laugardagur, 14. júní 2014

Boggudalur

Mér mun nú ekki takast að deila þessari færslu fyrr en á morgun þegar við komumst í símasamband. Ef við tímum þá nokkuð að yfirgefa þennan draumadal sem við fundum undir kvöld, gróinn og hlýlegan, fjarri öllum ys og þys með fossi, hyl og öllu sem þarf fyrir sveitta og svanga ferðalanga að vestan. Öllu nema net- og símasambandi það er að segja...
Þetta er þriðji dalurinn sem við höfum keyrt inní í dag í leit að nákvæmlega því sem beið okkar svo hér í allan tímann. Dalurinn heitir ekkert á kortinu okkar en um hann rennur Fauská, í mynni hans heitir fjaran Fauskasandur og hér stóð, samkvæmt kortinu, í fyrndinni bærinn Fauskasel. Dalurinn gæti því allt eins heitið Fauskadalur. Eða Boggudalur, ef enginn andmælir því.
Við tjölduðum um sex-leytið, og fórum strax í göngu upp með ánni þar sem fundum téðan foss og hyl þar sem við hylsjúku meðlimir fjölskyldunnar hentum okkur óðar útí. Rétt náðum að fara úr flestum fötunum fyrst. Við gátum synt að fossinum og sturtað okkur undir honum, dýptin hæfileg, botninn í grýttari kantinum en öll aðstaða annars alveg til fyrirmyndar! Við vorum svo spennt yfir þessu að eftir kvöldmatinn þegar við höfðum náð hita í kroppinn skelltum við okkur aðra ferð í hylinn :)
Það verður gott að sofna í kvöld í kyrrðinni hér í Boggudal, við árnið og fuglasöng með bestu ferðafélagana hrjótandi við hlið mér.


4 ummæli:

Hörður B sagði...

Þetta er einmitt toppurinn á tilverunni, einkatjaldsvæði í eyðibyggð.

Björg sagði...

Við fílum það í botn, þurfum að taka eyðilega útilegu saman í sumar ☺

HelgaB sagði...

Fullkomið! Við viljum líka vera með :)

Ragnheiður sagði...

Yndislegt. Boggudalur er greinilega málið í sumar! :)