Jámm, ég er búin að gera fullt í kvöld. Í lærdómi það er að segja. Ég er búin að gera svo mikið að ég er hreinasta hreint bara hætt við að hætta í þessum skóla og hananú.
Í gær var ég alveg á því að hætta bara, hreinlega nennti þessu ekki lengur. Hvers vegna í ósköpunum að pína sig áfram í námi sem tengist vinnunni manns ekki á nokkurn hátt og maður eyðir allt of miklum tíma í? Tíma sem gæti farið í að sinna þessum börnum manns, mála kofaskriflið, þrífa kofaskriflið, skreyta kofaskriflið, létta á byrði þvottakörfunnar, skrifa, lesa (sér til gamans) og njóta lífsins á hvern þann hátt sem manni sýnist? Stórar spurningar... og fátt um svör. Það er samt kominn hugur í mig núna, njáááw stórhugur meira að segja. Ég ætla að massa þetta. Hef aldrei á ævinni fallið á prófi og ekki heldur hætt í neinu sem ég byrja á (tja, nema tónlistarskólanum, en það var nú alls ekki mér að kenna heldur píanókennaraperonistanum) og ætla ekki að byrja á því núna.
Rosalega eru margir búnir að skreyta núna! Ég man bara ekki eftir svona miklum ljósum þetta snemma áður. Þeir sem eru á móti jólaskrauti í nóvember geta nú bara verið heima hjá sér, mér finnst frábært að fá smá ljós í bæinn á þessum árstíma. Auðvitað er fullsnemmt að setja upp einhverja sveinka og jesúbörn, en ljósin maður!!! Ljósin má setja upp í byrjun nóvember og taka niður í lok febrúar mín vegna :) Í mínum huga eru þetta skammdegisljós, sett upp til að lýsa upp lífið fram á vor. Ég meina, hér er myrkur frá október fram í mars, hvers vegna þarf að hnjóða í fólk sem leggur til ljós í líf okkar á þessum tíma?
Ég er nú reyndar ekki búin að setja upp stakt ljós sjálf, en stefni að því um næstu helgi :D
Umph, hvað það var gott í matinn hjá okkur í gær! Marineruð villbráð á steini...slúrp. Kofaskriflið angaði ennþá yndislega þegar ég fór á fætur í morgun, svo svakalega var steikt hér í gærkveldi. Jón og Steinunn komu með hreindýrasteik og Tóti átti gæsabringur og maður minn hvað þetta var gott. Svo kom Ragnheiður óvænt og ánægjulega í mat. Hún kom alveg af fjöllum (Hafnafjalli nánar tiltekið) og ætlaði sér einungis kaffibolla, en fékk steinasteik og rauðvín í staðinn. Hún virtist ekkert sár yfir skiptunum :)
Jæja, það er víst betra að fara að halla sér. Skipulagsdagur í skólanum hjá Björgvini á morgun og það er víst betra að vera vel sofinn fyrir þannig daga. Ég vaknaði reyndar í morgun haldandi það að upp væri runninn skipulagsdagur. Búin að fá frí í vinnunni, kúra aðeins lengur og var því hreinlega enn á náttbuxunum með stírur í augum þegar hringt var úr skólanum hans Björgvins og spurt eftir barninu....hvort hann ætlaði ekkert að mæta í skólann í dag? Ég var mjög fljót í föt og rak liðið út í bíl með harðri hendi. Mamman fór s.s. dagavillt og hinn opinberi skipulagsdagur er barasta á morgun. Hún ætlar samt að vera klár klukkan átta í fyrramálið... bara svona til öryggis :þ
2 ummæli:
Hætta?!?
Ég trúi nú varla að það hafi hvarflað að þér frú mín góð! Þú ert endalaust dugleg í skólanum og vinnunni og öllu saman og þú átt eftir að klára þetta með glans! Öll verkefnin búin og bara eitt lítið og krúttlegt heimapróf eftir :)
Já jólaljósin eru bara fín :) Í mínu hverfi er held ég bara ein fjölskylda búin að skreyta og það eru Íslendingar...nei, ekki við heldur hinir Íslendingarnir í bænum og það er voða kósý hjá þeim og lífgar sko heldur betur upp á þetta annars tómlega hverfi! Enn fullt af lausum húsum...heyrðu ég skipti um skoðun rétt í þessu, góða hættu í þessu námi og vinnunni og komdu með bóndann og börnin til partý-partý bæjarins Lögten! Þá getum við farið saman í master næsta haust ;) jeij!
heheh...*knús po linen*
Ó nei þú ferð sko ekkert að hætta. Hvernig datt þér það í hug? En allavega gott að þú rankaðir við þér, þú átt eftir að brillera sem kennari í framtíðinni :o)
Það er mjög lítið um jólaljós hér í bæ (allir svo sparsamir!!!!!!) En ég ætla að byrja að skeyta um mánaðarmótin og aldrei að vita að maður byrji á smákökunum næstu helgi. Það er svo ótrúlega stutt í jólin...
Skrifa ummæli