Við vöknuðum í rigningu á Hvammstanga í morgun og lásum fréttir dagsins um yfirvofandi lægðagang vikunnar með tilheyrandi úrkomu, roki og vatnavöxtum og ákváðum að pakka saman og fara heim. Einn dagur í rigningu er fínn, tveir sleppa alveg. En útilega í viku rigningu, ómögulega takk! Ég hljóp um tjaldsvæðið á Hvammstanga um hádegisbil í dag þegar fyrir lá að ferðaveður yrði afleitt í vikunni, og leitaði að túristum sem ég ætlaði að bjarga með því að segja þeim fréttirnar. Fann bara enga túrista, þeir vakna klukkan fimm á morgnana og koma sér af stað og ég næ sjaldan að sjá þá þar sem ég sef á mínu græna til svona níu. Eða ellefu! Ég vona bara að einhver vilji vera svo vænn að koma því til skila til túristanna sem ekki lesa veðurfréttir að hæla vel niður tjöldin og setja aukastög á tjaldhimininn, því þetta verður víst rosalegt.
Annars eyddum við helginni í góðra vina hópi í Hveragerði. Þetta var mjög vel heppnuð ferð, 12 vinir með 12 börn í 6 fellihýsum og stuðið eftir því. Sá helmingur hópsins sem er í sumarfríi hélt svo áfram til Hvammstanga í gær og var ætlunin að túra um Norðurlandið í vikutíma eða svo, en öll erum við þó komin heim núna út af þessu með veðurspána. Svona er þetta stundum og þrátt fyrir að ég hefði viljað halda áfram er ég aldeilis þakklát fyrir yndislegt sumarfrí, við höfum verið 23 nætur í fellihýsinu það sem af er sumri og júní bara rétt búinn.
Það eru einungis tvær vikur eftir af sumarfríinu og mér finnst ég verði að nýta þær til hins ýtrasta svo ég vona að við komumst af stað aftur sem fyrst. Ég hef grun um að það verði fljótlega, enda er ekkert að veðri núna eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Útsýnið frá skrifstofuglugganum núna kl. 23:00. Bjart og fallegt veður. Eitthvað skuggaleg skýin þarna í fjarska samt... |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli