þriðjudagur, 24. júní 2014

Næring dagsins

Ég hef í gegnum naflaskoðun síðustu missera gert margar löngu þarfar uppgötvanir. Ein er sú að ég er margskipt og persónuleiki minn á sér margar hliðar sem öllum þarf að sinna. Ég er til dæmis náttúrubarn og þarf að komast í tæri við náttúruna og næra þann hluta reglulega, annars líður mér afar illa. Helst þarf að vökva náttúrubarnið í köldum hyljum og fossum, það endist langbest! Svo er ég líka skipulagsfrík með fullkomnunaráráttu og fríkið þarf sína næringu. Einnig er ég skúffuskáld og laumurithöfundur og þarf því reglulega að setjast niður við skriftir, annars verð ég skapstygg og vansæl (halló Boggublogg!). Svo er ég líka að springa úr tónlist og þarf bæði að skapa og njóta hennar reglulega. Ef ég finn fyrir óróleika, þá er pottþétt að ég hef ekki sinnt öllum hliðum persónuleikans míns og um leið og ég leysi úr því þá færist yfir mig friður og ró. Í alvöru þetta er svona einfalt!

Eftir alla útivistina sem ég hef notið í mánuðinum er náttúrubarnið í mér hæstánægt. Bloggmarkmið mánaðarins var til þess gert að næra skrifandann í mér og hann er sáttur núna. En tónlistin hefur setið á hakanum undanfarið, kórinn í sumarfríi og þannig. Það var því kærkomið að hitta Stúkurnar mínar í kvöld eftir hálfs árs æfingahlé. Hléið var ekkert planað, við erum bara venjulegar önnum kafnar konur í skóla og vinnu og víkingum sem fundu loksins tíma til að hittast. Á þessari kvöldstund tókst okkur að útsetja nýtt lag og til að muna raddirnar okkar næst þegar við hittumst (sem verður fljótlega!), þá tókum við lagið upp eins og sjá má:


Og þá er komið að erfiðasta hlutanum: skipulagsfríkinu! Mér finnst alltaf erfiðast að halda fríkinu sáttu, því fríkið passar svo afskaplega illa við hina hlutana. Hvernig getur maður verið skapandi, en samt með allt skipulagt og fullkomið? Innra með mér er því eilíf togstreita. Þetta er svona eins og að eiga fjögur börn sem ekki kemur sérlega vel saman og ef eitt systkinið fær meira en annað, þá verður allt vitlaust á heimilinu. Oft hef ég reynt að vefa skipulagið inn í annað sem ég geri. Þegar ég skrifa, geri ég það yfirleitt mjög skipulega og er búin að skipuleggja skrifin vel fram í tímann (halló Boggublogg!). En stundum dugir það ekki til, og núna þegar sumarfríið mitt er hálfnað og allt laust í reipunum þá öskrar fríkið.

Það er því gott að geta sagt að ég er heldur betur með verkefni á prjónunum fyrir fríkið! Jafnvel að framundan sé annað átak hjá lotufíklinum sérsniðið fyrir skipulagsfríkið. Meira um það síðar :)

Engin ummæli: