mánudagur, 3. júní 2013

Miðjubarnið

Þetta er miðjubarnið mitt. Yndislegur ástsjúkur og andfúll labrador sem er orðinn 11 ára gamall. Hann kom með mér í 7km útihlaup í gær og hefur legið fyrir í allan dag með harðsperrur. Þrátt fyrir augljós ellimerki (ekki ligg ég með harðsperrur...) kalla ég hann iðulega miðjubarnið mitt því þá eru börnin mín orðin þrjú og bera öll klassísk einkenni fæðingarröðunar sinnar auk sinna persónulegu sérkenna. Það elsta er traustur og ábyrgur, hógvær og rólyndur dundari og uppátækjasamur vísindamaður sem kann mest að meta reglu og öryggi og kósíkvöld. Það yngsta er félagslyndur fjörkálfur, áhættusækinn uppistandari með endalausa orku sem finnur upp á óteljandi uppátækjum en vill samt allra helst finna fyrir elsku og fá að knúsa .

Miðjubarnið mitt er í sífelldu kappi um athygli, ást og umhyggju, hann eltir okkur út um allt, þolir ekki að vera skilinn útundann, vill alltaf vera hafður í ráðum en allra, allra helst vill hann bara fá að vera nálægt okkur svo hann geti gætt okkar. Því án hans vökula eftirlits myndum við sjálfsagt fara okkur að voða. Það segir hann alla vega.

Það er eins gott að við fimm hittum hvert annað og ákváðum að rugla saman reitum, ég segi nú ekki annað.

3 ummæli:

Hörður B sagði...

Nebbi kallinn

Björg sagði...

Það er Nebbnilega það :)

HelgaB sagði...

Hann passar vel í fjölskylduna, svona yndislegur í stíl við ykkur hin!