miðvikudagur, 25. júní 2014

Næring kvöldsins

Þá er komið að annars konar næringu. En áður en lestur hefst á þessari færslu vil ég biðja þig lesandi góður að smella á þennan hlekk hérna og skoða myndirnar sem fylgja þeirri færslu. Þarna er sem sagt uppskrift að kvöldmatnum okkar á E9 í kvöld. 

Upphaflega átti þessi færsla að fjalla um það hvernig myndir geta oft blekkt neytandann og gefa alls ekki rétta mynd af vörunni. Hver kannast ekki við að standa fyrir framan afgreiðsluborðið í sjoppunni og skoða myndir af matseðlinum á risavöxnu myndaspjaldi fyrir framan sig. Velja sér stóran feitan hamborgara stútfullan af grænmeti, löðrandi í sósu og með svo mikið af osti að hann tollir ekki á sentimeters þykku buffinu og lekur niður á diskinn á afar girnilegan hátt. Omminomminomm, hver vill ekki svoleiðis. Síðan er kallað: "Hundaðogsjö", og fram kemur agnarsmár barnaborgari með tómatsósu og einu kálblaði. Ekki eins og á myndinni sem sagt.

Ég var því efins þegar ég hófst handa við "Ofnbakaðan þorsk með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu" og hugðist með myndatöku sanna hið fornkveðna: að myndir af söluvöru eru alltaf girnilegri en söluvaran sjálf. En ég verð víst bara að éta þetta ofan í mig, fiskurinn var jafn fallegur og á myndunum sem fylgdu uppskriftinni og ekki spillir að hann var líka einstaklega bragðgóður. Mér tókst meira að segja að ná sæmilegum myndum af eldamennsku kvöldsins, bon appétit!

Sætkartöflumúsin mallar í pottinum

Þorskurinn bíður spenntur með
fallegt pistasíusalsa á toppnum

Heimilismatur sem hægt væri að bera
fram á fínasta veitingahúsi

1 ummæli:

Ragnheiður sagði...

Ohhh....ég eldaði þennan rétt á mánudaginn og þvílíkt sem hann er góður! Hreinlega besti og fallegasti fiskréttur sem ég hef eldað/smakkað! :) Flottar myndir hjá þér Bogga.