mánudagur, 26. desember 2011

laugardagur, 10. desember 2011

Jólabakstur

Uppáhaldið mitt í desember er að draga fram uppskriftasafnið og fletta í gegnum síður sem eru útataðar blettum og kámi fyrri jóla. Þannig finn ég hinn sanna jólaanda.

Þarna eru engiferkökurnar sem ég baka alltaf, gömlu góðu súkkulaðibitakökurnar og allt annað sem til þarf.

Í dag eignaðist ég mína fyrstu hakkavél. Þar með gat ég hætt að láta mér nægja að lesa uppskriftina að vanillufingrum og hafist handa við að baka þá. Mikil ósköp hvað þeir eru góðir og fallegir. Einnig bakaði ég lakkrístoppa og kláraði að setja saman mömmukökurnar.

Þannig að nú eru þrjár sortir komnar í dunka, en fjórða sortin sem var tilbúin í lok nóvember, piparkökurnar, er uppurin og boxið galtómt. Skil ekkert í því...

Ekki aðeins tókst að baka þessar kökutítlur í dag, heldur pakkaði ég líka nokkrum jólagjöfum og skrifaði á jólakort! Vei fyrir mér :o)


Þetta er nú smá jólalegt að sjá, ekki satt?


sunnudagur, 27. nóvember 2011

Piparkökuhús 2011

Hér á E9 hefur verið brjálað að gera þessa helgina og eldhúsið mitt litið út eins og einingaverksmiðja á góðæristíma.

Þetta byrjaði á fimmtudagskvöld með hönnunarvinnu og þá sátu verkfræðingar sveittir yfir uppdráttum að fyrirhuguðum húsum. Föstudagskvöldið fór í að hnoða deig sem þurfti svo að bíða yfir nótt, ansans ófögnuður það :/ Laugardeginum eyddum við í að fletja út og baka í gríð og erg.

Í dag var svo samsetningarlínan ræst og súkkulaði, glassúr, ísingu og kökuskrauti stráð á viðeigandi staði. Allt gert eftir kúnstarinnar óreglu, í fjarveru hallamála og tommustokka og þess háttar óþarfa. Húsin eru því loksins tilbúin, til þess eins að standa þarna og vera sæt og svo vera étin í fyllingu tímans. Sældarlíf það.


Sólar hús risið og verið að skreyta

Vinurinn býr til flottustu marsipanrósirnar :o)


Hryllingsþema. Ef vel er að gáð má sjá hvar ósýnilegi maðurinn stendur...


Hjartaþema

Someone was murdered...

Þetta fær að standa ljóslaust, peran er sprungin og ekki hægt að skipta nema rífa húsið upp af sykurgrunninum...

Vinurinn og húsið hans

Sólin og húsið hennar
Og auðvitað nokkrar piparkökur líka

þriðjudagur, 15. nóvember 2011

Brauðdrengur

Það er engu líkara en ég hafi fátt að gera við tímann nema að baka. Því er nú öðru nær, en þessi misserin er ég einfaldlega haldin óstjórnlegri þörf fyrir að taka myndir af matnum mínum :o)

Í kvöld bökuðum við mæðgurnar Brauðdreng sem við snæddum svo í kvöldhressingu. Svakalega hressilegur strákur sem var mjúkur undir tönn og krúttlegur. Alls ekki gómsætur, enda er alvitað að ekki er hægt að lýsa ósætum mat með því orði. En sætur var hann að sjá, það fer ekkert á milli mála!laugardagur, 12. nóvember 2011

Skonsur

Í dag bakaði ég ótrúlega góðar, fínlegar og mjúkar skonsur. Ég hef bakað þær áður en gleymi því alltaf á milli skipta hversu góðar þær eru :o)


Uppskriftin er original frá Nigellu, en fékk smá snyrtingu hjá mér. Ekki það að ég sé að reyna að gera betur, heldur notar hún stundum hráefni sem ég á aldrei til og það gengur ekki!
Eftir smá tilraunir er niðurstaðan þessi:
4 bollar hveiti
4 tsk. lyftiduft
2 msk. flórsykur
4 msk. mjúkt smjör
-blandað saman með hnoðaranum
2 msk. olía
1 1/2 bolli AB-mjólk (jafnvel aðeins rúmlega, deigið á að vera blautt í fyrstu)
-sett saman við og hnoðað áfram þar til deigið er orðið að klístraðri einingu sem hægt er að losa úr skálinni á hveitistráð borðið þar sem deigið er hnoðað áfram. Bollur gerðar (með lófum eða með glasi).
Bakað við 220 °C í 12 mínútur

Ég er farin að fá mér rjúkandi skonsu, smurða með smjöri og osti og kaffi með. Slllúúrrp!

Skonsur


Ef þetta heppnast vel kemur uppskrift í kvöld!


Published with Blogger-droid v2.0.1

laugardagur, 5. nóvember 2011

Meira af súkkulaði

Í gær bakaði ég svaðalegar súkkulaði-muffins, stútfullar af súkkulaði og gleði. Mæli alveg með þeim.

föstudagur, 4. nóvember 2011

Brún sæla

Í kvöld hefur aldeilis mikið verið bakað og bardúsað í eldhúsinu og brúnir tónar allsráðandi. Súkkulaði er auðvitað hið mesta uppáhald og án þess væri nú til lítils að fara fram úr á morgnana. Það sem heimurinn þarf er meira súkkulaði!
Látum myndirnar tala sínu máli :o)
fimmtudagur, 3. nóvember 2011

Hrekkjavaka

Vinurinn er að undirbúa hrekkjavökupartí. Viku of seint, en samt með öllu tilheyrandi skrauti, mat og spennandi hryllingsmynd. Við skárum út grasker í kvöld, í fyrsta sinn á ævinni. Kannski verður þetta nýr siður... Hita upp fyrir pipakökuhúsagerðina með graskersútskurði :o)
Sjá þetta hræðilega ferlíki...

Stundum er þetta bara spurning um rétt viðmið. Stóru graskerin voru búin og við fengum bara þetta!

laugardagur, 29. október 2011

Símaprufa


Bara að prófa. Nú er til app fyrir allt, m.a.s. fyrir Blogger. Bara gaman :-)

Published with Blogger-droid v2.0

Grænir fingur

Mikil er gróskan á E9 þetta haustið.

Fyrir 11 mánuðum síðan gaf mamma mér tvo afleggjara af Hawai-rós. Annan stilkinn dró ég steindauðan upp úr pottinum í maí, þar sem hann var eiginlega orðinn að dufti. Hinn hefur líka litið út fyrir að vera dauður í 11 mánuði en ákvað um daginn að laufgast sisvona. Orðinn mjög hraustlegur og hnarreistur.


Síðan er það Engifer-rót sem ég var of sein að borða. Hún fór bara að laufgast þar sem hún lá í ávaxtakörfunni svo hún var drifin í pott og dafnar prýðisvel. Þetta er náttúrulega planta sem vex villt við miðbaug, veit ekki hvað hún var að hugsa þegar hún ákvað að laufgast (eða blaðgast??) hér á 64° breiddargráðu. En stilkurinn á henni er sterklegur og ég bíð spennt.


T.v. Hawai-rós - T.h. Engifer

Síðan er það svo furðulegt með útipott sem ég sáði í sumarblómum í fyrravor. Í fyrrasumar kom sáralítið upp og það sem þó kom var voða renglulegt eitthvað og bjálfalegt á að líta. Þess vegna reif ég það allt upp í vor og fjárfesti í litlu runnaskotti sem ég tróð bara ofan í pottinn í staðinn. Nema hvað, núna í október birtust þrjár sumarplöntur í pottinum, ákváðu bara að smella sér upp ári of seint. Flott hjá þeim.


Bjálfablóm og Runnaskott


Sumarblóm í október :o)
 Nú bíð ég bara eftir því að kvistirnir í parketinu fari að grænka og græðlingar spretti upp úr borðplötunni í eldhúsinu. Ég er bara svona ótrúlega flink í mínum grænu fingrum að ég hreinlega ræð ekki við mig!

miðvikudagur, 17. ágúst 2011

Af hlaupum og öðrum tæknilegum stórvirkjum


Ansi hreint er maður langt leiddur þegar maður gefst upp á sumarfríinu og skellir sér bara í vinnu si sona, en það er þó einmitt það sem átti sér stað á mánudaginn. Sökin er að mínu mati sú að verulega hefur kólnað í veðri síðustu daga og ekki hægt að liggja neitt á pallinum. Þá liggur nú beint við að fara bara aftur í vinnu. Ég á nokkra daga eftir í frí sem ég geymi bara aðeins, það er bara gott og gaman.

"Mamma, ég bara verð að hætta að tana og fara að vinna" :-/

 Annað smellið sem gerðist nú í vikunni en hefur smá forsögu. Þannig er mál með vexti að í nokkur ár, eða þar til ég varð 31 árs, trúði ég því heitt og innilega að ég gæti ekki hlaupið. Það væri bara eitthvað sem aðrir gerðu og ég hlyti bara að vera öðruvísi en annað fólk. Ég tók jú reyndar árlega, örugglega tvö ár í röð, þátt í víðavangshlaupi á 17. júní á mínum sokkabandsárum, en þá erum við að tala um kannski kílómeter og ég var að drepast eftir það. Sjálf sveitastelpan...

Reyndar, svona þegar ég spái í því, þá gat ég heldur ekki synt eða spilað fótbolta svo vel færi, en reyni að lifa sem lengst á hinum ofurstutta blakferli mínum sem ég segi kannski frá síðar. Íþróttir hafa s.s. aldrei legið vel fyrir mér og ég því einbeitt mér að huglægri þjálfun og styrkingu andans svona eftir að ég áttaði mig á því að íþróttir væru fyrir aula :o)

Svo fyrir tveimur árum féll í fang mér vefslóð. Eigum við að segja að hún hafi fallið af himnum ofan? Já, höfum söguna bara þannig.

Á þessari vefslóð las ég um prógram fyrir þá sem ekkert geta hlaupið og því lofað að á tveimur mánuðum fengi ég þol hlauparans. Ég væri nefnilega ekkert öðru vísi en annað fólk (Myth busted...). Jú, á þessum tveimur mánuðum kæmist ég "From Couch to 5k", eða upp úr sófanum og í 5 km hlaup!


Undur og stórmerki!

Þetta gekk líka svona stórvel þrátt fyrir arfaslakan tónlistasmekk míns persónulega einkaþjálfara Roberts Ullrey sem talaði við mig í I-podinum mínum (við erum að tala um ömurlega techno-lyftutónlist í slow-motion...). Í dag sé ég að hægt er að fá alls konar podcast eins og hér, hér og hér fyrir þá sem hafa áhuga...

Síðan hef ég verið að hlaupa öðru hverju, tek svona skorpur og hleyp reglulega en dett svo í að hlaupa ekki neitt. Ég meira segja datt um tíma í prógramið "From 5k to Couch" og massaði það í nokkra mánuði. Þangað til nú í ágúst tókst mér aldrei að hlaupa meira en þessa 5 kílómetra sem Mr. Ullrey setti mér fyrir. Svo bara allt í einu kom það, mér tókst að hlaupa 6 km og síðan kemur að þessu smellna sem gerðist í vikunni, mér tókst að hlaupa 10 kílómetra án þess að stoppa eða labba neitt, whoop-whoop!

Um leið og ég var búin að hlaupa þessa 10 kílómetra áttaði ég mig líka á því að miðað við hvað ég er ógeðslega góð í að hlaupa þá ég ekkert dót við hæfi og úr því verður bætt hið snarasta. Í þessum töluðu orðum hleypur vinkona mín eins og vindurinn með Android símann sinn í Danzka og ég dauðöfunda hana. Mig langar líka í dót sem fylgist með lengd og mínútum og hækkun/lækkun og þannig :o/ Svo nú skoða ég snjallsíma og spekúlera mikið. Landslagið er aðeins öðruvísi en þegar ég var í "bransanum", en ég reyni að klóra mig fram úr þessu.

Málið er að þegar ég hljóp kílómeter í víðavangshlaupi í den (og var að drepast) þá var nóg að eiga vasadiskó. Fyrir tveimur árum þegar mér tókst að hlaupa 5 kílómetra hélt I-pod mér við efnið. Nú eru aðrir tímar og maður bara verður að fylgja. Ætli ég að eiga möguleika í þesum bransa, þá verð ég að eiga snjallsíma með Android-stýrikerfi og GPS staðsetningarmöguleika, annars á ég mér enga von, punktur og pasta!

föstudagur, 12. ágúst 2011

Meira af sumarfríi

Tölvan öðlaðist líf að nýju þegar ég lagði hana í hendur dásamlegs viðgerðarmanns sem ekki aðeins endurheimti öll gögn, heldur tók hana algerlega í gegn frá A til Ö. Held hún sé betri en ný núna, mjög hraðvirk og fín :o)

Ég er enn í sumarfríi. Um síðustu helgi fórum við í bústað með Snorra, Ínu og þeirra slekti. Rosalega fín helgi með mikið af mat og afslöppun. Á sunnudaginn var svo afmælisveisla í Heiðmörk hjá hinum 2ja ára Reyni. Frábært veður og Heiðmörk er falleg umgjörð um svona fjölskylduboð, stundum vildi ég að ég ætti sumar-afmælisbörn...Pabbinn og Vinurinn í sveppaleit


Sólin og Snorri í sólskinsskapi í Heiðmörk


Svona eru sumar-afmæli


Reynir 2ja ára og Snorri 2ja ára

þriðjudagur, 2. ágúst 2011

Dánarfregnir og jarðarfarir

Tölvan mín andaðist fyrir helgi. Sýnir bara bláan skjá með villumeldingum. Hvorki hægt að boota frá harða drifinu né CD og við hjónakornin kunnum til samans ekki meir. Í morgun streymdu svo inn um póstlúguna bæklingar með skólatilboðum á tölvum... tilviljun? Nei, ég kýs að kalla þetta örlög. Ég þarf samt að finna einhvern sem kann að nálgast gögnin á gömlu tölvunni því þar eru myndir og skrár sem ég þarf að eiga. Útförin verður auglýst síðar.
En þar sem sumarfríið er búið hjá húsbandinu og hann þurfti að fara til vinnu í morgun þá legg ég bara undir mig hans tölvu og hef það kósý ein í sumarfríi :o)

mánudagur, 1. ágúst 2011

Sumarfrí

Vinurinn, Sólin og Strokkur
Sumarfríið líður hratt, vika nr. 3 hófst í morgun. Það er samt eins gott að veðrið fari að skána, annars er ég hætt við og fer bara aftur í vinnuna! Sé nú lítinn tilgang í því að hanga í sumarfríi ef það er rigning og/eða rok.

Annars byrjaði þetta sumarfrí á sumarbústaðaferð, vorum í 6 nætur þar. Fengum nokkra gesti, fórum í túristaferð að Gullfossi og Geysi. Litum við hjá hinum fagra fossi Faxa. Heimsóttum ömmu Huldu á Þingvöllum. Annars bara leti og ljúflegheit.

Sól við Faxa


Vinur við Faxa


Besta fólkið við Gullfoss
Síðan keyrðum við af stað á fimmtudegi með tjaldvagninn í eftirdragi í hálfgerða óvissuferð. Okkur greip ævintýraþrá og því beygðum við út af malbikinu og ókum langa leið eftir línuvegi sem við sáum glitta í. Þessi slóði hefur örugglega verið lagður þarna á sínum tíma af illsku einni saman ( í alvöru, þessi troðningur var ekki lagður af mennskum höndum heldur einhverju djöfullegu afli og ef ég hefði munað eftir myndavélinni þá hefði ég bæði getað sett inn myndir af þessum óskapnaði og einnig myndir af Tóta að skipta um hjólalegur í bílnum þegar heim var komið (örugglega útaf þessum slóða sko)). Eftir að hafa tekið þrjáoghálfan tíma í að keyra þessar 100 km löngu ófærur skoðuðum við Háafoss og Granna.

Um kvöldið komumst við í Landmannalaugar sem eiga víst að vera svo frábærar og tjölduðum þar eina nótt. Ég á alveg erindi á þetta svæði aftur, en ekkert sérstaklega í Landmannalaugar. Mér fannst Dómadalurinn mikið huggulegri, svæðið í kringum Landmannahelli líka og síðan leiðin niður, maður minn það er fallegt. Landmannalaugar voru bara yfirfullar af fólki og kúlutjöldum svo maður var að kafna, líst ekki á það.

Á föstudeginum héldum við áfram og komumst að Kleifum við Kirkjubæjarklaustur seinnipartinn. Það er frábært svæði sem ég hefði alveg verið til í að skoða betur. Rétt við tjaldsvæðið er Stjórnarfoss og í Stjórninni tókum við sundsprett um leið og við vorum búin að tjalda. Íííískalt og hressandi eins og svona böð gerast best :o) Fórum svo aftur ofan í morguninn eftir og m.a.s. Tóti með! Hann fer nefnilega alveg að fíla þetta :o)
Ég að synda í Stjórninni

Vinurinn tekur dýfu!

Eftir eina nótt að Kleifum keyrðum við til vesturs yfir Mýrdalssand og undir hin dásamlega fallegu Eyjafjöll. Stoppuðum að Skógum og skoðuðum Skógafoss. Við Markarfljót keyrðum við inn í mikið öskufok, svo þétt að það skóf í skafla á veginum við fljótið! Við keyrðum í öskuskýi alveg á Akranes, með góðu kaffistoppi á Hellu þar sem var ættarmót niðja ömmu Bjargar og hennar systkina. Upphaflega ætluðum við nú að tjalda þar, en löngunin var ekki mikil vegna öskunnar.

Um síðustu helgi fórum við síðan á Hellissand með góðu fólki. Tjölduðum í rigningu og roki á föstudagskvöldið, en á svoleiðis kvöldum er ómetanlegt að eiga fortjald og hitara. Á laugardeginum keyrðum við í kringum jökulinn, stoppuðum í hinni fallegu Skarðsvík og á Djúpalónssandi sem stendur alltaf fyrir sínu. Fengum okkur kaffi og tertusneið í Fjöruhúsinu á Hellnum og lukum hringnum með sundi í Ólafsvík. Dásamlegt veður allan daginn og fram á nótt. Fórum í göngu um Hellissand og spiluðum Kubb, bara gaman.

Ekki eins gaman þegar ég vaknaði við æluspýju um nóttina þegar Sólin gubbaði yfir mig og sig og hvað sem fyrir varð... Okkur tókst að búa um okkur aftur með því að snúa við dýnunni og þurrka þetta mesta. Við þurftum því að pakka saman um morguninn, degi fyrr en við ætluðum. Eitt ælustopp á leiðinni og líka stoppað í kaffi í bústað hjá tengdó. Ég hef aldrei þurft að þvo svona mikinn þvott eftir tveggja nátta útilegu, það er kominn þriðjudagur og ég er enn að! Svefnpokarnir, koddi, lak, dýnuver og svo öll fötin. Ég er alveg á báðum áttum hvort ég nenni í fleiri útilegur!

Sólin er samt orðin hress núna og um leið og hreini þvotturinn er kominn á sinn stað þá skellum við okkur örugglega :o)

sunnudagur, 29. maí 2011

Dagurinn í dag

Það sem garðurinn á E9 verður flottur í sumar. Búið að klippa allt og sjæna beð og svona. Dundaði mér í rósarunnanum í dag og ætla að veðja á að hann blómstri í ár (það yrði þá í fyrsta sinn á þeim 10 árum sem við höfum búið hérna...)

Við Björgvin tókum á því í dag, hann sló og ég mokaði. Smá mosaeyðir fékk líka að fljóta með. Mikið sem við erum sátt við afraksturinn. Keyptum okkur síðan laugardagsnammi og höfðum það kósí. Yndislegt alveg hreint.

Á meðan dunduðu feðginin sér við veiðar í Eyrarvatni. Einn silungur kominn í grafning og allt. Mótorinn varð bensínlaus úti á miðju vatni og þegar reynt var að róa í land brotnaði önnur þóftan. Hvurslags eiginlega!

Ég held að við Björgvin höfum vinninginn í notalegheitum í dag :o)

Þessi þarf hvorki bensín né árar...


miðvikudagur, 25. maí 2011

Einu sinni var...

Allar bestu sögurnar byrja á Einu sinni var...

Einu sinni var ekkert sjónvarp á fimmtudögum og heldur ekki í júlí því þá áttu starfsmenn Ríkisstöðvarinnar frí.

Mig rámar alveg í 1. október 1987 þegar allt í einu var sjónvarp alla daga vikunnar. Þess ber að geta að fyrir utan Stundina okkar á sunnudögum, voru hinir tékknesku Klaufabárðar og Tommi og Jenni eina barnaefnið á dagskrá. Þess vegna glápti ég á þetta allt saman. Af Taggart lærði ég ensku, en enga þýsku lærði ég því þegar uppháhaldsþættirnir um Derrick og hans huggulega fylgdarsvein voru á dagskrá þá var ég náttúrulega bara að horfa á fylgdarsveininn og andvarpa.
óboj, það sem manni fannst Harry Klein huggulegur :)
Þetta var náttúrulega sjónvarpsefni í hæsta gæðaflokki sem ég man ennþá eftir. Núna er sjónvarp allan sólarhringinn og efnið misgáfulegt.

Ég get ekki ímyndað mér að þegar börnin komast til vits og ára þá muni þau hugsa á sama hátt til Chowders eða Ed, Edd n Eddy á sama hátt og ég hugsa til Harry Klein, það er bara þannig.

laugardagur, 30. apríl 2011

Gíró fyrir gamlar syndir

Um síðir kemst alltaf upp um syndir.

Oft getur maður sjálfum sér um kennt og veit upp á sig skömmina. Það gerist líka iðulega að fortíðin hreinlega hleypur mann uppi og bítur mann í rassinn. Fast. Eða svífur inn um póstlúguna alveg óumbeðin...

Það er alveg sama hversu oft ég hef skipt um lögheimili (enda hætti ég því þarna um árið þar sem það hafði barasta engin áhrif) eða hversu mikið ég hef annars lagt á mig til að fela slóðina um mig. Bít, bít og nart, nart.

Og í liðinni viku datt kunnuglegt lítið bréfkorn inn um lúguna, stílað á yðar einlægu. Gíróseðill fyrir gamlar syndir. "Greiddu mig og samviska þín verður hrein þangað til næst... múhahahaha".

Heyrðu, bíddu aðeins. Þessi saga byrjar eiginlega ekki þarna heldur miklu fyrr, í árdaga lífs míns.

Þessi syndasaga hófst nefnilega á því herrans ári 1995 meðan á 6 vikna löngu kennaraverkfalli stóð. Í minningunni var þetta ágætis verkfall, ég fór vestur í fjörðinn minn fagra og vann fyrir mér í Esso-skálanum eins og ég átti vanda til í fríum. Að komast í vinnu svona um hávetur voru þvílík uppgrip fyrir mig fátækan námsmanninn og þar sem ég sat í rólegheitunum á vaktinni gat ég séð fyrir mér alla kaffibollana og langlokurnar sem hægt væri að kaupa á Café Au Lait þegar verkfallinu lyki.
Það er nú svosem ekki brjálað að gera í Esso á Flateyri um hávetur (nema helst á föstudögum þegar allir fengu útborgað, þá fór alveg slatti af hamborgaratilboðum með súperdósum) svo ég hafði alveg nægan tíma til slíkra dagdrauma.

Súperdósir eru svo kannski efni í annað blogg... seinna!

Tímakaupið var að mig minnir 300 kall og ég gat unnið eins mikið og ég vildi. Það var því kannski ekkert skrýtið að mér fannst ég vera orðin vellauðug eftir fyrstu vikurnar. Verkfallið dróst á langinn og Café Au Lait var orðinn fjarlægur draumur svo ég fór að svipast um eftir vænlegum fjárfestingarmöguleikum.

Það var þá sem ég fékk frábæra hugmynd. Ég hefði kannski átt að fá þá hugmynd að ganga í Kvenfélagið eða eitthvað svoleiðis sniðugt, þá hefði þetta kannski ekki dregið slíkan dilk á eftir sér. En nei, ég ákvað að fjárfesta til framtíðar og láta gott af mér leiða í leiðinni.

Þarna á staðnum var nefnilega kynningarefni frá ákveðnum samtökum sem taka að sér að miðla málum fyrir munaðarlaus fátæk börn í útlöndum. Fyrir ákveðna lágmarksupphæð á mánuði (sem var alls ekki of há að mínu mati enda var ég á dúndurlaunum og moldrík þetta augnablikið) gat ég tekið að mér eitt stykki munaðarlaust barn í útlöndum. Frábært! Auðvitað skundaði ég rakleiðis í Sparisjóðinn og greiddi þennan gíróseðil með brosi á vör.

Mánuði síðar (verkfalli lokið og skólinn hafinn að nýju) kom bréf í pósti, annar gíróseðill. Ennþá var til afgangur af vinnulaunum (þrátt fyrir ómælt magn af kaffi og langlokum) svo ég borgaði, með semingi þó. Eftir þetta varð þetta tómt basl, reikningarnir komu áfram en peningurinn var búinn. Reikningunum fóru að fylgja myndir af ákveðnu barni sem myndi öðlast ágætis líf bara ef ég héldi áfram að borga. Jæks, hvað gera 17 ára óharðnaðir blankir unglingar í slíkum aðstæðum?

Ekkert veit ég um það, ég hins vegar hætti bara að borga. Gat það einfaldlega ekki eftir að peningurinn kláraðist. Smám saman fækkaði gíróseðlunum og þeir fóru að berast sjaldnar, myndirnar hættu að koma. Úff, samviskubitið maður, samviskubitið...bít, bít og nart, nart... En sem sagt, enn þann dag í dag eru gíróseðlar frá þessum samtökum að detta inn um lúguna á sirka 6 mánaða fresti og auðvitað borga ég þá.

Það er samt aðallega tvennt sem ég er að spá í varðandi þetta:
1. Hversu mikilvægur þáttur í rekstri svona samtaka eru greiðslur frá fólki sem samvisku sinnar vegna getur ómögulega hætt að borga?
2. Í hversu mörg ár hefði Kvenfélag Mosvallahrepps þráast við og haldið áfram að senda mér gíróseðla fyrir félagsgjöldum ef málið hefði snúið að þeim?

Tjah, er von að maður spyrji sig...

þriðjudagur, 8. febrúar 2011

Hlaupadrama

Hlaupadagbókin hefur bara ekkert verið uppfærð undanfarið.

Ástæðan? Jú, ég hef bara ekki nennt þessu og hef látið Zumba tvisvar í viku nægja. Aukinheldur er færðin einstaklega leiðinleg þessa dagana og ég hef bara ekki hætt mér út á ísi lagðar gangstéttar bæjarins svona á ónegldum sólunum!

Í kvöld greip mig þó hlaupaórói mikill sem ég varð að finna farveg. Ekki var hægt að hlaupa úti vegna veðurs og mig langaði ekki inn í Höllina. Því átti ég þann kost vænstan að fara á bretti í þreksalnum, þangað sem ég hef ekki komið í hartnært ár.

Úff!

Þetta er bara ekki fyrir mig, alltof kaótískt og troðið af fólki á kafi í áramótaheitinu sínu (skil þetta ekki, það er komið fram í febrúar!). Svo eru allir salir í notkun fyrir einhverja lokaða tíma svo eini staðurinn til að teygja er frammi á gangi! Mjög flott, mjööög flott.

Annars ætlaði ég ekkert að skrifa um þetta, ég ætlaði nefnilega að skrifa um verurnar tvær sem ávalt eru meðíferð þegar ég fer að hlaupa. Aðra skulum við kalla Ofurkvendi. Ofurkvendið situr á hægri öxl minni og hvíslar í eyra mér dásamlegum hvatningarorðum, hún segir mér að ég geti allt sem ég ætli mér og að ég muni alveg ná að hlaupa þessa 5 km á undir 25 mínútum.
Á vinstri öxlinni situr önnur vera, Letipúkinn. Hann er feitur og pattaralegur og hvíslar líka að mér ljúfum orðum en inntakið er efnislega allt annað. Hann talar um hvað það væri nú notalegt að vera komin heim og í bað, gott væri að skríða upp í sófa og kúra aðeins. Ég eigi alveg skilið að komast upp í rúm og þetta hlaup sé nú ekki mikilvægt enda komi ég aldrei til með að verða góð í því. Letipúkinn er á þeirri skoðun að ég eigi að snúa við og labba heim (eða bara húkka far?).
Ofurkvendið og Letipúkinn berjast um athygli mína frá þeirri stundu sem mér dettur í hug að fara að hlaupa og þangað til ég er komin heim aftur. (Stundum erum við hér að tala um svona þriggja tíma stanslaust nöldur!). Þá loks er ég fæ þaggað niður í Letipúkanum og hleyp úti þá fer ég yfirleitt svipaðan hring sem er um 5 km langur. Galdurinn er sá að hunsa Letipúkann fyrstu 2,5 kílómetrana þegar hann þrábiður mig um að snúa við og beina athyglinni frekar að ofurkvendinu sem hughreystir mig og styður áfram. Seinni helming leiðarinnar hjálpast þau náttúrulega bæði að við að hvetja mig heim:

Já, hlauptu manneskja, sóóófiinn!
Já, duglega þú, þetta geturðu!
Komasvooo, fótabaðið og súkkulaðisjeikinn bíður ekki í allt kvöld! 
Vá hvað þú ert seig, er ekki bara maraþonið í sumar?!?
Þetta verður sko þitt síðast hlaup, sérðu ekki eftir að hafa lagt af stað?!?) 
:o)

Í þreksalnum er þetta öðruvísi, því þar er eins og gefur að skilja lítið hægt að hlaupa í hringi (!) og allt of auðvelt að ýta á einn takka og þá stoppar brettið! Ég verð að segja að í kvöld lét ég undan, var komin 4 km þegar Letipúkinn vann og brettið stöðvaðist (heheee, fyndið hvernig hægt er að beygja sagnir þannig að það virðist sem svo að brettið hafi sjálft séð um að stöðvast!).

Niðurstaðan er sú að þreksalurinn hentar okkur þremur engan veginn því hann er jú kaótískur, of fullur af fólki, of lítill og allt það. Í þreksalnum vinnur Letipúkinn líka alltaf, þannig að við ætlum ekkert að fara þangað aftur í bráð.

Vonum bara að ísa taki að leysa í bráð eða að naglaskór detti af himnum ofan :o)

föstudagur, 4. febrúar 2011

Á þessum síðustu og verstu

Á þessum síðustu og verstu, þegar fólk keppist við að skera niður hvar sem því er við komið og flestir berjast við að halda sig við nauðþurftir hefur áleitin spurning vaknað á mínu heimili: hvað á maður að leyfa sér? Á maður að drekka kaffi? Má kaupa rauðvínsflösku endrum og eins?
Skömmtunarseðill frá 1945. Þarna var kreppa.

Í mínu heimilisbókhaldi er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að niðurskurði, því eitthvað þarf jú að hengja upp eigi að skera það niður. Ég bölva mér daglega fyrir að vera ekki áskrifandi að Stöð 2 ásamt öllum aukarásunum. Ég vildi að ég væri áskrifandi að Gestgjafanum, Mannlífi og Mogganum. Þá gæti ég sagt þessu öllu saman upp og liðið betur. Ég vildi að ég reykti og drykki óhóflega. Óskandi væri að krakkarnir væru í dýru tómstundastarfi (helst á fleirum en einum stað). Ef ég bara væri með ávexti í áskrift eða eitthvað!
En nei, hófsemisfólkið á þessu heimili hefur ekki verið mikið fyrir að spreða í þessa hluti og þess vegna er ómögulegt að ætla sér að skera niður á þessum sviðum.

Í tölvupósti sem mér barst í dag var mér tjáð að ef ég ætti mat í ísskápnum, föt og skó og ætti rúm og þak yfir höfuðið þá væri ég ríkari en 75% alls mannkyns. Í sama pósti fékk ég þær upplýsingar að ef ég ætti bankareikning, peninga í veskinu og smáaura í bankanum þá tilheyrði ég þeim 8% mannkyns sem teldist vera að gera það gott!
 
Þetta eru ansi hreint merkilegar upplýsingar miðað við hversu skítt manni finnst nú allt vera hérna þessi misserin :) Þessir hlutir eru nefnilega almennt ekki taldir til munaðar, en allir með tölu eru þeir þó í minni eigu. Samkvæmt þessum upplýsingum þá hefur maður það gott, svona á heimsmælikvarða, svo ekki kvartar maður.

Samt eru margir sem kvarta og hafa það skítt. Ég fer samt ekki ofan af því að áður en hægt er að kvarta og kveina þá er nauðsynlegt að fara yfir bókhaldið og skera niður. Sá sem er blankur en er samt með allar sjónvarpsstöðvarnar verður að segja þeim upp áður en hægt er að kvarta. Sá sem er áskrifandi að blöðum og tímaritum þarf að segja þeim upp áður en hægt er að kvarta yfir blankheitum.

Og sá sem angar af tóbakslykt... en kvartar samt sárt yfir blankheitum... ég segi við hann fullum hálsi:
"Þetta eru ekki þínir síðustu og verstu!"

fimmtudagur, 3. febrúar 2011

Zumba

Ég er í Zumba.
Veit ekki alveg hvort þetta er dans eða eróbikk, enda skiptir það litlu því hvorugt tilheyrir minni sterku hlið.
Eins og er þá er ég eins og konan í græna bolnum aftast í þessu myndbandi:

Þetta er samt gaman og maður er aðeins betri með hverjum tíma og eftir þessar 6 vikur standa vonir mínar til að þetta hafi nú skánað aðeins svona á heildina litið :)

sunnudagur, 23. janúar 2011

Mynd vikunnar

Maður er svona næstum því að standa sig í færsluflokknum Mynd vikunnar. Reyndar er það nú þannig að síðustu daga hef ég svipast um eftir myndefni, en ekki haft erindi sem erfiði. Hér á ég auðvitað við skort á myndefni utandyra, hér innandyra er ekki þverfótað fyrir myndefni daginn út og inn þar sem sambýlisfólk mitt boðið og búið að stilla sér upp hvenær sem er :)

Utandyra hefur verið frekar súldarlegt um að litast upp á síðkastið, allt blautt og brúnt. Ekki eitt fallegt sólarlag síðan um áramót.

Þess vegna er mynd vikunnar að þessu sinni úr sömu syrpu og síðast, frá ferð minni niður á Breið á gamlársdag. Ég Gimpaði þessa mynd aðeins og sjá:
31.12.2010 - Ljósbrot
Kannski er sólin og ljósbrotið aðeins of mikið af því góða, en þegar maður er að æfa sig þá er nú öllu tjaldað til!

Nú er bara að vona að veðrið fari að lagast, ég get a.m.k. ekki tekið mynd af þessu brúna og blauta út um allt, það er alveg á hreinu :)

sunnudagur, 16. janúar 2011

Afmælisbarn dagsins

Unglingurinn minn er búinn að fylla tuginn og kominn á tvítugsaldurinn blessaður. Hann var mældur í bak og fyrir og í ljós kom að hann hefur stækkað um heila 3 cm síðan í lok október. Út af þessu öllu saman var hér heljarinnar veisla í dag og drengurinn vel sáttur eftir daginn eins og sést á meðfylgjandi mynd.
10 ára Vinur

fimmtudagur, 13. janúar 2011

Mynd vikunnar

Viti - Vitrari
Nú hef ég endurheimt myndavélina mína. Eða þannig, ég fékk reyndar nýja í dag því sú sem ég fékk í jólagjöf bilaði á gamlársdag. Það var bara komið myrkur í dag þegar ég fékk hana, þannig að mynd vikunnar er frá því á gamlársdag.

Nú er bara að vona að mynd vikunnar verði vikulegur viðburður hér eftir!