Eins og venjulega þegar þetta daður við hreysti hellist yfir mig, þá er eitthvað ákveðið hráefni í tísku. Fyrir ári síðan var það boost úr hinu og þessu og í fyrravor þegar sumarfríið hófst þá þeytti ég saman alls konar ber og grænmeti, lífræna jógúrt, engifer, safa og fræ í gríð og erg og drakk með röri, voða ánægð með mig. Í ár eru það chia-fræin og það er allt annar handleggur. Og já, við erum að tala um sömu Chia-fræin og notuð voru í Chia-gæludýrunum á 9. áratugnum:
Þessi chia-fræ eru alveg merkilegt fyrirbæri, smákorn sem ég er á báðum áttum með hvort eigi að fara ofan í mig eða út í beð. Þau eru lögð í bleyti og þá nífaldast þau að ummáli, eða svoleiðis... þau svona meira draga til sín vökvann og mynda utan um sig slímhjúp sem er nífaldur á við hvert fræ. Það er rétt svo hægt að ímynda sér hversu mjúklega þetta rennur niður... En þetta er víst ofurfæði, og ég ætla að láta mig hafa þetta svona úr því ég er búin að fjárfesta í rándýrum pokanum!
Fyrst prófaði ég að gera hafragraut og bæta þessum fræum útí. Mikið ofsalega var það jafnvont og pappi! Svo ég skar niður kiwi og setti útí og ekki batnaði það, svo þetta endaði í ruslinu hjá mér.
Mæli ekkert sérstaklega með súru kiwi út í vondan graut, hann batnar ekkert við það... |
Uppþembd Chia-fræ. Verð svona þrjá daga að klára þetta ef ég fæ mér fjórum sinnum á dag. |
En kaffi á ég til. Já, ég fæ mér bara kaffi og skoða uppskriftir. Hvernig ætli Chia-fræin séu útí kaffi?
3 ummæli:
Ég smakkaði chia fræ í fyrsta skipti um daginn og það út í hafragraut ásamt hörfræum. Aldrei smakkað betri hafragraut! Þetta voru einhver lífræn fræ sem fóru bara beint í grautinn og mölluðu með, ekkert látin liggja í bleyti neitt. Þarf bara að passa að hafa hlutfallslega meira vatn en venjulega þar sem þessi fræ drekka vatnið svo í sig. Namm.
Já og til hamingju með að vera komin í sumarfrí :) Hlakka til að hitta þig í sól og sumaryl!
Takk, og já hittumst senn í sólinni :)
Ég þarf greinilega að prófa aftur að gera hafragraut úr því hann fær þín meðmæli, í gær fékk ég mér chia fræ út í ab-mjólk og það var bara fínt.
Skrifa ummæli