miðvikudagur, 4. júní 2014

Listakonan

Þeir sem mig þekkja vita að ég er mikil listakona í húð og hár, frá toppi til táar. Eiginlega má segja sem svo að mér sé allt til lista lagt!

Útlitið skiptir ekki öllu máli, þótt ég reyni nú að hafa þetta skiljanlegt hjá mér. Alveg óþolandi þegar kemur að listum, ef hvorki er hægt að skilja upp né niður í merkingunni. Þá skilar öll vinnan litlum árangri!

Efniviðurinn er af öllum sortum. Ég notast stundum við penna eða liti, en oftast við blýant. Það er eitthvað alveg einstakt við blýant sem eyðist upp þar til hann verður að stubbi, þá veit ég að ég hef verið dugleg. Þessu beiti ég á hvað sem er, bara það sem hendi er næst, blaðsnepla og afrifur þess vegna. Allt í nafni listanna. Já, og ég er að meina karlkynsnafnorðið listi. Ekki kvenkynsnafnorðið list. Nema hvað?

Tilgangur listanna minna er af mismunandi toga, ýmist til að gleyma ekki en ekki síður mér til hvatningar. Hér má til dæmis sjá hvatningarlista síðan í vor þegar ég var á kafi í ritgerðarskrifum, á 200 orða fresti fékk ég nefnilega að standa upp og gera ýmislegt þarft:

Svona eftir á sé ég alveg að þetta er ekkert ofsalega skemmtilegur listi, en á þessum tíma virkaði hann mjög vel. Mig langaði í alvöru frekar að þrífa örbylgjuofninn en að sitja áfram og þræla mér í gegnum heimildaritgerð um stjórntæki hins opinbera. Á meðan á ritgerðarskrifum og próflestri stóð skrifaði ég líka annan lista, þann sem fjallaði um alla þá skemmtilegu hluti sem ég ætlaði að framkvæma þegar önninni lyki:

Þetta er náttúrulega miklu skemmtilegri listi, það sér hver heilvita maður. Ég er reyndar ekki búin að skipta um strengi í fiðlunni, ná upp hlaupaþoli eða kafa ofan í Djúpið (það er efni í bloggfærslu síðari tíma), en gjaldeyrinn keypti ég strax og önninni lauk og núorðið á ég það alveg til að lesa bók og jafnvel horfa á bíómynd um hábjartan dag.

Mér finnst gaman að því að dóttirin hefur tekið þetta upp eftir mér. Hún hefur búið til ótal skemmtilega lista og ég hef mjög gaman að þeim. Geymi þá reyndar, ef ég næ að koma höndum yfir þá án þess að mikið beri á. Þessi hér er nýlegur og ég verð að segja að hér er mjög efnileg listakona á ferð:

Engin ummæli: