þriðjudagur, 22. júlí 2014

Eitt sinn skáti

Litla lambið mitt, sólargeislinn minn sem er ekki nema 10 ára, er nú móðurlaus norður í landi í viku. Heila viku!

Það er því aldeilis ástandið á heimilinu, eins og gefur að skilja, því móðurhjartað er við það að gefa sig af söknuði. Ég get ekki heilli á mér tekið, ráfa hér um gólf og er bara alveg ómöguleg. Og bölvandi. Bölvandi þeim degi sem ég skráði hana í skátana, vitandi það að einn daginn færi hún á Landsmót og myndi skemmta sér dátt. Án mömmu sinnar!
Hún tók sig vel út með bakpokan, sáralítill
farangur sem móðir hennar lét hana taka með. 
Aukabakpokinn er ekki á myndinni...
Blessuð perlan, alveg að bugast!
En ekki hætti hún við, onei.

Allt voða vel merkt skal ég segja ykkur, alveg
niður í smæstu einingu. Sokkar og allt.

Galdurinn er: LOFTTÆMING
Ekkert of yfirdrifið, nei, nei...

Sjá hvað hún virkar eitthvað smá
svona í samanburðinum...
Það er mjög erfitt að pakka í vikuferðalag 10 ára barns, þegar maður fer ekki sjálfur með. Ég meina það, þetta er alveg örugglega eitt það erfiðasta sem ég hef þurft að gera. Hvað ef það verður sól allan tímann? Þá þarf hún að taka með sér sólarvörn, þægileg létt föt, flugnanet. Svona basic. En hvað ef það rignir allan tímann? Þá þarf hún að taka með sér 14 pör af sokkum, þurr föt að fara í á hverjum degi og regnföt. Svo er hún með excem/þarf að hafa með sér krem, sítt hár/þarf að hafa hárbursta, sjampó og hárnæringu, kuldaskræfa/þarf að hafa teppi og nóg af hlýjum fötum.

Dæs...

Svo þegar hún var komin með þetta allt saman í bakpokann og meira til, fannst mér alls ekki nóg komið og bætti við öðrum bakpoka sem hún þarf að bera framan á sér. Ekki hef ég þó áhyggjur af burðinum, hún þarf bara að bera þetta frá bílastæðinu og sirka 200 metra að tjaldinu. Getur bara farið tvær ferðir.

Hún lagði í hann til Akureyrar seinnipartinn á sunnudaginn, fékk bílfar með nokkrum öðrum skátum. Þó ekki fyrr en hún var búin að skrifa þetta á vegginn sinn á Facebook:
Akkúrat þarna, þegar ég var að lesa þetta á meðan
Sólin sat úti að bíða eftir farinu sínu féllu tár.
Ég meina það, þessi manneskja er kostuleg! Enda

tek ég ekki upp "strauja dótaríið" fyrir hvern sem er :)
Þegar hún lagði í hann norður vorum við nýkomin frá ættarmóti í Vestmannaeyjum, fengum bara 5 tíma nætursvefn, nýsigld með Herjólfi og búin að keyra í þrjá tíma frá Landeyjahöfn á Akranes. Svo tók við hjá henni akstur frá Akranesi til Akureyrar þar sem hún lenti beint á balli með Páli Óskari.

Þegar hún hringdi svo í mig hágrátandi um miðnættið á sunnudagskvöld og sagðist vilja koma heim kvarnaðist aðeins úr móðurhjartanu. Sver það, ég felldi tár! Var alveg til í að skutlast norður og sækja barnið.

Nema ég var komin í náttfötin og svona. Ég talaði hana því til, róaði hana niður, tjáði henni ævarandi ást mína og taldi henni trú um að móðursýki hennar væri þreytumerki. Hún væri haldin ofsaþreytu eftir helgina og allt yrði betra á morgun eftir góðan svefn.

Eftir að við kvöddumst sallarólegar horfði ég lengi vel stíft á símann og óskaði þess að hann hringdi einu sinni enn. Bara einu sinni! Þá færi ég med det samme af stað til Akureyrar að sækja ljúfuna mína. Á náttfötunum einum klæða. En síminn hringdi ekki meir það kvöldið.

Skátinn hringdi hins vegar ofsakátur morguninn eftir og allt annað í henni hljóðið, fjárakornið sem betur fer. Sólin skein víst og allt svo bjart og fallegt. Hef ekki heyrt frá henni síðan! Hvernig hefur hún það? Er gaman? Er hún búin að kynnast einhverjum krökkum? Hvað eru súrringar? Er hún með nóg af hreinum nærfötum? Fær hún eitthvað að borða þarna? Hvað eru súrringar? Svo margar spurningar, en lítið um svör. Ég veit það eitt að ég get varla beðið til föstudags, þá leggjum við af stað norður strax eftir vinnu að sækja hana, held það verði unaðslegt!!


miðvikudagur, 16. júlí 2014

Taska, taska


Ég er ekki alveg búin að taka upp úr öllum töskum ennþá, enda er það ofsalega mikið verk eftir svona langt sumarfrí og allt of mikið til að hægt sé að ljúka því í einni atrennu. Þessari tösku hef ég hugsað mér að leyfa bara að vera. Ég meina, það gæti brostið á sólskin hvað úr hverju og þá er ekkert verra að vera tilbúin. Geta gripið með sér þessa elsku á leiðinni út á pall!

Þetta er semsagt botninn á sund- snyrti- og sólbaðstöskunni minni sem fylgir mér hvert sem ég fer. Eins og sést gerði Nivea gott mót þegar ég fyllti á birgðirnar í vor, enginn samdráttur í sölu sólaráburðs getur mögulega verið frá mér kominn.

Ég ætti nú samt alveg gengið frá nefspreyinu, enda harla ólíklegt að ég fá annað heiftarlegt kvef. Ekki í þessum mánuði alla vega, eitt kvef í júlí er nóg.


sunnudagur, 13. júlí 2014

Sulta í sjósundi

Að loknu sex vikna viðstöðulausu sumarfríi er ótal margs að minnast og það liggur við að mér vökni um augun af einskærri tilfinningasemi þegar ég lít til baka og rifja upp allar þær ómetanlegu minningar sem við fjölskyldan eigum eftir þetta sumar. Svona er maður nú mjúkur innan í sér, þótt það sjáist ekki utan frá.

Ég verð þó að játa að eftir hið ljúfa líf síðustu sex vikna er aðeins farið að örla á efnislegum mjúkleika hjá mér, af þeim toga sem er aldeilis sjáanlegur utan frá. Svona sultukenndum hjúp sem ég er aldeilis ekki vön. Já ekki ber á öðru, ég hef víst hlaupið í spik í sumarfríinu!

Ég fattaði þetta bara núna í kvöld þegar ég var búin að ganga frá farangrinum eftir síðustu útilegu og ætlaði að beygja mig eftir óhreina tauinu og gat það hreinlega ekki. Hnén rákust ítrekað í bumbuna og það gerði mér algerlega ókleift að halda áfram vinnu minni við þvottastampinn. Svo ég tróð mér í hlaupagallann (með smá erfiðismunum, enda hef ég lítið umgengist hann í sumar), og trimmaði aðeins í mildu sumarkvöldinu.
Trimmið varði heila fjóra kílómetra alls
og ég finn strax mun á mér, alveg satt.
Þar sem ég hljóp meðfram Langasandinum sá ég mér til mikillar ánægju að það var stórstraumsflóð. Sem eru eins og allir sjósundsgarpar vita kjöraðstæður til sjósundsiðkunar. Þegar ég kom heim (ekki vitund móð og másandi, heldur bara nokkuð hress) fann ég því fyrir óstjórnlegri þörf til að demba mér út í Atlandshafið og kæla mig aðeins niður. Klæddi ég mig því í sjósundbolinn minn (já, ég á sérstakan sundbol til þess arna), vafði um mig handklæði og tölti niður að sjó.

Girnilegt ekki satt?
Mikið sem ég er nú heppin að búa örskammt frá hafinu, þá eru einungis sárafáir nágrannar sem sjá til mín þegar ég er að striplast þetta. Allavega, hafið leit djúsí út og ég stóðst ekki mátið, óð útí alveg kafsveitt eftir hlaupið, og setti stefnuna á sjóndeildarhringinn. Æðarfuglinn úaði í flæðarmálinu og mávarir hnituðu hringi yfir höfði mér. Allt eins og best verður á kosið. Það var þá sem ég leit í kringum mig í sjónum og tók eftir innihaldi hans. Ég var ekki það eina sem flaut þarna, heldur ýmislegt annað sem stórstreymsflóðið hafði fundið í flæðarmálinu: þari í massavís, marglyttur, plastagnir og alls konar óhreinindi. Það var þó ekki fyrr en ég sá klósettpappírinn að ég sneri ég við og synti í land!

Ég veit ekki hversu vel þetta sést á myndinni, en ég syndi í gegnum nokkrar svona flekki af þara og rusli áður en ég áttaði mig og hætti að hlusta á æðarfuglinn og mæna dreymandi á sjóndeildarahringinn.

Eftir rosalega langa sturtu og hálfan brúsa af sápu er ég loks tekin til við þvottafjallið á nýjan leik. Sjósundbolurinn er einmitt í þvottavélinni núna. Ég reyndi samt að skola það mesta af honum fyrst, svo ekkert stíflist...

miðvikudagur, 2. júlí 2014

Kóróna dagsins

Sólin mín með kórónu dagsins
Þessi prinsessa ætti að fá að bera kórónu á hverjum degi, en því miður fæst mamman ekki til þess arna nema á rigningardögum eins og í dag. Kóróna dagsins tókst alveg með ágætum og er alveg til þess fallin að kóróna daginn ef út í það er farið.

Nema ég skottist út í búð og kaupi rjóma! Þá gæti ég búið til Salt-karamellu-mocha og heldur betur kórónað daginn með því að setja tærnar upp í loft og sötra það með hljóðum og allt. Umhummm, nú langar mig ekki í neitt annað...

þriðjudagur, 1. júlí 2014

Að loknu bloggátaki

Þar kom að því. Bloggátakið hefur runnið sitt skeið, og mér tókst ætlunarverkið: að setja inn daglegar bloggfærslur í júní-mánuði. Til hamingju ég! Ein óviðráðanleg undantekning varð reyndar þegar ég var netlaus í eyðidal og gat ekki sent færsluna inn þótt ég hafi nú skrifað hana á réttum degi.

Ég er voða ánægð með mig, en jafnframt fegin að þessu átaki er lokið því nú get ég bloggað þegar mig lystir. Mig grunar að þótt þeim muni fækka talsvert frá liðnum mánuði, verði meira varið í hverja færslu því þær hafa nú verið ansi þunnar í júnímánuði, kannski mynd og nokkrar setningar til að uppfylla kvótann. Ef til vill er blogg eins og vatn í potti á suðuhellu. Ef [eldabuskan/bloggarinn] er stöðugt að [taka lokið af/setja inn smáfærslur] þá er minni kraftur í [suðunni/blogginu]. En ef [eldabuskan/bloggarinn] [lætur lokið vera á/bloggar ekki neitt], þá kemur að því að það [sýður upp úr af miklum krafti/kemur rosalega löng og innihaldsrík bloggfærsla]. Er þetta ekki bara nokkuð góð samlíking hjá mér? 

Annars er rokið og rigningin komið til landsins, og eins og allir vita er það pottþétt veður fyrir hressandi útihlaup. Sem er einmitt það sem við Tóti gerðum áðan, með herkjum þó, þar sem við erum undirlögð í harðsperrum eftir helgina. Fyrir það fyrsta þá vaknaði ég fyrir allar aldir í Hveragerði á laugardagsmorgun til að mæta í Zumbatíma kl. hálf-níu (með stelpunum sko, Tóti var ekki með í því). Seinna um daginn spiluðum við svo fótbolta alveg þar til ég þurfti að hætta leik vegna íþróttameiðsla. Þetta hefur hreinlega verið of mikið af því góða, því bæði höfum við verið ansi stirð og aum það sem af er viku.

Svo er greinilegt að eftir ansi hitaeiningaríkan og notalegan mánuð að meiri hreyfing þarf að komast á dagskrána. Núna er ég ekki með neitt hlaupaprógram í gangi eins og hefur verið undanfarin sumur og það munar alveg um það þegar maður sullar í grillmat og súkkulaði alla daga! Þess vegna datt mér í hug, þar sem ég sat fyrir framan tölvuna með kaffið mitt í morgun, hvort eg ætti ekki að rifja upp kynni mín af Billy Blanks, stórvini mínum sem ég kynntist í fæðingarorlofinu árið 2001:
Þetta myndband er eitt af mörgum sem ég fékk lánað á VHS-spólum á þeim tíma. Þetta er ekki grín! Tae Bo Billy var einkaþjálfarinn minn og saman náðum við góðum árangri heima í stofu. Það er hægt að eyða rigningardögum í margt vitlausara en þetta skal ég segja ykkur!