miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Barnalán

Það er stundum erfitt að átta sig á tilfinningum.
Maður er kannski viti sínu fjær, en ekki alveg viss hvort það er vegna óstjórnlegrar gleði, tilhlökkunar, kvíða eða hvað.

Ég veit alla vega að ég er viti mínu fjær.

Eins og er, þá held ég að tillhlökkun búi innra með mér því ég tel niður stundirnar þar til ég verð barnlaus á ný (21,5 eins og er). Ómæ ómæ, heil vika bara fyrir mig!!! Jú, jú, Tóti verður reyndar hérna líka því mamma hans vildi ekki hafa hann neitt með og ég skil hana ósköp vel. Neibb, þau sómahjónin tengdaforeldrar mínir ætla einungis að hirða af mér börnin og ferja þau til Danmerkur í viku.

Að hugsa sér, ég get vaknað á morgnana og þarf bara að hugsa um sjálfa mig! Ég get verið fyrst á klóið og þarf ekki að skeina tvo rassa áður en kemur að mér. Engin skapofsaköst morgunfúlra barna og rifrildi um fötin sem á að fara í (hei, ef það er ekki bleikt og ef það er ekki pils þá er það bara glatað!)

Ég get farið hvert sem ég vil eftir vinnu, í ræktina, göngutúr, fjallgöngu eða uppí sófa með bók og kertaljós.

Ef ég þarf að skreppa eitthvað, þá bara fer ég. Ekkert að athuga hvort einhver þurfi á klóið, hvort einhver sé svangur eða þyrstur, koma öllum í föt og troða þeim röflandi í bílinn.

Ég þarf ekkert að vera að elda, borða bara þegar ég er svöng. Og þegar ég er búin að borða get ég farið aftur upp sófa með bókina mína, ekkert fjöldabað, engin kvöldsaga, ekkert að sussa á óþekk kvikindi sem ekki vilja sofa.

Ég veit, hljómar eins og útópía hverrar úrvinda konu.

Eeeen, eins og ég sagði, það er stundum erfitt að átta sig á tilfinningum.

Ég hugsa nefnilega líka til þess að þurfa að sofa í sex nætur án þess að finna ylinn af litlum kroppum sitthvoru megin við mig, án þess að vera vakin með blíðri andfýlu í morgunsárið og mjúku hlýju knúsi í kjölfarið. Ég fæ ekki að fara inn til þeirra á kvöldin og horfa á þau sofa, strjúka þau og kyssa fyrir nóttina. Ég fæ ekki þessa stund sem við eyðum í mömmuholu eftir baðið með knúsi, kitli og innilegum hlátri sem hittir mig beint í hjartastað.

Og þegar ég hugsa um þetta lítur dæmið nú öðruvísi út.

Þau eru ekki enn farin (21,2!) en ég sem samt farin að telja niður dagana þar til þau koma heim.
Blogged with Flock

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá ég fékk nú gæsahúð að lesa þetta.
Hef ákveðið að eiga börn eða barn :-)
Gast ekki lýst þessu hlutverki fyrir mér betur og allt hefur kosti og galla en ég segi "þú hittir mig í hjartastað".
Vona bara að Steinar hafi fyrsta flokks sæði og ég sé með hitt á hreinu heheheh :D

Björg sagði...

vúhú, gaman að færa fólki gæsahúð!
Sjáumst annað kvöld mín kæra.

Nafnlaus sagði...

Góðar lýsingar hjá þér :o)
Ég fékk samt alveg kast yfir andfýlunni, kannast mjög vel við hana :o)

En njóttu þín vel í fríinu :o)
Ég hef aldrei fengið svona langt frí en ég er alltaf í burtu aðfaranótt þriðjudaga og finnst það mjög skrítið, hafði mikið samviskubit fyrstu vikurnar. En það er alltaf gott að koma heim og knúsa gríslingana.
En örugglega ennþá skrítnara að vera heima hjá sér og engin börn!!

Knús..

Unknown sagði...

Bogga mín ég skal taka myndir af þeim sofa, andfýlan er annað, kanski læt ég þau anda í poka og loka, spurning með tollinn. Við eigum eftir að skemmta okkur vel þessa daga. Tanta Döbba á hamingjuvöllum er búin að búa um krílin og útbúa kaldan kvöldverð. Þau verða í húsi eftir ca 1 tíma. Njóttu þess að vera í fríi, Þau verða snar þegar þau koma heim aftur, dekruð og stútfull af óreglulegu líferni :-) er kanski dirty sex weekend?
Döbba frænka í útlöndum

Nafnlaus sagði...

Það sem vantar í þess upptalningu hjá henni Boggu yfir það sem hún getur gert þessa helgi er að hún þarf að sinn mér þ.e.a.s hún þarf að elda þegar ÉG er svangur og hún þarf að sinna mínum líkamlegu þörfum líka.
Hún getur ekki BARA hugsað um sig

Björg sagði...

Tak skal I har þið þarna í Danaveldi, ég á örugglega eftir að njóta þessarar viku.

Mér leist mjög vel á dirty sex weekend Dröfn mín og hafði reyndar skipulagt ýmislegt skemmtilegt fyrir þessa löngu kinky helgi sem framundan er.
Svo las ég commentið hans Tóta... svo mér sýnist hann bara verða að hugsa um sig sjálfur næstu daga.

Tóti minn, það er komið Subway á skagann og það er örugglega ennþá opið á Goldfinger. Þú bara reddar þér kallinn minn

Unknown sagði...

Obobobobob eru eru ekki allir bara kátir?? Jú börnin ykkar dásamlegu komin í hús á Hamingjuvöllum, Sólin búin að sína mér gullskóna með slaufunni og veit í að hún ætlar að vera í kjól á morgun. Amman og afinn bera sig vel. Og núna eru bara allir farnir að sofa nema ég sem þýðir að ég er óþekkust. Frændurnir sofa í stráka veldinu 4 saman ( gott að þeir eru ekki komnir á táfýlualdurinn)
Já og við mæðgur ætlum að vera í meyjarskemmunni.
Takk fyrir að taka til í meikinu þínu.

På gensyn
Döbba frænka í útlöndum

HelgaB sagði...

Þú ert svo rík :)

Nafnlaus sagði...

god byrjun