mánudagur, 2. júní 2014

Hreystidaður

Á þessum árstíma, þegar allt er eitthvað svo bjart og fallegt og sumarfríið nýhafið (það hófst í morgun og ég tek við hamingjuóskum í kommentakerfinu), á ég það til að fara að hugsa um heilsuna og það sem ég læt ofan í mig. Annars nenni ég því helst ekki, er allt of góð við mig til þess...

Eins og venjulega þegar þetta daður við hreysti hellist yfir mig, þá er eitthvað ákveðið hráefni í tísku. Fyrir ári síðan var það boost úr hinu og þessu og í fyrravor þegar sumarfríið hófst þá þeytti ég saman alls konar ber og grænmeti, lífræna jógúrt, engifer, safa og fræ í gríð og erg og drakk með röri, voða ánægð með mig. Í ár eru það chia-fræin og það er allt annar handleggur. Og já, við erum að tala um sömu Chia-fræin og notuð voru í Chia-gæludýrunum á 9. áratugnum:


Þessi chia-fræ eru alveg merkilegt fyrirbæri, smákorn sem ég er á báðum áttum með hvort eigi að fara ofan í mig eða út í beð. Þau eru lögð í bleyti og þá nífaldast þau að ummáli, eða svoleiðis... þau svona meira draga til sín vökvann og mynda utan um sig slímhjúp sem er nífaldur á við hvert fræ. Það er rétt svo hægt að ímynda sér hversu mjúklega þetta rennur niður... En þetta er víst ofurfæði, og ég ætla að láta mig hafa þetta svona úr því ég er búin að fjárfesta í rándýrum pokanum!

Fyrst prófaði ég að gera hafragraut og bæta þessum fræum útí. Mikið ofsalega var það jafnvont og pappi! Svo ég skar niður kiwi og setti útí og ekki batnaði það, svo þetta endaði í ruslinu hjá mér.
Mæli ekkert sérstaklega með súru kiwi út í 
vondan graut, hann batnar ekkert við það...
Næst þegar gera átti áhlaup á chia-fræin setti ég þau í krukku, hellti köldu vatni yfir þau og lét þau bíða. Ég verð að segja að þetta er ansi ógeðfelld neysluaðferð, maukið verður bragðlaust og áferðarslæmt, svo ég bætti hunangi útí og þetta varð aðeins skárra. Ég get þó ómögulega komið ofan í mig nema nokkrum skeiðum í senn áður en ég fer að kúgast, en það ætti þó að sleppa því mér skilst að geyma megi svona graut í viku í ískáp!
Uppþembd Chia-fræ. Verð svona þrjá daga að klára
þetta ef ég fæ mér fjórum sinnum á dag.
Nú þarf ég að fara að hugsa út fyrir rammann, hef heyrt að nota megi fræin útí jógúrt og skyr og allskonar. Svo get ég líka tekið upp á því að draga fram boost-gerðargræjuna og henda í eina hressandi hræru í þeirri von að ég geti komið þessu niður: kókosjógúrt, spínat, banani, engifer, frosin ber, appelsínusafi og síðast en ekki síst: Chia-fræ. Á bara ekkert af þessum hráefnum til nema Chia-fræ, svo þetta verður bara að bíða til seinni tíma.

En kaffi á ég til. Já, ég fæ mér bara kaffi og skoða uppskriftir. Hvernig ætli Chia-fræin séu útí kaffi?

3 ummæli:

HelgaB sagði...

Ég smakkaði chia fræ í fyrsta skipti um daginn og það út í hafragraut ásamt hörfræum. Aldrei smakkað betri hafragraut! Þetta voru einhver lífræn fræ sem fóru bara beint í grautinn og mölluðu með, ekkert látin liggja í bleyti neitt. Þarf bara að passa að hafa hlutfallslega meira vatn en venjulega þar sem þessi fræ drekka vatnið svo í sig. Namm.

HelgaB sagði...

Já og til hamingju með að vera komin í sumarfrí :) Hlakka til að hitta þig í sól og sumaryl!

Björg sagði...

Takk, og já hittumst senn í sólinni :)
Ég þarf greinilega að prófa aftur að gera hafragraut úr því hann fær þín meðmæli, í gær fékk ég mér chia fræ út í ab-mjólk og það var bara fínt.