plottinu fyrr en um miðja bók og í lokin kom í ljós að minn gaur var jú sekur, en ég vissi samt ekki að það væri ÞESSI gaur! Frábærlega vel skrifuð, vel skipulögð og vel unnin bók.
- Lesa aftur: Já
- Mæla með: Já
Bækur á náttborðinu sem eru í vinnslu eða bækur sem ég gríp í þegar ég hef ekkert annað eða langar ekki að byrja á nýrri:
- Skyndibitar fyrir sálina
- On Writing e. Stephen King: Snilldar bók, glugga í hana öðru hverju og læt mig dreyma...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli