Ég gerðist myndarleg í eldhúsinu í dag og bakaði heil ósköp, vínarbrauð og hjónabandssælu. Mig langar að eiga nóg af gúmmelaði í frystinum til að grípa með ef okkur skyldi skyndilega langa í ferðalag í sumar. Sem gæti alveg gerst, ef ég þekki okkur rétt.
Af því ég átti ekki rauðan matarlit urðu vínarbrauðin svona ansi ÍA-leg, sem mér finnst skrýtið því eins og allir vita held ég með Ungmennafélaginu Önundi, en ekki ÍA. Keppti meira að segja fyrir hönd UÖ á nokkrum mótum hér í den og á verðlaunapeninga fyrir kúluvarp og 100 metra hlaup, skal ég segja ykkur. Við kepptum samt aldrei í búningum og held ég að ég fari með rétt mál þegar ég segi að engir sérstakir litir hafi verið ríkjandi í liðinu.
Hvað um það, vínarbrauð í býflugnalit eru komnar í frystinn og bíða næsta langferðalags.
Af öðrum afrekum dagsins má nefna það að vegna gengdarlauss hárloss heimilishundsins, skelltum við Vinur okkur í vettlinga og stígvél og sjampó-þvoðum Neró. Hann var síður en svo spenntur yfir því, enda almennt lítið hrifinn af hvers konar þvotti. Til dæmis vill hann alls ekki láta ryksuga sig, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af okkar hálfu. Sem er dáldið leiðinlegt, því þegar hann er þveginn svona er feldurinn óratíma að þorna svo Neró greyið þurfti að sitja í sólarþurrkun á pallinum allan seinnipartinn, þaðan sem hann mændi ósköp mæddur á okkur inn um stofugluggann.
Hausinn lágt settur, eyrun afturstæð og skottið milli lappanna. Ekki ber á öðru, þetta er hundleiðinlegt... |
2 ummæli:
Þú ættir að prófa feldsköfuna ;-) haha erfitt að segja þetta ekki hlæjandi. En svínvirkaði á köttinn ;-)
Varstu að snoða Tomma? Hehe, sé Neró fyrir mér snoðaðan með hanakamb kannski :)
Skrifa ummæli